16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4230 í B-deild Alþingistíðinda. (3587)

412. mál, olíuleit á landgrunni Íslands

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti: Það er eðlilegt að spurt sé hér á Alþingi um hvað líði áframhaldandi athugun á hugsanlegum auðæfum í hafsbotni nálægt landinu og, eins og hv. fyrirspyrjandi vék að, varðandi Jan Mayen-svæðið og það samkomulag sem þar er í gildi. Varðandi Jan Mayen-rannsóknirnar hefur hæstv. iðnrh. greint hér frá því að þar hafi undirbúningur farið fram og fyrirhugað sé að ráðast þar í athuganir og er það allt góðra gjalda vert, en hitt virðist hafa dregist að áframhald yrði á rannsóknum úti fyrir Norðurlandi þar sem verulega þykk setlög virðast vera skv. segulmælingum sem fram fóru í nóvembermánuði 1978.

Á það ber vissulega að leggja áherslu að rannsóknir af þessu tagi ættu að heyra til skylduverka okkar sem fullvalda ríkis sem hefur yfir 200 mílna auðlindalögsögu að ráða. Auðvitað er fjármagn okkar til slíkra rannsókna takmarkað hverju sinni, en þeim mun meiri ástæða er til þess að þoka þessum málum áfram frá ári til árs og reyna að tryggja ákveðna samfellu og að sjálfsögðu á grundvelli þeirra upplýsinga sem fást hverju sinni.

Í sambandi við rannsóknir sem tengjast hugsanlegri olíu eða olíugæfum setlögum þarf að sjálfsögðu að hafa mengunarþáttinn mjög ríkulega í huga, einnig varðandi rannsóknarboranir ef til þeirra kemur. Það á auðvitað alveg sérstaklega við ef borað er á hafsbotni og ætti út af fyrir sig ekki að þurfa að hvetja til þess, en mér finnst að við megum aldrei gleyma þessum þætti.

Fyrirspyrjandi minnti á rannsóknirnar á Austur-Grænlandi, ég hef nú skilið það svo að þær séu á landi, sem nú þegar hafa verið ráðgerðar. Þar er um að ræða mikið fyrirtæki, eftir því sem fregnir herma, sem verið er að ráðast í, og einnig mun áhuginn beinast að hafsvæðum þar úti fyrir þó að ekki séu ráðnar þar rannsóknarboranir enn sem komið er. Þetta gefur tilefni til þess að íslensk stjórnvöld fylgist sem best með því sem þarna fer fram með tilliti til hugsanlegrar mengunarhættu.

Ég vildi sérstaklega leggja áherslu á samfellur í þessum ranasóknum og að við, þótt af litlum efnum sé, leggjum ætíð nokkuð til þeirra frá ári til árs og menn hafi góðar gætur á mengunarhættunni í tengslum við olíuleit.