16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4225 í B-deild Alþingistíðinda. (3580)

399. mál, staða skrifstofustjóra í félagsmálaráðuneytinu

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sá ástæðu til þess að gera mér hér upp skoðanir úr stólnum þó að ég hefði tekið allt annað fram. Ég þekkti ekki nöfn aðila sem hér áttu í hlut fyrir þessa umræðu og þau skipta hér ekki máli í þessu samhengi, miðað við það að þeir einstaklingar sem í hlut áttu hafi allir verið hæfir til starfans. Og ég skildi hæstv. félmrh. svo að hann vefengdi það ekki. Þá kemur spurningin um viðhorf til þess að láta þá njóta sem höfðu rétt, siðferðilegan rétt til starfans og auk þess þann rétt sem jafnréttislög veita.

Ég vil benda á það að mál þetta hefur margar hliðar fyrir utan það sem hér er tilefni umræðu, jafnrétti milli kynja og jákvæð mismunun, þá varðar þetta einnig stjórnarráðið og opinbera starfsmenn. Það hefur ekki reynst allt of auðvelt að manna Stjórnarráð Íslands á liðinni tíð vegna þeirra kjara sem mönnum eru þar búin. Þar er mismunað í launum eftir starfsheitum, þar er t. d. mjög verulegur munur á launum deildarstjóra og skrifstofustjóra. Að mínu mati, af því að ég þekki þessi mál frá þeirri tíð sem ég starfaði í stjórnarráðinu, er bilið þar á milli í rauninni óeðlilega mikið eða óskiljanlega mikið launalega séð og vantar á að þar ríki meiri jöfnuður. Hvernig horfir með það að laða fólk til starfa í stjórnarráðinu ef menn geta síðan gengið þar inn í störf og stöður utan af hinum almenna vinnumarkaði? En ég vil líka bæta því við að ég þekki það af reynslu sem ráðh. hversu erfitt það er að tryggja rétt þeirra kvenna sem ráðnar eru til starfa í Stjórnarráði Íslands launalega séð, þó að þær standi jafnfætis körlum, að þoka þeim upp í þá launaflokka sem þeim ber raunverulega með fullri sanngirni, þannig að mismununin hún er víða, hún er innl í miðju Stjórnarráði Íslands að þessu leyti og þar þyrfti sannarlega að verða breyting á.