29.10.1984
Neðri deild: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

77. mál, byggingarlög

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á byggingarlögum, nr. 54/ 1978, sem liggur fyrir á þskj. 79 og er 77. mál þingsins. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Kristín Halldórsdóttir og Kristófer Már Kristinsson.

Þær breytingar á byggingarlögum, sem frv. þetta gerir ráð fyrir. eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi að skilyrði fyrir leyfi til byggingar opinberra stofnana, annarra þjónustustofnana og atvinnufyrirtækja af öllu tagi verði að gengið sé frá lóð svo fljótt sem unnt er og byggingarframkvæmdir leyfa og þeim gróðri komið þar fyrir sem kostur er að mati landslagsarkitekts eða annarra sérfróðra manna.

Í öðru lagi að uppdráttur að fullfrágenginni lóð liggi fyrir við útgáfu byggingarleyfis á sama hátt og teikning af byggingunni sjálfri.

Í þriðja lagi að gengið verði úr skugga um að frá lóð hafi verið gengið eins og lög og reglur mæla fyrir um við lokaúttekt fullbyggðs mannvirkis.

Á undanförnum árum hefur áhugi manna á umhverfismálum farið vaxandi og í æ ríkara mæli hafa menn gert sér ljóst hversu mikilvægt er að auka gróður og standa vörð um þann gróður sem fyrir er, jafnt í dreifbýli sem þéttbýli. Um langt skeið var lítil áhersla lögð á gróðurrækt í þéttbýli, en nú er það sem betur fer að breytast. Sú gerbreyting sem orðið hefur á búsetuháttum Íslendinga á þessari öld, þegar mikill hluti landsmanna tók að búa í þéttbýli, hefur tekið tíma og orka manna hefur farið í að byggja yfir sig og sína, mannvirkin sjálf og þær þjónustustofnanir og fyrirtæki sem þéttbýlið krefst. Það er fyrst á síðustu árum sem menn hafa gert sér ljóst að þeir sem í þéttbýli búa séu ekki sjálfkrafa dæmdir til að vera án lifandi gróðurs, án lifandi náttúru og landslags. Einstaklingar hafa fundið þessa þörf fyrir samband við lifandi gróður og náttúru og brugðist við henni með myndarlegu átaki við að rækta lóðir sínar til mikillar prýði í umhverfinu. Mikið hefur hins vegar skort á að opinberar stofnanir þjónustu- og atvinnufyrirtæki hafi sinnt umhverfi sínu og algengt er að sjá lóðir slíkra fyrirtækja standa óhirtar áratugum saman, oft í hjarta byggðarlagsins, til ama og leiðinda fyrir þá sem þjónustuna sækja til þessara stofnanna og til vansa fyrir byggðarlagið. Hér er sjaldnast um að ræða fjárskort einan saman, heldur miklu fremur hugsunar- og hirðuleysi.

Í athyglisverðri grein í Morgunblaðinu 7. september s.l. benti Pétur Jónsson landslagsarkitekt á að ræktun runnagróðurs og trjárækt feli í sér nokkuð meiri kostnað við gerð lóðar í upphafi, en innan örfárra ára verði viðhald slíkra svæða miklum mun ódýrara en t.d. hirðing grassvæða. Má spara mikla fjármuni með því að láta skipuleggja lóðina af kunnáttu í byrjun og til þess þarf sérþekkingu í skipulagningu og gróðurrækt. Iðnaðarsvæði þéttbýlisins eru oft ljótur blettur á umhverfinu, en engin ástæða er til að svo sé. Mætti benda á staði t.d. hér í Reykjavík sem eru eins og sár í borgarlandi, og segir sig sjálft að slíkt umhverfi er engum hollt, allra síst þeim sem þar vinna.

Runna- og trjágróður getur gegnt veigamiklu hlutverki til beins sparnaðar í bæjarlandinu og hirðingu þess. Runnagróður við vegi getur t.d. dregið úr því að snjór safnist á götur og vegi og trjágróður getur veitt skjól fyrir vindum og dregið úr ljósblindu við akstur svo eitthvað sé nefnt. Þess utan dregur slíkur gróður að sjálfsögðu verulega úr loftmengun, að ekki sé minnst á hinn heilsufarslega þátt fagurs umhverfis í almennri vellíðan íbúanna.

Byggingarlög leggja mönnum ákveðnar kvaðir á herðar við frágang fasteigna eins og vera ber og eru allítarleg. Byggingarreglugerðir eru ekki síður nákvæmar um allan frágang. Það er hlutverk bygginganefnda og byggingafulltrúa hvers byggðarlags að ganga eftir að þessum fjölmörgu reglum sé fylgt. Um frágang lands er furðulítið að finna í byggingarlögum og hið sama er að segja um reglugerðir. Það er því skoðun flutningsmanna þessa frv. að hér þurfi að kveða betur á um frágang þess lands sem fyrirtæki og stofnanir fá úthlutað fyrir almannaþjónustu. Það leiðir af sjálfu að slíkt land er oftast á þeim stöðum þar sem menn eiga gjarnan leið um og liggur vel við umferð. Það hlýtur því að vera skylda þeirra sem slíku landi fá úthlutað að ganga svo frá því að sómi sé að. Mikið átak þarf til að auka verulega trjá- og runnagróður hér á landi og því væri það umtalsvert framlag ef þeim aðilum sem hér um ræðir væri gert skylt að rækta svo sem kostur er í landi sínu. Einhverjir kynnu að halda því fram að ýmiss konar almennum rekstri fylgi óhjákvæmilega sóðaskapur, en það er skoðun flutningsmanna að einmitt við slík fyrirtæki gæti runna- og trjágróður skýlt lítt fallegu umhverfi frá vegfarendum. Á það jafnt við um iðnaðarlóðir sem land kringum fiskverkun eða annað það sem oft krefst utanhússrýmis fyrir það sem lýtur að rekstrinum.

Það skal tekið skýrt fram að í þessu frv. er engin breyting gerð á hlutverki byggingafulltrúa né bygginganefnda. Einungis er lagt til að þar sem því verði við komið verði leitað til landslagsarkitekta um skipulagningu þeirra lóða sem hér um ræðir og jafnframt að landslagsarkitekt eða staðgengill hans, fáist landslagsarkitekt ekki, áriti uppdrætti að lóðum áður en byggingarleyfi er gefið út og gangi á sama hátt úr skugga um það við lokaúttekt fullbyggðs mannvirkis að farið hafi verið að lögum og reglum um frágang lands. Hér er ekki endilega um nýtt embætti að ræða innan sveitarfélaganna, heldur geta þau að sjálfsögðu leitað til slíkra kunnáttumanna eftir því sem þörf gerist. Þeir eru einungis sérfræðingar byggingafulltrúa um þetta afmarkaða atriði þar sem þjónustu þeirra er að fá.

Ýmsir kunna að draga í efa gildi þess að landslagsarkitekt þurfi að kalla til við gerð lóðar fremur en t.d. garðyrkjufólk. Má vel vera að starfsheitið sjálft hvetji til fordóma afturhaldssamra manna. En til upplýsingar skal þess getið að landslagsarkitektúr er nú kenndur sem háskólagrein í 150 háskólum í 36 löndum og Alþjóðavinnumálastofnunin viðurkenndi þetta starfsheiti árið 1968 og skipaði því í flokk með starfsheitum arkitekta og borgarskipulagsfræðinga. Hér á landi eru nú einungis 11 landslagsarkitektar, en aðrir 11 munu nú vera við nám erlendis. Félag ísl. landslagsarkitekta er aðili að Alþjóðasambandi landslagsarkitekta, en félagið var stofnað árið 1978.

Skipulagning gróðurræktar í landi okkar er svo mikilvægur þáttur og nauðsynlegur í framtíð lífríkis okkar að hlúa ætti að þeirri kunnáttu sem menn hafa aflað sér með námi í landslagsarkitektúr. Öllum þeim sem garðyrkju og græðslu lands stunda hér í landi er fengur að þeirri viðbótarkunnáttu sem landslagsarkitektar færa þjóðinni, og við væntum þess að starfsheiti þeirra fái sem fyrst staðfestingu stjórnvalda. Fjölmörg sveitarfélög hafa sýnt vaxandi áhuga á ræktun umhverfisins. Dæmi um það er að stjórn sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu setti á fót nefnd árið 1982, minnir mig, sem samræma skal áætlanir um ræktun óbyggðs lands á svæðinu. En framlög sveitarfélaga hafa oft verið við nögl skorin þegar að gróðurrækt kom og verið frá 12% af fjárhagsáætlun. Akureyri hefur hins vegar verið þar til fyrirmyndar, lagt fram um 4% um langt árabil. Erlendis er talið að 5% séu lámarksframlag þó að þar sé ólíkri þörf saman að jafna þar sem gróðurrækt hefur verið unnin á skipulagðan hátt öldum saman.

Þetta frv., herra forseti, getur varla orðið ásteytingarsteinn milli stjórnmálaflokka. Hér er um hagsmuni allra landsmanna að ræða. Það er ljóst að á tímum eyðingar skóga, loftmengunar og annarra válegra fyrirbæra, þar sem menn hafa flotið sofandi að feigðarósi í græðgi sinni eftir skjótfengnum gróða, er það skylda okkar Íslendinga, sem enn öndum að okkur hreinna lofti en nágrannar okkar og njótum óskemmdari náttúru, að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að græða land okkar sem kostur er. Mikið vantar vissulega á að nægilegar rannsóknir hafi farið fram á því hvaða gróður henti best í landinu og til þess ættu stjórnvöld að veita fé. En mönnum verður þó æ ljósara að miklum mun fleiri tegundir geta náð þroska hér á landi en menn héldu áður ef þeim eru tryggð ákveðin skilyrði til hlífðar fyrir veðri og vindum. Og þar verður sérþekking að koma til. Allir landsmenn þurfa að taka höndum saman um þjóðarátak í græðslu landsins. Sérhvert framtak er af hinu góða. Þess vegna er þetta frv. flutt.

Við væntum þess að á því verði vel tekið í hv. félmn. sem við leyfum okkur að leggja til að því verði vísað til.