16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4222 í B-deild Alþingistíðinda. (3574)

399. mál, staða skrifstofustjóra í félagsmálaráðuneytinu

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það mál sem hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir vekur hér athygli á með fsp. er vissulega eðlilegt að komi hér til umræðu á Alþingi. Það hlýtur að valda miklum vonbrigðum þegar það liggur fyrir sem hér hefur komið fram í sambandi við veitingu þessa embættis innan félmrn. Það liggur við að maður vorkenni hæstv. félmrh. að rata í þá ógæfu sem hann hefur hér greint frá og reynt að verja í sambandi við þessa stöðuveitingu.

Nú vil ég á engan hátt kasta rýrð á þann mann sem veitt var skrifstofustjóraembætti í félmrn. (Gripið fram í: Þú ert að kasta rýrð á hann.) Hann þekki ég að nokkru sem sveitarstjórnarmann frá þeim tíma sem ég starfaði sem ráðherra og átti við hann góð samskipti. En málið snýst ekki um það. Málið snýst um það hvort embættismenn í Stjórnarráði Íslands eiga von á því að geta fengið tilfærslu í störfum á grundvelli starfs og reynslu, og alveg sérstaklega um það í þessu tilviki hvort hlutur kvenna sé metinn til jafns við karla og tekið tillit til þeirra aðstæðna sem þarna eru, út frá jafnréttislögum. Mér þykir einsýnt, miðað við þær upplýsingar sem ég hef fengið um þetta mál og fram hafa komið hér í umr., aðrar upplýsingar hef ég ekki, að hér hafi verið vegið að löggjöfinni á mjög áberandi hátt. Það hljótum við að fordæma, hv. alþm., ef við meinum í rauninni eitthvað með stuðningi við jafnréttissjónarmið þegar til stöðuveitinga og á hólminn kemur.

Ég vek athygli á því, sem raunar kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að nokkrir valinkunnir stuðningsmenn Framsfl. sáu ástæðu til þess að skora alveg sérstaklega á félmrh. að virða jafnréttissjónarmiðin í sambandi við stöðuveitingar í sínu rn. Þar á meðal voru Þórarinn Þórarinsson fyrrv. alþm., Sigrún Magnúsdóttir, Sigrún Sturludóttir, Ásta Jóhannesdóttir og Inga Þyri Kjartansdóttir, svo nokkrir séu nefndir sem stóðu að þeirri áskorun. Ég vil taka undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram frá hv. fyrirspyrjanda og ég harma það sem hér hefur gerst og verið ákveðið af félmrh. Ég held að menn þurfi að varast þessi víti framvegis.