17.04.1985
Neðri deild: 58. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4319 í B-deild Alþingistíðinda. (3652)

355. mál, starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það hlýtur að vera nokkuð mikið atriði hjá hverri löggjafarsamkomu að hafa heildarsamræmi í þeirri lagasetningu sem hún stendur að. Hér höfum við aftur á móti farið þá leið að við höfum veitt ákveðnum stéttum gífurleg forréttindi gagnvart starfsréttindum fram yfir aðra. Þessi mismunun, sem framkvæmd er á þennan veg, hefur vissulega komið fram í því að þær stéttir hafa fengið meiri laun en aðrar.

Ég hef áður vakið athygli á þessu og gerði það í sambandi við störf sjómanna, yfirmanna á fiskiskipum og manna sem stunda þar mjög ábyrgðarmikil störf, en engu að síður blasir við að hér siglir hraðbyri gegnum þingið að afgreiða mál heilbrigðisstéttanna sérstaklega með forréttindum hvað starfsheiti snertir. Það sem snertir atvinnuvegina er aftur á móti látið liggja kyrrt eða ýtt til hliðar. Að mínu viti er orðið svo mikið ósamræmi í þessum efnum að ég tel að það sé ærin nauðsyn að þessi lög verði endurskoðuð í heild, menn setji sér einhver heildarmarkmið þegar gengið er frá starfsréttindum stétta og það verði komið á einhverju samræmi á þessu sviði en ákveðnum stéttum ekki veitt sérstök forréttindi til að ná meiri árangri í að hækka sín laun.

Ég vil að lokum geta þess að ég tel það nánast hámark forheimskunnar í þessum efnum þegar Alþingi ákvað að koma í veg fyrir að menn gætu keypt sér gleraugu í verslun hér í Reykjavík vegna þess að með því voru brotin lög um starfsréttindi annarra stétta. Það er táknrænt að það skuli vera flokkur frelsisins sem ruddi brautina fyrir að koma slíkum ólögum yfir þjóðina.