17.04.1985
Efri deild: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4283 í B-deild Alþingistíðinda. (3604)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Á fundi fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar í morgun voru lagðar fram brtt. við frv. til lánsfjárlaga. Þessum tillögum hefur nú verið útbýtt hér í deild á þskj. 725 og formaður hv. fjh.- og viðskn. mælt fyrir þeim.

Það má öllum hv. dm. vera ljóst að sama og enginn tími hefur gefist til að íhuga þessar tillögur, hvorki í nefndinni né nú á milli nefndarfundar og þingfundar. Þótt okkur öllum, sem hér sitjum, sé ljós nauðsyn þess að lánsfjárlög verði afgreidd hið fyrsta eru þetta náttúrlega lítt sæmandi vinnubrögð hér á hv. Alþingi. Hafa bæði ég og aðrir hv. þm. oft gert það að umtalsefni hve mikið liggur við að fá vinnubrögðum af þessu tagi breytt til betri vegar, nú síðast á síðasta fundi Ed. við umr. um frv. til þingskapalaga, og ítreka ég nauðsyn á slíkum breytingum hér og nú einu sinni enn.

Þær brtt. við frv. til lánsfjárlaga, sem fram eru komnar með þessum hætti, eru ekki smávægilegar. Þær skipta meðferð á hundruðum millj. kr. og mér hrýs hugur við þeirri fljótaskrift sem nú er viðhöfð á afgreiðslu þeirra. Sem þm. í stjórnarandstöðu við þessar aðstæður get ég lítið annað gert en að fara fram á það við hæstv. ráðh., fjmrh. og iðnrh., að þeir gefi hv. þdm. hér við 3. umr. málsins viðhlítandi skýringar á þessum brtt. öllum og forsendum þeirra. Og ég vil láta þess getið að ég held að það sé ekki stjórnarandstöðuþm. einum sem er vöntun á slíkum skýringum. Hið sama gildir um velflesta stjórnarþm. hér í hv. deild, trúi ég. Ég fer því fram á að hæstv. fjmrh. komi hér í stólinn á eftir og skýri til fullnustu þessar brtt. Hvað varðar 1. brtt., þ. e. brtt. við 3. gr. frv., hafði ég undirbúið mig með sérstakar spurningar til hæstv. iðnrh. sem hann hefur að hluta til svarað. Vil ég þakka honum fyrir það, en það er ýmislegt fleira í þessu máli sem mig langar til þess að rekja mig eftir.

Í fyrsta lagi, eins og fram hefur komið, voru Landsvirkjun áætlaðar 1200 millj. í upphaflegu frv. til lánsfjárlaga. Í meðferð frv. milli 1. og 2. umr. var þessi upphæð lækkuð niður í 884 millj. kr. Fjh.- og viðskn. fékk aldrei sundurliðun á þeim niðurskurði, sem þar átti sér stað, þrátt fyrir beiðni. En nú hefur hæstv. iðnrh. skýrt okkur frá hvers eðlis sá niðurskurður var og er fram komið að hann er að finna í bréfi dags. 28. jan. 1985. Vil ég þá fyrst og fremst nota tækifærið hér nú til þess að ítreka að slíkur dráttur á miðlun upplýsinga eigi sér í framtíðinni ekki stað. Þetta er í fyrsta skipti sem hv. nm. heyra þessa sundurliðun og það við 3. umr. málsins og það þrátt fyrir að beiðni hafi komið fram um að fá sundurliðunina. Þótt hæstv. iðnrh. hafi gert ágæta grein fyrir því hvernig þessum niðurskurði er háttað, hefði sannarlega ekki verið verra að hafa hana pínulítið nákvæmari svo að betur væri hægt að átta sig á honum.

Í frv. til lánsfjárlaga eins og það lítur úf eftir 2. umr. hér í Ed. stendur talan 884 millj. kr. fyrir Landsvirkjun. Á fundi fjh.- og viðskn. í morgun fengum við hins vegar plagg í hendur þar sem reiknaðar voru fram hækkanir á þessari upphæð Landsvirkjunar vegna þess sem nefnt var „mismunandi gengisforsendur“. Hæstv. iðnrh. hefur nú gert grein fyrir því hvað átt er við með mismunandi gengisforsendum að þessu leyti og þakka ég það en það var engum hv. nm. kunnugt um í morgun í n. Hins vegar bregður svo við að þessar mismunandi gengisforsendur eru ekki reiknaðar út frá tölunni 884 millj. kr., heldur tölunni 953 millj. kr. Held ég að mér sé óhætt að segja að nm. hafi í morgun rekið upp stór augu yfir þessum mismunandi tölum. Þegar nánar var að gáð, fylgdi því plaggi frá Landsvirkjun, sem við fengum í hendurnar í morgun, annað plagg, sem var bréf frá hæstv. iðnrh. til forstjóra Landsvirkjunar, dags. 29. mars s. 1., þar sem útskýrt er að þessi 70 millj. kr. hækkun á fölunum, sem þarna hefur átt sér stað, sé til komin skv. ákvörðun hæstv. iðnrh.

Bréfið sjálft er hins vegar í sannkölluðum véfréttarstíl og á lítt skiljanlegri íslensku, en það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Með vísun til bréfs yðar, dags. 28. þ. m., um framkvæmda- og rannsóknaáætlun Landsvirkjunar fyrir árið 1985 staðfestist að við áætlanatöku yðar er miðað í lánsfjáráætlun, þannig að talan 884 millj. kr. er færð inn með heimild að 70 millj. kr. viðbót, ef endurskoðun á tímasetningu Blönduvirkjunar leiðir ekki til frestunar framkvæmda um eitt ár.“ — „Ekki“ er þarna undirstrikað.

Þetta litla bréf olli mér nokkrum heilabrotum því að ég var ekki viss um að minn móðurmálsskilningur færi saman við ráðuneytismálskilning í þessu efni. En ég las það út úr þessu að þetta þýddi að ekki ætti að fresta framkvæmdum við Blönduvirkjun, eins og áætlað var, heldur ráðast í virkjunina og fara af stað skv. upphaflegri áætlun. Nú hefur hæstv. iðnrh. staðfest það hér, í ræðu sinni áðan, að ekki stendur til, ef ég hef skilið hann rétt, að fresta Blönduvirkjun um það ár sem umtalað hafði verið að gert skyldi.

Iðnrh. nefndi í sama orðinu og hann greindi frá því að fallið hefði verið frá frestun Blönduvirkjunar að allar líkur væru á því að samningar mundu nást á þessu ári um stækkun álversins í Straumsvík og vegna þess, og eins vegna þess að ný orkuspá væri ekki tilbúin, væri álitið óráðlegt að fresta Blöndu enn um sinn. Þarna liggur hundurinn grafinn og það sést líka mjög glögglega ef menn skoða í samhengi þessa hækkun á fjárveitingu til Landsvirkjunar og b-lið í brtt. við 3. gr. því þar er veitt heimild til allt að 82 millj. kr. hækkunar til viðbótar ef um semst varðandi stækkun álversins.

Það vitum við hér, hv. þm., að auðvitað nær ekki nokkurri einustu átt að halda áfram að fjárfesta dýr erlend lán upp á hundruð milljóna kr. í framleiðslu sem annaðhvort er óseljanleg á svo mikið sem kostnaðarverði eða þá óseljanleg með öllu, sbr. þær umframbirgðir af þessari framleiðslu, þ. e. raforkunni, sem við eigum þegar fyrir í landinu. Slíkt er hreinasta vitfirring og á það hef ég oft bent héðan úr ræðustól. Ég vil hvað Blönduvirkjun varðar benda mönnum á að vextir af þeim lánum, sem þegar hafa verið tekin til Blönduvirkjunar, nema nú í ár 116 millj. kr. Það er fjármagnskostnaður af þeim lánum sem þegar hafa verið tekin og er þá sagan ekki nándar nærri öll.

Vitfirring, orkuveisla — hvaða orð sem menn vilja nota yfir þetta nær þetta ekki nokkurri átt. Og þess vegna hlýt ég að krefja hæstv. iðnrh. svara um það nú, fyrst hann hefur lýst því yfir að samningar séu komnir á rekspöl við Alusuisse um stækkun álversins í Straumsvík og að það sé ástæðan fyrir því að áfram skal haldið að fjárfesta í dýrum orkuframleiðslutækjum með dýrum erlendum lánum, á hvaða stigi nákvæmlega þeir samningar eru, um hvað er rætt í þeim samningum, og ef þeir ganga ekki eftir eins og hæstv. iðnrh. kann að hafa hugsað sér, hvort hæstv. iðnrh. hafi þá í huga einhverja aðra sölu á þeirri gríðarlegu orku sem hér um ræðir. Það fer tvennum sögum af því hvort áætla beri að það séu 450 gwst. umfram í núverandi kerfi Landsvirkjunar eða 475 gwst. Þetta er alveg gríðarlegt orkumagn hvor talan sem tekin er. Blanda framleiðir annað eins og hér er verið að leggja til að veitt sé dýru erlendu lánsfé til að auka þessa rándýru framleiðslu enn. Því hlýt ég að spyrja hæstv. iðnrh. þessara spurninga: Hvernig stendur með samningana við Alusuisse? Og hins vegar: Ef þeir ganga ekki eftir eins og hann kann að hafa hugsað sér, hefur hann þá hugsað sér einhverja aðra möguleika fyrir alla þessa orku sem þarna um ræðir, þessa rándýru orku?

Ef hæstv. iðnrh. kemur hér í stólinn á eftir og lýsir því yfir að þessir samningar, sem hann hefur hér nefnt og er hér að gera að umtalsefni, séu slíkt trúnaðarmál að ekki sé vogandi að lýsa neinu yfir hér úr ræðustól, sem er opinber vettvangur, þá vil ég fara þess á leit við hann hér og nú að hið allra bráðasta geri hann þingflokkunum, þá í trúnaði, grein fyrir því hvernig þessar viðræður standa. Við höfum þegar á þessu þingi þó nokkra reynslu af vinnubrögðum hæstv. ráðh. í þessum málum og ég ætla að vona að hann endurtaki þau ekki hér og nú.

Að lokum vil ég endurtaka þá ósk mína að brtt. á þskj. 725, þ. e. þær þrjár sem þar eru fyrir utan 1. brtt. sem hæstv. iðnrh. hefur að hluta gert grein fyrir, verði skýrðar af hæstv. fjmrh. og að hæstv. iðnrh. svari þeim spurningum sem ég hef sérstaklega beint til hans. Álit minni hl. fjh.- og viðskn., sem ég er aðili að, á þessu frv. til lánsfjárlaga í heild sinni hefur þegar komið fram og ég fjölyrði ekki meira um það.

En í lokin ein spurning. Ef brtt. á þskj. 725 ná fram að ganga spyr ég: Þarf ekki að breyta þeirri heildarfjárhæð sem nú stendur í 1. gr. frv. til þess að lánsfjárlög stemmi? Ég sé enga brtt. við 1. gr. og veit ekki .hvort hún er nauðsynleg, en ég vek athygli á þessu.