16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4226 í B-deild Alþingistíðinda. (3581)

399. mál, staða skrifstofustjóra í félagsmálaráðuneytinu

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það er verið að bera saman sjö ára starfsaldur deildarstjóra og 16 ára starfsaldur sveitarstjóra. Hyggja þm. að borgarstjóri Reykjavíkur væri gjaldgengur sem skrifstofustjóri í félmrn.? Hyggja þm. að sveitarstjórinn í Seltjarnarneshreppi væri gjaldgengur, bæjarstjórinn í Kópavogi, bæjarstjórinn á Akureyri? Hvar eru mörkin? Er það lögfræðiprófið sem er svona hátt skrifað? Hvar eru mörkin?

Halda menn virkilega að þeir sem hafa verið að vinna að þessum málum, sem rn. er yfir, afli sér ekki fremur þeirrar grunnþekkingar á verkefnunum en nokkrir aðrir? Er mönnum ekki ljóst að sveitarfélögin heyra undir félmrn.? Eða er komið svo að menn telji fyrst og fremst nauðsyn að koma á pólitískum höggum og krossfesta menn, því að vissulega mun þeim sem fyrir árásum eins og þessum verða fara á sama veg og Hreggviðssyni forðum, að þeim finnst eldurinn heitastur sem á eigin skinni brennur.

Ég hygg að menn þyrftu gjarnan að skoða það í hverju tilfelli fyrir sig hvaða hæfileika er verið að tala um, því að þeir hljóta að skipta öllu máli. Og mér finnst það skrýtið ef talið er fráleitt hér á Alþingi í umfjöllun um félmrn. að sveitarstjóri geti aflað sér þeirrar starfsreynslu sem skiptir máli fyrir skrifstofustjóra í félmrn.