17.04.1985
Efri deild: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4285 í B-deild Alþingistíðinda. (3605)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Afgreiðsla lánsfjárlaga að þessu sinni ætlar að verða heldur en ekki afturfótafæðing. Því hafði verið lýst yfir nokkru eftir að lánsfjáráætlun var lögð fram að hún yrði lækkuð um 1000 millj. kr. En þegar til kom reyndist sá niðurskurður sýndarmennskan ein, eins og hér var rakið við 2. umr. málsins, vegna þess að af þessum niðurskurði bar um hreina bókhaldsbreytingu að ræða að verulegu leyti, ríkissjóður látinn taka talsvert lægra lán en áður var reiknað með án þess að nokkru hafi verið breytt í fjárlögum eða forsendur þeirra hafi nokkuð hreyfst.

Sama gilti um niðurskurðinn á erlendum lántökum einkaaðila úr 1836 millj. í 1500 millj. Þar var einfaldlega um pennastriksaðferð að ræða, tölunni var breytt til að hagræða þannig að lántakan sýndist verða minni en ella. En enginn efast um það að lántakan hjá einkaaðilum verður í minnsta lagi sú sem upphaflega var gert ráð fyrir í lánsfjáráætlun. Því er hér um hreina sýndarmennsku að ræða.

Hins vegar var ljóst að sá eini niðurskurður, sem einhver botn var í, var niðurskurðurinn hjá Landsvirkjun þar sem lántökuheimild Landsvirkjunar var lækkuð úr 1200 millj. í 884 millj. kr., eða um 316 millj. Það sem nú er að gerast er hins vegar það að verið er að hækka lántökuheimild Landsvirkjunar á nýjan leik um 234 millj. Stendur þá ekki mikið eftir af öllum niðurskurðinum.

Staðreyndin er sú að það sem ríkisstj. hefur gert við meðferð málsins á seinustu mánuðum er ekki það að lækka lánsfjáráætlun um 1000 millj. heldur hefur verið um að ræða hækkun sem nemur álíka hárri upphæð eða rétt í kringum 900–1000 millj. kr. Það er það sem gerst hefur ef tekið er tillit til þess að lækkunin á erlendum lántökum einkaaðila og lántökum ríkissjóðs er ekki neitt til að treysta á.

Í þessu sambandi var athyglisvert að heyra hæstv. iðnrh. gera grein fyrir því hér áðan að þessi hækkun á lántökum Landsvirkjunar stafaði af breyttri gengisviðmiðun. En hvert var svo gengið sem hann nefndi? Kannske hafa menn tekið örlítið eftir því. Jú, hann sagði að í staðinn fyrir gengisviðmiðunina 33,10 kr. á dollar þætti nú réttara að miða við gengið 38,41. (Iðnrh.: Það var fjárlaga- og hagsýslustofnun sem vann þessa tölu.) Ég er ekkert að efast um það. En það vill svo til að birt er gengisskráning hér í blöðunum á hverjum einasta degi og það þarf enga hagsýslustofnun til að segja okkur að gengi dollarans er ekki 38,41 kr. Það er allt annað. Það er í dag 40,75 kr.

Enda þótt dollarinn hafi heldur verið að lækka í verði dettur víst engum í hug að hann muni detta niður fyrir 40 krónurnar þegar haft er í huga að ríkisstj. áformar og er með í gangi talsverða gengislækkun og gengissig um þessar mundir og áframhaldandi. Það sést best á því að á seinustu tveimur mánuðum hefur dollarinn að vísu sigið niður lítillega, um rúmlega 1 kr., hann hefur sigið niður um 3%, en aftur á móti hefur sterlingspundið á sama tíma hækkað um 7 kr., eða um 15%. Í heildina tekið sýnist manni að meðalgengi erlendra mynta hafi hækkað rétt í kringum 7% á seinustu tveimur mánuðum. Sem sagt, gengið, sem Landsvirkjun miðar hér við, er bersýnilega kolvitlaust, langt fyrir neðan það sem nokkrum heilvita manni getur dottið í hug að verði meðalgengi þessa árs. Það er því ljóst að lánsfjáráætlunin er að þessu leyti byggð á kolvitlausum forsendum og erlendar lántökur verða langtum meiri en hér er verið að telja mönnum trú um.

Eins og kunnugt er hefur ríkisstj. miðað við það margyfirlýst að langtímaskuldir þjóðarinnar fari ekki yfir 60% af þjóðarframleiðslu. En þessi yfirlýsing, þetta fyrirheit, hefur reynst nafnið tómt og var kannske alltaf vitað að það væri ekkert annað en áróður og blekking því að Seðlabankinn áætlar þetta hlutfall 63.9% miðað við tölurnar í lánsfjáráætlun eins og þær voru við 2. umr. Síðan er verið að hækka tölurnar nú enn meira og raunar ljóst að margar tölurnar í lánsfjáráætlun eru verulega vanáætlaðar og út úr öllu korti eins og ég hef hér rakið.

Virðulegi forseti. Það er ekki ástæða til að fjalla frekar um þetta mál. Það er svo ljóst sem verða má að það stefnir í miklu meiri erlendar lántökur en þessi lánsfjáráætlun gerir ráð fyrir og öll fyrirheit ríkisstj. um lækkun á erlendum lántökum, sem eru þó, þau seinustu, ekki nema nokkurra vikna gömul, eru þegar fokin út í veður og vind.

Hæstv. iðnrh. var að fræða okkur um það að allar líkur væru á því að á fyrri hluta þessa árs yrði samið við svissneska álhringinn um stækkun álversins í Straumsvík. Það voru fróðlegar fréttir, en ég hlýt að taka undir orð seinasta hv. ræðumanns, Sigríðar Dúnu Kristmundsdóttur, sem spurðist mjög eindregið fyrir um það hvað þessum samningaviðræðum liði. Ég vil þá fyrst og fremst spyrja af minni hálfu að því um hvaða verð eru horfur á að semjist. Hver er krafa íslensku ríkisstj. í sambandi við verð á raforku til svissneska álhringsins? Því að ef verðið á að vera langt undir kostnaðarverði, eins og löngum hefur áður verið, þá er það sannarlega ekki mikið fagnaðarefni að slík sala eigi sér stað og sannarlega ekki ástæða til þess fyrir þjóðina að taka erlend lán í stórum stíl til að geta staðið að slíkri orkusölu.

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins bæta því við í framhjáhlaupi undir lokin að þegar ég var fjmrh. voru hv. sjálfstæðismenn í stjórnarandstöðu og voru venjulega orðnir bandóðir hér í þinginu í desember- og janúarmánuði þegar ekki var búið að afgreiða lánsfjáráætlun. Nú er komið fram í aprílmánuð, m. a. s. seint í apríl og það er enn ekki búið að afgreiða lánsfjáráætlun úr fyrri deild. Ég hygg að þetta sé satt best að segja meiri seinagangur en verið hefur um nokkurt skeið, þó oft hafi lánsfjáráætlun verið seint á ferðinni, og í öllu falli í harla litlu samræmi við málflutning þeirra sjálfstæðismanna þegar þeir voru í stjórnarandstöðu.

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson): Virðulegi forseti. Ég skal nú gera tilraun til að tala nógu skýrt um með hvaða hætti sú tala, sem nú birtist um framkvæmdaáætlun Landsvirkjunar, er til orðin. Landsvirkjun skilaði nýrri niðurskurðaráætlun um framkvæmdir sínar í lok janúar. Þar gerði Landsvirkjun ráð fyrir framkvæmdum og vaxtagreiðslum sem næmu 954 millj. tæpum. Þar var búið að skera frá Kvíslaveitu og rannsóknir ýmiss konar en Blanda var enn inni með fulla framkvæmd.

Mér þótti líklegt þá að Blöndu mætti fresta um eitt ár. Fyrir því var upphæðin lækkuð um 70 millj., í 884 millj., en inni yrði haldið heimild um 70 millj. kr. í því falli að Blöndu yrði ekki seinkað um eitt ár. Við nýjar verðlagsforsendur hefur talan hækkað, breytingin frá 174 stigum í 206 þýðir 152 millj. kr. hækkun, úr 884 millj. í 1036 millj. kr. 70 millj. kr. geymslan, sem við töluðum um áður, verður 82 millj. Heimildin, sem menn hyggjast grípa til ef ekki er hægt að seinka Blöndu, er nú 82 millj. kr. miðað við hinar nýju verðlagsforsendur.

Ég ætla ekki hér og nú að fara að rifja neitt upp í sambandi við þær verðlagsforsendur sem menn á stundum hafa gefið sér við afgreiðslu lánsfjárlaga á hinu háa Alþingi, einnig og ekki síst í minni tíð, eins og hv. þm. Ragnar Arnalds orðaði það hér áðan. En ég minnist þess að oft vorum við í stjórnarandstöðu ansi gagnrýnir á þær verðlagsforsendur sem þá voru notaðar við afgreiðslu lánsfjárlaga t. a. m., að ég tali nú ekki um skattaprósentur og annað þess háttar. Það mætti í góðu tómi gjarnan rifja það upp.

Ég gat þess, af því það skiptir máli í þessu sambandi, að nú hefðu trippin rekist þann veg að ég teldi meiri líkur á en áður að samningar tækjust við Alusuisse og nýja félaga þeirra um 50% stækkun álversins í Straumsvík. Ég tek þó fram að engar formlegar samningaviðræður hafa átt sér stað. Alusuisse hefur leitað eftir samvinnuaðilum um byggingu þessa nýja fyrirtækis og það var í áætlunum þeirra frá upphafi, enda minnist ég þess að þeim mun hafa verið sett það að skilyrði að fá með aðra aðila til verksins. Nú hafa sem sagt líkur aukist á að þessir sameignaraðilar Alusuisse séu fundnir. En auðvitað er það rétt, sem fram kom hjá hv. 3. þm. Norðurl. v., að höfuðatriði þess hvort okkur tekst að ná samningum um þessa stækkun eða ekki er að við fáum viðhlítanlegt orkuverð. Vegna þess að ekki hafa enn verið settar á formlegar samningaviðræður og ekkert er handfast í málinu eru ekki efni til að skýra frá því frekar opinberlega. Ég mun hins vegar fljótlega og strax og ég tel að eitthvað það sé fram komið í málinu að upplýsandi sé fyrir framgang þess gæta þess að hafa samband við stjórnarandstöðuna hvort sem það þarf þá að vera í trúnaði eða ekki. En ég á ekki von á formlegum samningafundi fyrr en e. t. v. undir miðjan næsta mánuð.

Þetta er af þessu máli að segja. Auðvitað slakar fréttir í véfréttarstíl, en vegna þess að þetta hefur áhrif á þessar áætlanir sem menn nú eru að ganga frá í hv. deild hlaut ég að geta þessa.