16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4226 í B-deild Alþingistíðinda. (3582)

399. mál, staða skrifstofustjóra í félagsmálaráðuneytinu

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þær umræður sem hér hafa farið fram. Ég vil aðeins ítreka það að forsenda þess að ég valdi skrifstofustjórann eins og raun ber vitni er einfaldlega sú að ég valdi þann mann sem ég vissi sjálfur að var hæfastur til þess starfs sem ég var að skipa í.

Hins vegar er rétt að geta þess, af því að hér hefur verið talað um ákveðna persónu, að það er þannig skipt störfum í félmrn. að það eru ákveðin hlutverk sem vissir aðilar hafa þar. Sá starfsmaður sem hér hefur verið nefndur er yfirmaður lögfræðideildar rn. og það eru engin átök innan rn. um þessa skipulagsbreytingu sem gekk í gildi 1. mars s. 1., engin. Ég vil að gefnu tilefni taka það fram hér að eins og ég tók fram í upphafi ætla ég ekki að fara að ræða hér um starfsfólk í þessu rn. Þetta er allt saman hæfileikafólk og sú ákvörðun sem tekin hefur verið hefur ekki valdið neinum ágreiningi í rn. og ekki heldur við Jafnréttisráð.