17.04.1985
Efri deild: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4310 í B-deild Alþingistíðinda. (3630)

384. mál, varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég fæ tækifæri til þess að fjalla um þetta mál í nefnd og einstök efnisatriði þess og skal því stikla á stóru nú. Eins og segir í grg. þá er þessi frv.-gerð í beinu framhaldi af samþykkt Alþingis um setningu heildarlöggjafar um þessi efni frá 1981, en þá till. fluttum við nokkrir þm. hér þá, með áhersluatriðum nokkrum sem þar voru tilgreind. Sú nefnd sem vitnað er til að hafi samið þetta frv. hefur unnið að mörgu leyti þarft verk og ég er þakklátur fyrir það og ánægður að þetta frv. skuli vera komið hér til umr. Ég hef borið saman áhersluatriði þeirrar till. sem við fluttum á sínum tíma, hv. þm. Árni Gunnarsson, Stefán Valgeirsson, Sverrir Hermannsson og Stefán Jónsson, en voru öll tekin út úr ályktuninni, eins og of mikið er hér um við afgreiðslu mála út úr Sþ. Till. var með sjö áhersluatriðum sem áttu að vera viss forsögn þingsins um það hvað ætti alveg sérstaklega að taka til greina við frv.-samningu þá sem nú er komin hér á okkar borð. Ég held að þingið geri rangt í því að taka út áhersluatriði sem slík eða forsögn um frv. af þessu tagi því ef menn eru samþykkir því, þá eru þetta yfirleitt leiðbeinandi forsagnir sem þar eru veittar um margt og gefa betur til kynna vilja þingsins um það hvað gera skuli, í stað þess að samþykkja stutt og laggott: Frv. skal samið um efnið — án minnstu forsagnar um þau atriði sem sérstaklega ber að taka fyrir. En þegar þessi ítarlega þál. kom frá allshn. Sþ. var textinn orðinn svona, með leyfi virðulegs forseta: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa og leggja fram á Alþingi frv. til laga um skipulag varna gegn tjóni af völdum snjóflóða og skriðufalla.“ Þetta eru vinnubrögð sem tíðkast hér allt of mikið en tjáir ekki um að tala, því að mér sýnist varðandi þetta frv. að áhersluatriði okkar flm. þáltill. séu allvel til greina tekin í þessu frv. En ég bendi aðeins núna á síðasta lið till. okkar, sem ég held að hafi verið býsna nauðsynlegur, þar sem segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Lögð verði áhersla á fræðslu og upplýsingar til almennings um þessi mál, bæði að því er varðar byggð ból og ferðalög og útivist utan byggðar, um hættu vegna snjóflóða og skriðufalla. Björgunaraðilum í landinu verði kynnt undirstöðuatriði varðandi björgun úr snjóflóðum og almenningi hversu bregðast skuli við í slíkum tilfellum og forðast hættur.“

Ég nefni þetta bara sem eitt dæmi um þau áhersluatriði sem voru í okkar þáltill. og hefðu svo sannarlega mátt komast til skila yfir til þeirrar nefndar sem fjallaði um þetta mál.

Þetta mál kemur til nánari athugunar í nefnd en mestu skiptir að á þessum þarfa öryggisþætti er tekið og tryggt um leið það sem kannske skiptir mestu máli, að fjármagn sé til staðar til nauðsynlegustu aðgerða og vegna óhjákvæmilegs kostnaðar. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðh. viðurkenna allir að þessum fjármunum er vel varið og þeir skila sér margfaldlega til baka, fyrir utan það að þeir eru fyrirbyggjandi. Mannslífin eru dýrmæt. Um það eru of mörg hörmuleg dæmi að flóð og skriðuföll hafi grandað lífi ótalins fjölda í áranna rás og eignatjónið kemur svo til viðbótar í kjölfar eyðileggingarinnar. Með fyrirbyggjandi aðgerðum, vökulu eftirliti og beinum varnarmannvirkjum er áreiðanlega unnt að koma í veg fyrir mörg slys þó eflaust verði aldrei við öllu séð.

Ég hlýt því að fagna þessu frv. og vil að sjálfsögðu stuðla að jákvæðum og greiðum framgangi þess. Það mætti vel rekja hér forsögu þessa máls allt til harmleiksins í Neskaupstað og tillöguflutnings þáverandi hv. þm. Austurl., Tómasar Árnasonar, um rannsóknir og athuganir sem einmitt leiddu til athugana Veðurstofu Íslands, svo sem vikið er að í 5. og 6. gr. frv. og reyndar kemur fram í frv. um þá stofnun, sem við höfum haft áður til meðferðar hér í þessari hv. deild. Það`varð hins vegar fljótlega ljóst að heildarskipulag með ákveðinni lagastoð var nauðsynlegt og brýnt og því var tillagan flutt sem er tilefni þessa frv. nú.

Fljótt á litið virðist mér hér fengin allgóð trygging fyrir því veigamesta, þó ég vilji skoða málið vel, m. a. í samráði við Þórarin Magnússon verkfræðing sem lagði grunn að till. okkar félaga á sínum tíma og tók saman hið merka rit Snjór og snjóflóð sem Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins gaf út. Fáir eru fróðari og ég segi það hér að það gegnir raunar furðu að hann skuli ekki hafa verið kallaður til þátttöku í þessu starfi. En úr því má bæta með viðtölum við hann af hálfu nefndarinnar.

Efnisleg umfjöllun bíður nefndar, svo sem ýmsar málfarslegar spurningar sem vakna við orðið „ofanflóð“. Mér heyrðist reyndar öðru hverju hæstv. ráðh. segja „ofanfljóð“, en úr orðum sem eru jafn ótöm í munni geta komið undarlegustu afbakanir. Og ofanflóðavarnir yrðu þá ofanfljóðavarnir. (Gripið fram í: Má ég fá skýringu á ofanfljóði?) Það verður athugað síðar. Ekki getur þetta nýyrði talist fagurt, og enn síður í afbökuninni sem ég var að tala um hér áðan og sagði nú meira til gamans en að ég væri að ákæra hæstv. jafnréttisráðherra fyrir að vera að brjóta jafnréttislög með óviðurkvæmilegu orðafari á hv. Alþingi. En ég lýsi sem sagt stuðningi við meginmál frv. og hlýt að stuðla að farsælum framgangi þess.