16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4220 í B-deild Alþingistíðinda. (3573)

399. mál, staða skrifstofustjóra í félagsmálaráðuneytinu

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Á þskj. 646 er borin fram fsp. sem ég vil svara. Efnið er: Hvaða rök voru lögð til grundvallar þegar ráðið var í skrifstofustjórastöðu í félmrn. 1. mars s. l. og telur jafnréttismálaráðherra að þessi ráðning hafi verið í samræmi við jafnréttislög?

Herra forseti. Aðdragandi þessa máls er sá að fyrrv. skrifstofustjóri í félmrn. andaðist í ágúst á s. l. ári. Um svipað leyti var ljóst að einn af deildarstjórunum í rn. hygðist notfæra sér heimild í lögum um starfsaldur og láta af störfum við s. l. áramót. Ákveðið var að auglýsa samtímis tvær stöður deildarstjóra í rn. Auglýsingin birtist í Lögbirtingablaðinu 11. desember s. l. Gert var ráð fyrir að hlutverk annars hinna tveggja nýju deildarstjóra yrði yfirumsjón með fjármálum, framkvæmd fjárhagsáætlana og umsjón með fjárreiðum stofnana og embætta sem heyra undir rn. Enn fremur var að því stefnt að þessi deildarstjóri sæi um nokkra þætti sveitarstjórnarmála. Hugmyndin var að hinn deildarstjórinn sæi um ýmis málefni lögfræðilegs eðlis á vegum rn.

Umsækjendur um fyrrnefnda starfið voru fimm karlar en engin kona. Í það starf var skipaður Húnbogi Þorsteinsson. Umsækjendur um síðarnefnda starfið voru fjórar konur og fimm karlar. Í það starf var skipuð Þorgerður Benediktsdóttir sem undanfarin 10 ár hefur verið lögfræðingur hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Í 11. gr. laga um Stjórnarráð Íslands nr. 73/1969 er heimild til að skipa deildarstjóra ráðuneytis skrifstofustjóra. Með tilvísun til þessara laga var skipaður skrifstofustjóri í félmrn. hinn 1. mars s. l. Skv. reglugerð um Stjórnarráð Íslands frá 1. janúar 1970 fer félmrn. með mál sem skipta má í þrjá meginflokka: sveitarstjórnarmál, húsnæðismál og vinnumál. Frá gildistöku þessarar reglugerðar hafa tvær nýjar deildir tekið til starfa í rn. Önnur er vinnumáladeild en hin deildin fer með málefni þroskaheftra og fatlaðra. Starfssvið skrifstofustjóra í félmrn. hefur verið og verður áfram að hafa yfirumsjón með fjármálum rn., framkvæmd fjárhagsáætlana og fjárreiðum stofnana og embætta sem heyra undir rn. Hann sér einnig um nokkra þætti sveitarstjórnarmála. Hann þarf jafnframt að þekkja vel til allra málaflokka sem heyra undir rn. og hafa góða samstarfshæfileika við annað fólk.

Húnbogi Þorsteinsson, sem skipaður var skrifstofustjóri í félmrn., hefur verið framkvæmdastjóri myndarlegs og vaxandi sveitarfélags í rúm 16 ár. Aðeins einn núverandi sveitar- eða bæjarstjóri í landinu hefur lengri starfstíma en hann á þessum vettvangi. Hann hafði áður gegnt ýmsum stjórnunarstörfum í nær áratug. Hann gerþekkir því sveitarstjórnarmálin og þekkir einnig vel til húsnæðismála og vinnumála. En báðir þessir málaflokkar snerta mikið sveitarfélögin. Hann hefur undanfarið setið í stjórnarnefnd um málefni fatlaðra og er því einnig vel kunnugur þeim málum. Hann hefur mikla reynslu á sviði bókhalds, áætlunargerða og fjármálastjórnar. Hann er m. a. einn þriggja höfunda þess bókhaldskerfis sem sveitarfélögin í landinu nota við bókhald, reikningsskil og áætlanagerð.

Störf framkvæmdastjóra sveitarfélaga eru oft talsvert umdeild og það heyrir til undantekninga að menn ílengist í þeim meira en eitt eða tvö kjörtímabil. Á þeim tíma sem Húnbogi Þorsteinsson hefur verið sveitarstjóri í Borgarnesi hafa verið ýmsir pólitískir meiri hlutar í sveitarstjórninni. En hann hefur notið trausts og stuðnings allra hinna pólitísku flokka sem aðild hafa átt að sveitarstjórninni. Húnbogi hefur ekki aðeins notið almenns trausts í sinni heimabyggð. Honum hafa einnig verið falin ýmis störf fyrir sveitarfélögin í kjördæminu og í landinu öllu. Hann sat t. d. lengi í stjórn Samtaka sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi og var formaður þeirra um skeið og hann hefur undanfarin ár setið í stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga. Ég hlýt að biðjast undan því að ræða hér frekar um eða bera saman kosti einstakra starfsmanna í rn. mínu. Ég tel slíkt engan veginn við hæfi. Ég tel því að þegar sé komið fram allt sem þarf að koma fram af minni hálfu í þessu máli.

Herra forseti. Ég hef rakið hér í stuttu máli hvaða rök lágu til grundvallar skipunar Húnboga Þorsteinssonar í starf skrifstofustjóra félmrn. Með vísan til þessara svara svara ég einnig seinni lið fsp. afdráttarlaust játandi.