16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4223 í B-deild Alþingistíðinda. (3576)

399. mál, staða skrifstofustjóra í félagsmálaráðuneytinu

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég hlýt að lýsa óánægju minni með svör hæstv. félmrh. við fsp. okkar Kvennalistakvenna. Honum er kannske vorkunn eins og fleiri hafa nú sagt hér. Málstaðurinn er ekki góður, eða svo að fastar sé að orði kveðið, hann er slæmur. Með gjörðum sínum hefur hann slegist í hóp þeirra sem tala fagurt um nauðsyn þess að auka hlut kvenna í áhrifastöðum en opinberar svo, að því er virðist blygðunarlaust, við fyrsta tækifæri að hugur fylgir ekki máli.

Því miður er þetta dæmi aðeins eitt af allt of mörgum um það hvernig menn leyfa sér að vanvirða rétt þeirra kvenna sem fúsar eru til að taka að sér ábyrgðarstörf. Ég leyfi mér að fullyrða að um það eru mörg dæmi, miklu fleiri en menn efalaust gera sér grein fyrir, því fæst þeirra koma nokkurn tíma upp á yfirborðið. Því miður eru konur sjálfar nefnilega allt of hlédrægar og tregar til að sækja og verja sinn rétt, treysta sér hreinlega ekki í þann slag, jafnvel þótt að baki þeirra standi heilt byggðarlag eins og ég þekki m. a. nýlegt dæmi um.

Ákvörðun félmrh. verður vafalaust ekki breytt þótt hún sé augljóslega að mínu mati óréttmæt. En það er von okkar, sem bárum fram þessa fsp., að hún sé ráðamönnum nokkur viðvörun. Við munum nota öll tækifæri sem gefast til að vekja athygli á mismunun af þessu tagi og vinna á þann hátt að þeirri hugarfarsbreytingu sem greinilega er þörf. Aldrei slíku vant, þegar jafnréttismál eru á dagskrá, eru furðu margir alþm. hérna viðstaddir og því ber að fagna. Mig grunar reyndar að a. m. k. þó nokkrir þeirra sem eru fjarverandi hafi tekið aðalfund Vinnuveitendasambandsins og tilheyrandi kokkteil fram yfir þennan þingfund. Það er svo sem aldrei að vita nema þátttaka í þeim fundi auki þeim skilning á nauðsyn og réttmæti þess að auka hlut kvenna í ábyrgðarstöðum. Ég var á þessum fundi í morgun og þar voru bæði jakkaföt og bindisskylda við lýði.