17.04.1985
Efri deild: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4304 í B-deild Alþingistíðinda. (3627)

415. mál, Myndlistaháskóli Íslands

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Hæstv. forseti. Hér liggur fyrir frv. til 1. um Myndlistaháskóla Íslands. Aðalefni þess er að Myndlista- og handíðaskóla Íslands sé breytt í skóla á háskólastigi og námssvið hans nokkuð aukið. Með þessu er kveðið á um nýja stöðu skólans í skólakerfinu og með frv. yrði Myndlistaháskóli Íslands ríkisrekinn sérskóli á háskólastigi, en núna standa ríki og sveitarfélag að rekstri hans.

Myndlista- og handíðaskóli Íslands eins og hann er nú er að fræðslu til sambærilegur við myndlistaháskóla víða í Evrópu, enda eru sambærilegar kröfur gerðar til nemenda Myndlista- og handíðaskóla Íslands og nemenda í háskólum erlendis. Lögin frá 1965, um Myndlista- og handíðaskóla Íslands, sem skólinn hefur starfað eftir, eru fyrir löngu orðin úrelt og því ný lög nauðsynleg. Þetta segir í aths. með frv. á bls. 5.

Mig langar til þess að gera örlitla grein fyrir tilurð þessa skóla og vitna þá til rits sem kom út á 40 ára afmæli skólans árið 1979, en svo segir þar í grein eftir þáverandi skólastjóra skólans, Einar Hákonarson, með leyfi hæstv. forseta:

„Í stríðsbyrjun lokaðist Evrópa fyrir íslenskum námsmönnum, einnig þeim sem vildu leggja fyrir sig list- og listiðnaðarnám. Nokkrir fóru til Ameríku, en flestir sátu heima. Upp úr þessum aðstæðum óx Myndlista- og handíðaskóli Íslands. Lúðvig Guðmundsson, sem var mikill áhugamaður um list- og verkmenntun, sá þessa þörf og að í hinu væntanlega lýðveldi Íslendinga mátti ekki við svo búið standa að ekki væri til skóli sjónmennta. Marga áratugi barðist hann við skilningsleysi stjórnvalda um stuðning við skólann og sparaði hvorki tíma né fyrirhöfn, eins og títt er með menn sem hafa hugsjón. Lúðvig fékk hingað til lands reyndan skólamann á sviði sjónmennta, Þjóðverjann Kurt Zier, og það reyndist skólanum heilladrjúgt. Seinna, er Lúðvig lét af störfum sem skólastjóri og Kurt Zier tók við, mótaði hann skólann í þá mynd sem hann starfar eftir enn. Aðrir skólastjórar, sem síðar komu, hafa fylgt þessum hugmyndum og aukið, svo sem með stofnun nýrra deilda.

Skólinn hefur gengið í gegnum marga hreinsunarelda og allir skólastjórar og kennarar hafa stöðugt unnið að því að bæta hann og auka og enn þá er unnið að því að setja honum ný lög þar sem mið er tekið af þeim kröfum sem gera verður til Myndlista- og handíðaskóla Íslands og þeim margvíslegu verkefnum sem honum er ætlað að gegna.

Skólinn er margþættur og segja má að innan veggja hans rúmist fjórir skólar sem í mörgum löndum eru allt sjálfstæðar stofnanir. Í fyrsta lagi er skólinn myndlistaskóli, í öðru lagi listiðnaðarskóli, í þriðja lagi kennaraskóli og fjórði þátturinn er svo sú þjónusta sem skólinn veitir með námskeiðum fyrir áhugafólk um tómstundaiðju og þá er vilja með frekara námi mennta sig til meiri hæfni og lífsánægju.

Það er trú mín að vegur sjónmennta hafi vaxið hér á landi hin síðustu ár. Sá mikli áhugi og árangur, er fram kemur á ýmsum sviðum þjóðlífsins, bera þess vitni. Flest okkar listafólk frá stríðslokum hefur stigið sín fyrstu spor í þessum skóla.

Skilningur yfirvalda hefur jafnan verið af skornum skammti hvað viðvíkur skólanum allt frá stofnun hans. Þær framfarir, sem orðið hafa, koma frá stofnuninni sjálfri og þeirri þörf, sem fyrir hendi er í þjóðfélaginu, og enn verður að mæta þörfinni. Listiðnaður er að vinna sér sess á Íslandi og mun, ef vel er á haldið, auka verðmætasköpun fyrir þjóðfélagið.“

Hér lýkur tilvitnun í grein þáverandi skólastjóra. Ég vona auðvitað að það standist ekki nú orðið sem í greininni sagði um skilning stjórnvalda. Ég held þvert á móti að það sé vaxandi skilningur á þýðingu þess starfs sem þarna fer fram, bæði fyrir atvinnulíf okkar og fyrir menningu alla.

Mig langar til að skýra frá nokkrum atriðum sem varpa ljósi á hvað þessi skóli hefur gert við mismunandi aðstæður. Þegar skólinn var stofnaður var m. a. lýst því atriði í tilgangi hans að halda uppi kennslu í verklegum greinum fyrir atvinnulaus ungmenni, auk þess að veita kennaraefnum staðgóða sérmenntun í ýmsum greinum skólahandavinnu og almenningi kost á að nema ýmsar verklegar námsgreinar, svo sem bókband, trésmíði o. fl.

Annað dæmi um það hvernig skólinn hefur reynt að svara kröfum tímans var það að kennsla fór eitt sinn fram í þessum skóla á námskeiðum í leikfangagerð fyrir ungt fólk og þetta var gert á sínum tíma í samstarfi við skátahreyfinguna. En þetta var einmitt á stríðsárunum þegar margs konar vandi var í æskulýðsstarfi hér á landi. Þá brást þessi skóli oft og tíðum við með nýstárlegum og skemmtilegum hugmyndum sem urðu til ómetanlegs gagns. Kurt Zier, þáverandi yfirkennari skólans, stjórnaði þessari starfsemi og hann sagði m. a. við nemendur sína, með leyfi forseta:

„Við getum búið til ýmislegt sem er skemmtilegra og frumlegra en það sem kaupa má í búðunum fyrir mikla peninga og þið munið finna upp alveg ný leikföng sem hvergi er hægt að fá keypt. En sá sem ætlar að smíða leikföng má ekki hafa gleymt að leika sér sjálfur. Því bið ég ykkur að safna alls konar hlutum, spýtum, smálistum, tréhnöppum, litlum krossviðarplötum, eldspýtnastokkum, bútum af sívölum tréstöngum, tvinnakeflum o. s. frv.“

Ég get þessa hér einungis til þess að varpa ljósi á hve fjölbreyttum þörfum þessi skóli hefur sinnt og hvaða hugmyndaflug og lágu að baki starfsemi hans öll fyrstu starfsárin. Það má enn fremur geta þess að á þessum fyrstu árum voru í skólanum smíða- og bændadeild og þar var öryrkjadeild sem sérstaklega var ætluð til endurhæfingar þeim sem orðið höfðu fyrir barðinu á lömunarveikisfaraldri sem gekk sumarið 1945. Í öllu þessu var lögð höfuðáhersla á teikningu sem höfuðgrein, enda teikning undirstaða og nauðsynlegasta skilyrði alls árangurs í hverri grein myndlistar sem vera skal.

Núna standa mál þannig að hér liggur fyrir frv. um að þessi skóli, eins og hann hefur þróast í áranna rás, verði að skóla á háskólastigi. Með því eru viðurkenndar þær kröfur sem í raun eru gerðar til þessa skóla og með því er einnig viðurkennt hvað það er sem nemendur hafa að baki þegar þeir koma úr þessum skóla.

Með samþykkt þessa frv. mun nemendum skólans gefast hindrunarlaust tækifæri til þess að innritast í framhaldsnám við ýmsa bestu listaháskóla heims og vera þar alveg jafngildir nemendur og þeir sem koma úr öðrum listaskólum veraldarinnar.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á því hvernig deildaskipting skólans er hugsuð samkv. frv. og þá ekki síst listiðna- og iðnhönnunardeild. Þar hafa skólinn og skólastjóri hans Torfi Jónsson unnið mikilvægt undirbúningsstarf. Hann hefur t. d. fengið hingað til lands ítalskan iðnhönnunarkennara til að vinna verkefni á vegum skólans og halda námskeið og fyrirlestra þar. Við þessa deild hygg ég að miklar vonir séu bundnar. Við sjáum það á ýmiss konar iðnaðarframleiðslu hvaða aukna möguleika við höfum ef listin er tekin í þjónustu þeirrar framleiðslu og þá um leið sú framleiðsla í þjónustu listarinnar á þann veg að með þessu fengju listamenn landsins og hugvit þeirra ný og verðmæt tækifæri sem nýtast bæði þeim og öðrum.

Með þessu er ekki gert lítið úr því hlutverki skólans að annast listfræðslu í hinum hefðbundnu grundvallarlistgreinum sem eru og eiga að verða, að því er ég tel að allir séu sammála um líkt og Einar Hákonarson sagði í erindi sem birtist í Morgunblaðinu í dag, til þess að listin sé hluti af andrúmslofti okkar. Ég hygg að hvað sem við leggjum mikla áherslu á að efla framleiðsluna og atvinnulífið sé þessi þáttur ævinlega mjög mikilvægur. Á þessu megum við ekki missa sjónir því að verðmætasköpunin hlýtur að eiga að leiða til þess að fólk hafi betri tækifæri til að njóta menningar og lista sér til uppbyggingar, ánægju og þroska.

Þetta frv. er samið af nefnd sem skipuð var 1981 og hún vann verk í framhaldi af starfi nefndar sem skipuð var strax 1970. Hv. þm. sjá að bærilega ætti því að vera að verki staðið þar eð segja má að samning frv. hafi hafist fyrir 15 árum. Með þessu er auðvitað ekki sagt að menn hafi verið í 15 ár að semja þetta frv., en nægur tími hefur gefist til umhugsunar og mikið vatn runnið til sjávar. Menn hafa haft ráðrúm til þess að taka mið af nýjum tímum, enda ber þetta frv. sannarlega þess merki að þarna eru nútímamenn að verki.

Í nefndinni sem fyrirrennari minn, hv. forseti Nd. Ingvar Gíslason, þáverandi menntmrh., skipaði voru Einar Hákonarson þáverandi skólastjóri, sem var formaður, Stefán Ólafur Jónsson deildarstjóri í menntmrn. og Jón G. Tómasson þáverandi borgarlögmaður. Jón G. Tómasson baðst undan starfi í nefndinni þar sem frv. gerir ráð fyrir að skólinn breytist í ríkisskóla og borgin verði þess vegna ekki rekstraraðili, en Torfi Jónsson núverandi skólastjóri tók þá sæti í nefndinni.

Nefndinni þótti ekki rétt að binda í lög markmiðin í of miklum smáatriðum, en gerði ráð fyrir möguleika til þess að samin yrði ítarleg reglugerð.

Því er ekki að leyna að þessu frv. fylgir töluverður nýr kostnaður fyrir ríkið þar sem rekstraraðild borgarinnar færist yfir á ríkið, auk þess sem laun kennara breytast skv. kjörum kennara á háskólastigi. Það fylgir allítarleg kostnaðaráætlun á blaðsíðu 6 og 7.

Ég vonast til þess að hv. þm. taki þessu frv. vel. Ég held að þetta mál sé orðið mjög brýnt. Ég geri mér samt grein fyrir því að þegar skóla er breytt í skóla á háskólastigi þurfa menn umhugsunartíma og eðlilegt að hv. þm. vilji senda frv. til umsagnar og er ekki nema gott eitt um það að segja. En að þessari umr. lokinni, hæstv. forseti, vil ég leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn. þessarar deildar.