16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4229 í B-deild Alþingistíðinda. (3586)

412. mál, olíuleit á landgrunni Íslands

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. svar hans og vil leggja á það mikla áherslu hversu nauðsynlegt er að fá úr því skorið hvort hér er um virkilega auðlind að ræða fyrir okkur því að ekki mun af veita á þessum síðustu og verstu tímum.

Fyrirspyrjandi minntist hér á rannsóknir sem þegar hafa verið gerðar og öllum virðist reyndar bera saman um að hafi engan veginn verið fullnægjandi. Hæstv. iðnrh. benti á að nú væri í rauninni um einstakt tækifæri að ræða fyrir okkur að fá hið norska rannsóknaskip til að halda þessum mælingum áfram og fá frekari vitneskju um setlögin á þessu svæði. Ég vil leggja á það sérstaka áherslu að úr þessu fáist skorið og viðbótarfjárveiting fáist til þessa verkefnis.

Ég vil enn fremur í þessu sambandi minna á frv. til laga sem þm. Lárus Jónsson og Eyjólfur Konráð Jónsson fluttu á þinginu 1981–1982 með ítarlegri grg. um þessi mál og þá vitneskju sem þá var fyrir hendi, sem raunar hefur ekki mikið bæst við síðan ef frá er skilin þessi grunna borun sem framkvæmd var á árinu 1982.

Þá vil ég enn fremur minna á að það hefur komið fram í blöðum að stöðug segulskekkja kemur fram út af Bakkaflóa. Vissar líkur benda til þess að þessi segulskekkja stafi af misgengi sem gjarnan bendir til að um setlög geti verið að ræða.

Ég vil ekki orðlengja þetta öllu meira, heldur leggja áherslu á það að síðustu að þetta mál fái framgang þann sem hæstv. iðnrh. var að leggja til áðan.