17.04.1985
Efri deild: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4307 í B-deild Alþingistíðinda. (3629)

384. mál, varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Virðulegi forseti. Á síðastliðnum áratug hefur þjóðin orðið fyrir mannskaða og meira eignatjóni af völdum snjóflóða en á áratugunum næst á undan. Nægir í þessu sambandi að minna á snjóflóðin í Neskaupstað í desember 1974, snjóflóðin á Patreksfirði og í Ólafsvík.

Hér á Alþingi hafa þessi málefni oft komið til umr. og þann 2. apríl 1981 var samþykkt þál. þar sem þingið ályktaði að fela ríkisstj. að undirbúa og leggja fram á Alþingi frv. til laga um skipulag og varnir vegna hættu á snjóflóðum og skriðuföllum. Á grundvelli þessarar þál. skipaði félmrh. hinn 21. júlí 1983 nefnd til að samræma störf opinberra aðila í þeim tilgangi að koma svo sem unnt er í veg fyrir tjón og slys af völdum snjóflóða og skriðufalla. Í nefndina voru skipaðir Jóhann Einvarðsson aðstoðarmaður ráðh., formaður, Hafliði Helgi Jónsson veðurfræðingur, Helgi Björnsson jarðeðlisfræðingur, Helgi Hallgrímsson verkfræðingur og Magnús E. Guðjónsson framkvæmdastjóri. Hlynur Sigtryggsson veðurstofustjóri tók sæti í nefndinni í byrjun september 1984 af Hafliða Helga Jónssyni.

Nefndin hélt samtals 29 fundi og viðaði að sér margvíslegum gögnum um snjóflóðavarnir í nágrannalöndunum, m. a. kynnti hún sér skýrslur um skipulag þessara mála í Sviss, Kanada og Noregi. Hún hefur einnig heimsótt nokkra staði hérlendis og átt viðræður við heimamenn um snjóflóðavarnir. Þannig hafa nefndarmenn farið til Ísafjarðar, Patreksfjarðar og Ólafsvíkur.

Eitt af því sem nefndin varð fljótt sammála um var mikilvægi þess að koma upp kerfi eftirlitsmanna á þeim stöðum þar sem hætta er talin á snjóflóðum. Hlutverk þessara eftirlitsmanna ætti að vera að hafa eftirlit með snjóalögum. Gert var ráð fyrir að eftirlitsmennirnir ræktu hlutverk sitt í samvinnu við Veðurstofu Íslands sem leiðbeindi þeim um að meta aðstæður á hverjum tíma. Í samræmi við þetta var komið á námskeiði í mars 1984 fyrir núverandi og væntanlega eftirlitsmenn og sóttu það námskeið menn frá tólf stöðum á landinu. Á námskeiðinu var veitt fræðsla um eiginleika og hugsanlegar afleiðingar snjóflóða. Í samræmi við tillögur nefndarinnar beitti rn. sér fyrir ráðningu sérstakra eftirlitsmanna á Patreksfirði, Ísafirði og í Ólafsvík. Fyrir voru í starfi eftirlitmenn á Siglufirði, Seyðisfirði og Neskaupstað. Þessir menn starfa í samráði við almannavarnanefndir staðanna svo og Veðurstofu Íslands. Rn. hefur einnig falið skipulagsstjóra ríkisins að taka saman kort og loftmyndir af snjóflóðasvæðum þar sem slíkt er ekki fyrir hendi. Nefndin var einnig sammála um nauðsyn þess að safna saman öllum heimildum um snjófljóð sem fallið hafa á fyrri árum, þannig að unnt reyndist að gera sér betur grein fyrir þeim hættum sem leynast víðs vegar um land. Veðurstofa Íslands réði starfsmenn til að færa inn á kort öll þekkt snjóflóð á tveimur stöðum, en þetta er nauðsynlegur þáttur við gerð hættumats.

Meðal þeirra aðila sem nefndin hefur leitað til eru Guðjón Petersen framkvæmdastjóri Almannavarna ríkisins og Ásgeir Ólafsson forstjóri Viðlagatryggingar Íslands. Báðir hafa víðtæka þekkingu á þessu sviði, sérstaklega hvað varðar tjón af völdum snjóflóða og skriðufalla.

Nefndin sem skipuð var til að samræma störf opinberra aðila í þeim tilgangi að koma svo sem unnt er í veg fyrir tjón og slys af völdum snjóflóða og skriðufalla lauk störfum þann 3. des. 1984. Meginniðurstaða nefndarinnar var sú að nauðsynlegt er að setja löggjöf um þetta málefni. Í henni ætti að kveða skýrt á um hvernig vinna skuli að þessum málum, hverjir fara með stjórn þeirra og á hvern hátt sé best tryggt að komið sé á vörnum á þeim stöðum þar sem hætta er talin mest. Í samræmi við þessa niðurstöðu skilaði nefndin af sér tillögum um frv. til laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum. Tillögur nefndarinnar voru lagðar fyrir ríkisstj. til umfjöllunar og varð hún sammála um að gera á þeim nokkrar breytingar þannig að frv. til laga, sem hér er nú lagt fram, er í öllum höfuðatriðum byggt á tillögum nefndarinnar.

Mér þykir rétt að gera nánari grein fyrir einstökum ákvæðum lagafrv.

Í 1. gr. er lýst tilgangi laganna. Þar er einnig að finna nýyrðið „ofanflóð“ sem notað er til hagræðis um bæði snjóflóð og skriðuföll.

2. gr. frv. mælir fyrir um að meta skuli hættu á ofanflóðum í sveitarfélögum þar sem þau hafa ógnað byggð eða hætta er talin á slíkri ógn. Hættumatið á að ná til byggðra svæða og annarra svæða sem á að skipuleggja og er gert ráð fyrir að það skuli lagt fram sem fylgiskjal með skipulagstillögu.

Í 3. gr. eru Almannavörnum ríkisins falin veigamikil atriði varðandi varnir gegn ofanflóðum. Þetta er gert með það í huga að hagkvæmast sé að fela þetta verkefni stofnun sem er þegar fyrir hendi, enda samræmist verkefnið mjög vel hlutverki Almannavarna ríkisins eins og það er skilgreint í lögum. Meðal þess sem lagt er til er að Almannavarnir annist hættumat og setji reglur um forsendur og aðferðir við gerð þess.

Lagt er til í 4. gr. að sérstök ráðgjafarnefnd, ofanflóðanefnd, verði Almannavörnum ríkisins til aðstoðar um þessi mál. Í nefndinni eigi sæti fulltrúar Almannavarna ríkisins, Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands, Skipulagsstjórnar ríkisins, Veðurstofu Íslands og Viðlagatryggingar Íslands eða samtals fimm menn. Skv. greininni skal fulltrúi Almannavarna ríkisins vera formaður hennar.

Í 5. gr. eru tekin af öll tvímæli um að Veðurstofan annist svo sem verið hefur öflun gagna um snjóflóð og snjóflóðahættu og vinni úr þeim. Einnig er gert ráð fyrir að hún annist mælingar á snjóalögum og rannsóknir á þeim með sérstöku tilliti til snjóflóðahættu og gefi út aðvaranir um hana.

6. gr. tengist 5. gr. að því leyti að í henni er kveðið á um að í öllum sveitarfélögum, þar sem hætta er talin á snjóflóðum, skuli ráðinn sérstakur eftirlitsmaður sem starfi undir yfirstjórn Veðurstofu Íslands. Veðurstofan greiðir helming launa hans fyrir þessi störf samkvæmt samkomulagi þar um. Í þessu sambandi má geta þess að ákvæði 5. gr. miðar að því að festa í sessi núverandi starfsemi Veðurstofunnar á þessu sviði.

Í 7. gr. er fjallað um það hlutverk sveitarstjórnar að láta gera endanlegar tillögur um varnarvirki að fengnu hættumati, sbr. 3. gr. frv. Tekur það jafnt til byggðra svæða og óbyggðra. Enn fremur er kveðið á um að ekki megi byggja á óbyggðum hættusvæðum né þétta þá byggð sem fyrir er á hættusvæðum fyrr en tilskildum varnarvirkjum hefur verið komið upp.

8. gr. fjallar um að tillögur sveitarstjórnar og áætlanir um varnarvirki gegn ofanflóðum skuli háðar samþykki Almannavarna ríkisins. Tillögur öðlast fyrst gildi þegar samþykkt Almannavarna liggur fyrir og þær hafa hlotið staðfestingu félmrh.

10. gr. frv. fjallar um fjáröflun til framkvæmda sem miða að því að hindra tjón af völdum ofanflóða. Lagt er til að stofnaður verði sérstakur sjóður sem beri heitið Ofanflóðasjóður. Hann hafi það hlutverk að auðvelda þeim sveitarfélögum, sem búa við hættu af ofanflóðum, að koma upp vörnum. Skv. greininni er lagt til að sjóðurinn hafi fastan tekjustofn, þ. e. 5% af heildariðgjaldatekjum Viðlagatryggingar Íslands. Í aths. með einstökum greinum frv. kemur fram að áætlaðar tekjur árið 1985 geti numið 5 millj. kr. Auk þessa fasta tekjustofns er gert ráð fyrir að sjóðurinn fái til umráða árlegt framlag á fjárlögum í samræmi við framkvæmdaáætlun sem skal lögð fram við gerð fjárlaga hverju sinni. Þess má geta að tillaga nefndarinnar var að Ofanflóðasjóður fengi ákveðna upphæð úr ríkissjóði í tíu ár frá gildistöku laganna. Lagt var til að framlagið væri 10 millj. kr. á ári miðað við byggingarvísitölu 1. jan. 1985. Ríkisstj. var sammála um að víkja frá þessari tillögu nefndarinnar. Varðandi þetta atriði er rétt að leggja á það áherslu að vilji ríkisstj. er sá að átak verði gert í þessum málum á næstu árum og er ekki ástæða til að ætla annað en að sjóðnum verði tryggt viðunandi fjármagn þannig að hann geti látið til sín taka á þessu sviði nái frv. fram að ganga og verða að lögum.

Í gildandi lögum um Viðlagatryggingu Íslands er stjórn stofnunarinnar heimilað að styrkja framkvæmdir sem eiga að varna tjóni af völdum náttúruhamfara. Með ákvæðum í 10. gr. er bundið að ákveðinn hluti af iðgjaldatekjum Viðlagatryggingar renni til varnar gegn tjóni af völdum ofanflóða. Verði þetta ákvæði að lögum er eðlilegt að sama ákvæði sé fellt inn í lög um Viðlagatryggingu.

Ekki er óeðlilegt að Viðlagatrygging taki þátt í kostnaði við gerð varnarvirkja þar sem þau munu draga úr bótagreiðslum stofnunarinnar vegna ofanflóða. Til samanburðar við framlag Viðlagatryggingar má geta þess að bótagreiðslur hennar vegna snjóflóða hafa verið sem hér segir: Árin 1976–1982 engar bætur, árið 1983 7.7 millj. kr., árið 1984 4.4 millj. kr.

Lagt er til að Ofanflóðasjóður sé í vörslu Viðlagatryggingar Íslands og annist hún ávöxtun og bókhald fyrir sjóðinn. Sú tilhögun ætti að tryggja að kostnaður verði í lágmarki.

Í 11. gr. er fjallað um á hvern hátt fjármagni Ofanflóðasjóðs skuli varið.

Í fyrsta lagi skal greiða allan kostnað við gerð hættumats. Þetta ákvæði miðar að því að hættumat sé gert svo fljótt sem verða má fyrir alla þéttbýlisstaði sem taldir eru hafa þörf fyrir slíkt mat án þess að hlutaðeigandi sveitarfélag þurfi að leggja fram fé til þess. Hér er haft í huga að hættumatið ásamt tilheyrandi neyðaráætlun geti þegar orðið mikilvægt hjálpartæki til að draga úr hættu á slysum og manntjóni.

Í öðru lagi er heimilt að greiða allt að 4/5 hlutum af kostnaði við undirbúning og framkvæmdir við varnarvirki. Tekið er fram að kaup á löndum, lóðum og fasteignum vegna varna teljast með framkvæmdakostnaði. Með þessu ákvæði er opnuð sú leið að sjóðurinn geti tekið þátt í kaupum á fasteign til niðurrifs ef slíkt er talið hagkvæmara en gerð varnarvirkis fyrir hana.

Í þriðja lagi er sjóðnum heimilt að greiða allt að 4/5 hlutum kostnaðar við kaup og uppsetningu á tækjum og búnaði sem sérstaklega er aflað til rannsókna á snjóalögum með tilliti til snjóflóðahættu.

Í niðurlagi greinarinnar er tekið fram að félmrh. ákveði úthlutun úr sjóðnum að fengnum tillögum Almannavarna ríkisins.

Þess má geta að nefndin sem samdi drög að lagafrv. þessu, sem hér er til umr., reyndi að meta lauslega kostnað við gerð mannvirkja fyrir núverandi byggð í þeim þéttbýlisstöðum sem taldir eru búa við hættu frá ofanflóðum. Niðurstaða nefndarinnar er sú að heildarkostnaður geti legið á bilinu 250 til 400 millj. og væri þá hlutur Ofanflóðasjóðs 200–320 millj. kr. Rétt er að leggja á það áherslu að þó þetta mat sé háð mikilli óvissu gefur það vísbendingu um að greiða megi mikinn hluta kostnaðar vegna varna á tíu árum með fjármagni Ofanflóðasjóðs og framlagi viðkomandi sveitarfélags.

Í 12. gr. er kveðið á um niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda og sölugjalda af efni og tækjum sem flutt eru sérstaklega til landsins til varna gegn ofanflóðum. Slík ákvæði eiga sér mörg fordæmi í svipuðum tilvikum og hér um ræðir. Þess má geta að heimild til þessa var tekin inn í fjárlög fyrir árið 1984.

13. gr. fjallar um að kostnaður vegna ofanflóðanefndar sé greiddur úr ríkissjóði.

14. og 15. gr. þarfnast ekki skýringar.

Virðulegi forseti. Ég hef í ræðu minni gert grein fyrir tildrögum þess að skipuð var sérstök nefnd til að samræma störf opinberra aðila í þeim tilgangi að koma svo sem unnt er í veg fyrir tjón og slys af völdum snjóflóða og skriðufalla. Ég hef stuttlega fjallað um störf þessarar nefndar og gert ítarlega grein fyrir frv. sem að verulegu leyti er byggt á tillögum hennar. Það er trúa mín að nái frv. það um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, sem hér er fylgt úr hlaði, fram að ganga megi í framtíðinni draga úr stórfelldu eignatjóni og hindra það, sem er mikilvægast í okkar fámenna landi, að mannslíf týnist. Þess vegna, virðulegi forseti, legg ég mikla áherslu á að frv. hljóti skjóta afgreiðslu hér á Alþingi og verði samþykkt sem lög á þessu þingi.

Ég vil svo að lokum mælast til þess að að lokinni þessari umr. verði frv. sent til 2. umr. og hv. félmn.