16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4224 í B-deild Alþingistíðinda. (3578)

399. mál, staða skrifstofustjóra í félagsmálaráðuneytinu

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. svörin en ekki get ég lýst ánægju minni með þau. Málstaður hæstv. jafnréttisráðherra í þessu máli er ekki góður, eins og hér hefur komið fram, og er í því efni ekki verið að kasta neinni rýrð á þann einstakling eða starfshæfileika hans sem stöðuna hlaut — (ÓÞÞ: Það er verið að því.) — heldur aðeins verið að spyrja hvaða forsendur lágu fyrir stöðuveitingunni.

Þetta mál er í raun lýsandi fyrir aðstæður kvenna almennt úti á vinnumarkaðnum. Aðstæður sem marka konum stöðu og kjör hvað sem jafnréttislög og fögur orð segja. Sem betur fer hefur komist skriður á söfnun upplýsinga um kaup og kjör landsmanna eftir kynjum á síðustu árum, eða misserum réttara sagt. Ég vil í því efni benda á nýja skýrslu frá Framkvæmdastofnun ríkisins um vinnumarkaðinn árið 1983. Þar kemur fram að meðallaun karla árið 1983 voru tæpum 52% hærri en meðallaun kvenna þetta sama ár. Og hvernig skyldi standa á þessum ógnarlega mismun? Það eru margar ástæður, en ein þeirra eru þau sjónarmið sem ráðandi hafa verið við stöðuveitingar um langan aldur hér á landi, sjónarmið sem taka karla fram yfir konur þegar ráðið er í störf eins og það sem hér er um að ræða. Það má sannarlega halda því fram að málstaður hæstv. jafnréttismálaráðherra sé slæmur og má segja að það sé hneyksli að sjálfur ráðherra jafnréttismála skuli viðhalda þessum sjónarmiðum. Eins og ég sagði hérna áðan þá er þetta fyrst og fremst lýsandi fyrir aðstæður kvenna almennt úti á vinnumarkaðnum, aðstæður sem marka þeim stöðu og kjör hvað sem jafnréttislög eða fögur orð segja.