17.04.1985
Efri deild: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4300 í B-deild Alþingistíðinda. (3614)

429. mál, verslun ríkisins með áfengi

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. hefur mæli hér fyrir frv. sem felur það í sér að einkasala ríkisins á tóbaki verði afnumin. Ég vil lýsa eindreginni andstöðu minni við þetta frv. og þá stefnu sem í því felst.

Ég tel að þessi breyting, sem í frv. felst frá því fyrirkomulagi sem nú er, sé algerlega ástæðulaus, það felist enginn ávinningur í henni fyrir þjóðina og að hún gæti haft þegar fram líða stundir í för með sér verulegt tekjutap fyrir ríkissjóð. Tóbak er vörutegund sem er nokkuð sérstaks eðlis. Ríkissjóður hefur ætlað sér verulega miklar tekjur af henni. Brúttóhagnaður ríkisins á þessu ári er áætlaður hvorki meira né minna en um 570 millj. vegna tekna af sölu tóbaks. Ég held að það sé ekkert óeðlilegt að hér ríki reglur um sölu þessarar vöru.

Það er hins vegar uppi sú kreddukenning meðal núverandi stjórnarflokka að það beri og eigi að rífa niður allan þann atvinnurekstur sem ríkið stendur fyrir. Það er stefna sem við Alþb.-menn teljum óskynsamlega og forkastanlega og vera hvorki í þágu skattgreiðenda né í þágu neytenda og enn síður í þágu þjóðarinnar í heild. Þessu frv. er sem sagt fyrst og fremst ætlað að þjóna undir þessa kreddukenningu og ég sé enga ástæðu til þess að vera samþykkur þeirri stefnu. Ég álít að frv. muni fyrst og fremst hafa það í för með sér að opna möguleika fyrir innflytjendur til að auka hagnað sinn, en betra tækifæri verður til að ræða þetta mál við 2. umr. málsins.