17.04.1985
Neðri deild: 58. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4319 í B-deild Alþingistíðinda. (3654)

423. mál, viðskiptabankar

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Frv. það sem hér er til umr. á þskj. 695, 423. mál Nd., er afrakstur af starfi bankamálanefndar sem skipuð var af fyrrverandi viðskrh. Tómasi Árnasyni í júlímánuði 1981. Skv. skipunarbréfi nefndarinnar var henni falið að endurskoða allt bankakerfið, þ. á m. lögin um Seðlabanka Íslands og hlutverk hans, með það að markmiði að mynda stærri og virkari heildir og einfalda bankakerfið innan ramma heilsteyptrar löggjafar um viðskiptabanka.

Í bankamálanefndina voru skipaðir Halldór Ásgrímsson núverandi sjútvrh., sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Jón G. Sólnes fyrrverandi alþm., Kjartan Jóhannsson alþm., Lúðvík Jósepsson fyrrverandi ráðherra og sá er þessi orð flytur. Þegar tveir nm. tóku sæti í nýrri ríkisstjórn í maímánuði 1983 voru skipaðir í nefndina í þeirra stað Þorsteinn Pálsson alþm. sem formaður og Björn Líndal deildarstjóri í viðskrn. Ritari nefndarinnar frá upphafi hefur verið Þórður Ólafsson forstöðumaður bankaeftirlitsins.

Bankamálanefndin lauk störfum í maímánuði 1984 og sendi þá viðskrn. tillögur sínar að lagafrv. um Seðlabanka Íslands og viðskiptabanka. Einnig fylgdi bréfi nefndarinnar bókun um sameiningu og fækkun viðskiptabanka. Það bárust rn. sérálit tveggja nm., Kjartans Jóhannssonar og Lúðvíks Jósepssonar, og fylgja þau frv. eins og það hefur verið lagt fyrir Alþingi. Um tillögur nefndarinnar að frv. til laga um Seðlabanka Íslands er það að segja að það frv. er í lokavinnslu nú í viðskrn. Frv. til laga um sparisjóði er þannig í lokavinnslu og vænti ég þess að það verði lagt hér fram á Alþingi innan tíðar. Er það að stofni til byggt á þeim frv. sem á undanförnum árum hafa verið lögð fyrir Alþingi en ekki verið afgreidd. Að því er varðar bókun bankamálanefndar um sameiningu og fækkun viðskiptabanka er rétt að taka fram að undir vorið má búast við að nefnd sú sem skipuð var í kjölfar þessarar bókunar muni skila tillögum sínum um sameiningu og fækkun viðskiptabanka. Við samningu viðskiptabankafrv. hefur verið höfð hliðsjón af starfi þessarar nefndar og eru starfandi bankar ekki nefndir með nafni í sjálfum frv.-textanum, heldur eru þeir nafngreindir í ákvæði til bráðabirgða. Er þetta gert í þeirri fullvissu að hér á hinu háa Alþingi náist samstaða um fækkun viðskiptabanka frá því sem nú er.

Aðdraganda viðskiptabankafrv. má rekja lengra aftur en til skipunar bankamálanefndarinnar á miðju ári 1981. Segja má að heildarendurskoðun bankakerfisins hafi hafist fyrir þrettán árum þegar þáverandi viðskrh. Lúðvík Jósepsson skipaði bankamálanefnd til þess að endurskoða allt bankakerfið. Skilaði sú nefnd áliti í janúar 1973 og hafði þá samið drög að frv. um nýja löggjöf um peningastofnanir, eins og nefndin komst að orði í bréfi sínu til viðskrh.

Vorið 1974 var flutt á Alþingi frv. til laga um viðskiptabanka í eigu ríkisins sem byggt var á till. þessarar nefndar, en það frv. náði ekki fram að ganga. Upp frá því hafa nokkrum sinnum verið lögð fyrir Alþingi frv. til laga um ríkisviðskiptabanka og frv. til laga um hlutafélagabanka, bæði stjfrv. og þmfrv. Hafa öll frv. verið byggð á fyrrgreindum tillögum að meira eða minna leyti. Eins og alkunna er hafa öll þessi frv. dagað uppi. Vissulega má því segja að þessi mál hafi gengið hægt. Þó er óhætt að fullyrða að þróun bankamála og bankaviðskipta hér á landi hefur verið örari síðustu 25 árin en áður, en bankamál eiga alllanga sögu á Íslandi og nálgast hún eina öld.

Strax í byrjun síðustu aldar var farið að ræða um stofnun lánastofnana hér á landi. Þessar hugmyndir munu einkum hafa komið fram hjá ýmsum embættismönnum þjóðarinnar, en ætíð mætt andstöðu dönsku stjórnarinnar. Talið er að Alþingi hafi fyrst ályktað um stofnun banka eða lánastofnunar hér á landi árið 1853. Síðari hluta 19. aldar komust bankamál oft á dagskrá og árið 1886 hóf fyrsti viðskiptabankinn starfsemi sína, Landsbanki Íslands. Skömmu eftir aldamótin hóf annar banki, Íslandsbanki hf., starfsemi sína í kjölfar mikilla fjárhagserfiðleika. Í lok þriðja áratugar þessarar aldar var stofnaður Útvegsbanki Íslands hf. úr Íslandsbanka og átti ríkið mikinn meiri hluta hlutafjár í bankanum. Árið 1957 var Útvegsbankanum síðan breytt í hreinan ríkisviðskiptabanka. Þriðji viðskiptabankinn hóf starfsemi sína árið 1930. Það var Búnaðarbanki Íslands og var hann frá upphafi eign ríkisins. Auk þeirra þriggja ríkisviðskiptabanka sem að framan greinir eru nú starfandi fjórir hlutafélagabankar, Iðnaðarbanki Íslands hf., Verslunarbanki Íslands hf., Samvinnubanki Íslands hf. og Alþýðubankinn hf. Þrír þessara banka voru stofnaðir upp úr starfsemi sparisjóða sem starfað höfðu um nokkurt skeið.

Ef undan er skilin stofnun Landsbanka Íslands þjónaði stofnun þessara banka einkum þeim tilgangi að veita tilteknum atvinnugreinum eða þjóðfélagshópum bankaþjónustu. Þær nafngiftir sem bönkunum hafa verið valdar bera þess skýr merki. Eins og ég mun síðar víkja að má ýmislegt að nafngiftinni finna sem rétt er talið að gerð yrði á breyting í lögum.

Eins og sjá má á því hvernig staðið hefur verið að stofnun bankanna gilda sérstök lög um hvern þeirra. Í athugasemdum við frv. það sem hér liggur fyrir er gerð nákvæm grein fyrir þessum lögum. Auk þess er rétt að minna á að ýmis önnur lög hafa að geyma ákvæði um viðskiptabanka. Skulu þar fyrst nefnd lög nr. 32/1978, um hlutafélög, sem gilda um hlutafélagsbanka að svo miklu leyti sem þeir brjóta ekki í bága við sérlög um þá banka. Einnig má nefna lög nr. 65/1982, um skattskyldu innlánsstofnana, sem m. a. taka til viðskiptabanka, og lög nr. 63/1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála. Hafa þau lög m. a. að geyma ýmis ákvæði er skipta viðskiptabanka miklu varðandi gjaldeyrisviðskipti. Síðast en ekki síst má nefna lög nr. 10/1961, um Seðlabanka Íslands, sem m. a. hafa að geyma mikilvæg ákvæði um stjórnun peningamála og hafa þannig mikil áhrif á starfsemi viðskiptabanka.

Eins og áður segir skilaði bankamálanefnd viðskrn. tillögum sínum að frv. til laga um viðskiptabanka í mars 1981. Meðal þess sem kemur fram í grg. nefndarinnar með tillögunum er að við samningu þeirra hafi verið höfð hliðsjón af þeim frv. við viðskiptabanka sem lögð hafa verið fram á Alþingi frá 1974 og fyrr eru greind. Í grg. segir jafnframt að bankamálanefnd hafi átt viðræður við bankastjórnir allra viðskiptabankanna og Seðlabankann þegar hún vann að gerð tillagnanna. Þá mun og hafa verið aflað ýmissa gagna erlendis frá og m. a. litið til bankalöggjafar á Norðurlöndum, en samhliða reynt að gæta þess að tillögurnar féllu að séríslenskum aðstæðum.

Þegar tillögur bankamálanefndar höfðu borist rn. var ákveðið að leggja áherslu á að sú tillaga nefndarinnar að yfirstjórn allra banka fari í hendur viðskrh. yrði að lögum fyrir þinglok vorið 1984. Í þessu skyni voru lögð fram tvö frv. á Alþingi. Annars vegar frv. um breytingu á lögum um Búnaðarbanka Íslands og hins vegar frv. um breytingu á lögum um Iðnaðarbanka Íslands hf. Afgreiðsla þessara frv. fékk góðan byr á Alþingi o urðu frv. að lögum skömmu eftir þinglok s. l. vor. Í kjölfar þess var ákveðið að fylgja eftir bókun bankamálanefndar, sem áður er nefnd, um sameiningu og fækkun viðskiptabanka. Var dr. Gylfa Þ. Gíslasyni fyrrv. viðskrh. falin forusta fyrir því verki, en með honum starfa Björn Líndal deildarstjóri og Sigurgeir Jónsson aðstoðarbankastjóri í Seðlabankanum.

Einnig var ákveðið að senda tillögurnar til umsagnar Seðlabankans og viðskiptabankanna. Bárust rn. umsagnir þessara aðila sumarið 1984. Var þá þegar hafin athugun á tillögum og umsögnum í rn. Naut rn. aðstoðar Benedikts Sigurjónssonar fyrrv. hæstaréttardómara, Markúsar Sigurbjörnssonar fulltrúa yfirborgarfógeta og Ólafs Nilssonar löggilts endurskoðanda við það verk. Þrátt fyrir að rn. hafði kannað tillögur bankamálanefndar ítarlega með aðstoð frómustu manna er óhætt að fullyrða að í flestum meginatriðum er tillögum bankamálanefndar fylgt eða meiri hluta hennar eftir atvikum.

Frv. skiptist í tíu kafla og eru greinar þess samtals 55, auk ákvæða til bráðabirgða. Ýmsum ákvæðum gildandi laga um einstaka viðskiptabanka hefur verið breytt eða þau felld brott. Jafnframt er mörgum nýjum ákvæðum bætt við sem ætlað er að færa löggjöfina í nútímalegra horf. Með frv. er reynt að tryggja betur hagsmuni eigenda innlánsfjár og atvinnulífinu betri bankaþjónustu. Samhliða er ætlunin að stuðla að aukinni hagkvæmni í rekstri bankanna. Í almennum athugasemdum við frv. eru taldar upp helstu breytingar og nýmæli í 11 liðum. Mun ég leitast við að gera nokkuð ítarlegri grein fyrir þessum atriðum, án þess þó að um tæmandi talningu sé að ræða. Má að öðru leyti vísa til þess sem fram kemur í athugasemdum við frv. og einstakar greinar þess.

Í 1. kafla frv. er kveðið svo á að frv. gildi einungis um viðskiptabanka. Skv. frv. er hlutverk viðskiptabanka að hafa á hendi hvers konar viðskiptabankastarfsemi sem síðan er nánar skilgreint í IV. kafla frv., einkum 26. gr. En í þeirri grein er viðskiptabönkum veittur einkaréttur á móttöku inniána frá almenningi. Í l. kafla er einnig tekið fram að önnur starfsemi en sú sem sérstaklega er tiltekin í IV. kafla frv. sé viðskiptabönkum óheimil. Skv. 1. kafla eiga viðskiptabankar að geta haft stöðu að lögum með tvennum hætti. Annars vegar verði bankarnir reknir af ríkisstofnunum og hins vegar af hlutafélögum er fullnægi tilteknum skilyrðum sem vikið er að í II. kafla frv. Eins og áður segir var sú stefna mörkuð að nefna þá viðskiptabanka sem eru í eigu ríkisins ekki með nafni í sjálfu frv. Er það gert með tilliti til þess að vænta má tillagna frá nefnd þeirri, sem nú fjallar um sameiningu og fækkun viðskiptabanka, innan tíðar. Allir starfandi viðskiptabankar eru hins vegar tilgreindir í bráðabirgðaákvæðum er fylgja frv.

Með orðalagi 4. gr. frv. er horfið frá þeirri skipan að binda starfsemi hvers viðskiptabanka að verulegu leyti við tiltekna atvinnugrein, atvinnurekstur eða hagsmunasamtök eins og nú er gert í lögum um alla viðskiptabankana nema Landsbankann. Áður hefur verið vikið að stofnun bankanna en nú þykir þessi skipan ekki lengur heppileg, m. a. með tilliti til útlánaáhættu hvers banka, og þykir rétt að hver banki geti veitt almenna og alhliða bankaþjónustu öllum greinum atvinnuvega landsmanna og einstaklinga. Ákvæði gildandi laga um ábyrgð ríkisins á skuldbindingu ríkisviðskiptabanka er óbreytt.

I II kafla frv. er fjallað um stofnun hlutafélagabanka o. fl. Ákvæði þessa kafla eru nýmæli og hafa að geyma þá meginbreytingu að löggjöfin setji framvegis ströng almenn skilyrði fyrir stofnun hlutafélagabanka er geri sérstaka lagasetningu óþarfa ef til þess kæmi að nýr banki væri settur á stofn. Þessi breyting er nauðsynleg þegar litið er til þess að með frv. eru afnumin sérlög um einstaka viðskiptabanka. Á hinn bóginn eru þau skilyrði sem sett eru fyrir stofnun nýs banka höfð mjög ströng, og jafnvel kemur til greina að hækka lágmark hlutafjár frá því sem segir í frv., en þar hefur verið fylgt tillögum bankamálanefndar. Á það skal hins vegar lögð áhersla að kröfur frv. um lágmark hlutafjár eru margfalt meiri en gerðar eru skv. lögum nr. 32/1978 um hlutafélög. Auk þess er lagt til að lágmarksfjöldi hluthafa í hlutafélagi sem hyggst reka viðskiptabanka verði tífalt meiri en almennt gildir um hlutafélög. Jafnframt er skýrt kveðið á um að hluthafar geti eingöngu verið íslenskir aðilar.

Í II. kafla frv. er einnig að finna nýmæli um meðferð hlutabréfa í hlutafélögum sem reka viðskiptabankastarfsemi. Þar er m. a. kveðið svo á að ekki megi leggja hömlur á viðskipti með hluti. Jafnframt kemur þar fram að enginn hluthafi megi, hvorki fyrir sjálfs sín hönd né annarra, fara með meira en 1/5 hluta samanlagðra atkvæða á hluthafafundum í bankanum. Eiga þessi ákvæði að miða að því að tryggja sem best að hlutafélagsbankar séu starfræktir sem almenningshlutafélög og séu ekki í eigu fárra aðila er auk þess ráði meiri hluta atkvæða á hluthafafundum.

Þá er að finna í II. kafla mikilsvert nýmæli um heimild ráðh. til að veita hlutafélagabönkum, sem eiga lögheimili og varnarþing erlendis, leyfi til að starfrækja umboðsskrifstofu hér á landi. Er tekið fram að hlutverk þessarar skrifstofu sé að miðla upplýsingum, veita ráðgjöf og sinna annarri þjónustustarfsemi hér á landi á vegum erlendra banka. Þá er mælt svo fyrir að skrifstofunni sé óheimilt að taka við innlánum, veita útlán eða stunda verðbréfaviðskipti. Þessi tillaga er í samræmi við framvindu mála erlendis, þ. á m. á Norðurlöndum. Hins vegar þykir ekki rétt að svo stöddu að veita erlendum bönkum frekari kost á starfrækslu banka hér á landi. Erlendir bankar kunna að hafa áhuga á að reka umboðsskrifstofur hér á landi er hefðu það meginhlutverk að vera tengiliður milli þeirra og íslenskra lántakenda. Í því sambandi skiptir verulegu máli að ríkisstj. hefur lýst yfir að hún muni láta endurskoða reglur um beinar lántökur fyrirtækja erlendis án banka- og ríkisábyrgðar.

Í III. kafla frv. er fjallað um stjórn viðskiptabanka. Kaflanum er skipt í þrennt. Fyrst er fjallað um stjórn ríkisviðskiptabanka, þá um stjórn hlutafélagsbanka og loks hefur kaflinn að geyma sameiginleg ákvæði um stjórn bankanna.

Um yfirstjórn ríkisviðskiptabankanna segir að hún skuli vera í höndum viðskiptaráðherra og bankaráðs. Þá segir enn fremur að bankaráð ríkisviðskiptabankanna ráði bankastjóri og segi þeim upp starfi. Hér er gert ráð fyrir því nýmæli að bankastjórar skuli eigi ráðnir til lengri tíma en sex ára í senn. Hins vegar er gert ráð fyrir að endurráðning þeirra sé heimil. Með þessu er reynt að tryggja að allir æðstu yfirmenn flytjist með hæfilegum fresti milli starfa og þannig sé komið í veg fyrir stöðnun innan ríkisviðskiptabankakerfisins án þess að svipt sé burtu þeim blæ stöðugleika og festu sem einkenna þarf bankarekstur. Þá er jafnframt gert ráð fyrir í frv. að bankaráð ríkisviðskiptabankanna ákveði laun og önnur ráðningarkjör bankastjóra.

Eins og fram kom í máli mínu hér á Alþingi í síðustu viku var bankamálanefnd einhuga um þessa tillögu. Loks er lagt til að bankastjórar ríkisviðskiptabankanna megi ekki reka atvinnu sjálfir, ekki vera í stjórn atvinnufyrirtækja eða hafa með höndum önnur launuð störf, nema samþykki bankaráðs komi til. Miðar þetta ákvæði að því að takmarka enn frekar möguleika bankastjóra ríkisviðskiptabankanna til að gegna öðrum störfum. Jafnframt nær greinin til aðstoðarbankastjóra og útibússtjóra.

Á þennan hátt er leitast við að hindra að aðrir hagsmunir en hagsmunir hlutaðeigandi banka hafi áhrif á störf bankastjóra, aðstoðarbankastjóra eða útibússtjóra, svo sem við lánveitingar. Eftir sem áður er gert ráð fyrir að þessir aðilar geti sinnt störfum sem þeim kunna sérstaklega að vera falin í lögum eða tengjast starfi þeirra innan banka, svo sem seta í stjórn stofnana og fyrirtækja er bankinn á aðild að.

Ákvæðum frv. um stjórn hlutafélagabanka er að mestu skipað á sama veg og í gildandi lögum. Í frv. er þó að finna ákvæði er kveður svo á að bankastjórum og aðstoðarbankastjórum og útibússtjórum hlutafélagabanka sé óheimilt, nema að fengnu leyfi bankaráðs, að sitja í stjórn stofnana og atvinnufyrirtækja utan bankans eða taka þátt í atvinnurekstri að öðru leyti, nema lög kveði á um annað. Slíkt ákvæði er ekki að finna í gildandi lögum um hlutafélagabankana. Ákvæðið er ekki jafn ótvírætt og það ákvæði sem tekur til ríkisviðskiptabankanna. Ræður þar mestu ólík eignaraðild að þessum bönkum.

Loks er að finna í III. kafla frv. sameiginleg ákvæði um stjórn viðskiptabankanna. Með þessum ákvæðum eru ýmsar reglur gildandi laga samræmdar. T. d. er kveðið svo á að auk bankastjóra ráði bankaráð útibússtjóra og forstöðumann endurskoðunardeildar og sé auk þess heimilt að ráða aðstoðarbankastjóra. Forstöðumann endurskoðunardeildar skal bankaráð ráða án þess að tillagna bankastjórnar sé leitað, enda er þessi starfsmaður trúnaðarmaður bankaráðs og veitir forustu þeirri deild viðskiptabankanna sem annast innri endurskoðun skv. 41. gr. frv. Skal hann gera bankaráði reglulega grein fyrir því sem deildin verður vísari í störfum sínum. Er því mikilvægt að hann njóti nokkurs sjálfstæðis gagnvart bankastjórum.

Auk þess að ákvæði eru samræmd er hér að finna mikilvægt nýmæli þess efnis að bankaráð viðskiptabankanna skuli móta almenna stefnu bankans í vaxtamálum, en að öðru leyti verði ákvörðun vaxta af einstökum tegundum inn- og útlána í höndum bankastjórnar. Með þessu nýmæli er reynt að stuðla að sem minnstum vaxtamun milli inn- og útlána hjá viðskiptabönkum og þar með að sem hagstæðustum rekstri þeirra. Þegar til lengdar lætur mun þetta fyrirkomulag þjóna hagsmunum sparifjáreigenda, lántakenda og samfélagsins betur en sú skipan þessara mála sem hefur verið við lýði um langt árabil.

Til að tryggja heilbrigða og virka samkeppni er jafnframt bannað að viðskiptabanki hafi samráð við aðrar innlánsstofnanir þegar ákvörðun er tekin um vexti og önnur þjónustugjöld. Eftirlit með að þessum ákvæðum verði fylgt verður í höndum bankaeftirlitsins. Þá kemur jafnframt til greina að Verðlagsráð beiti ákvæðum IV. kafla laga nr. 56/1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, eftir því sem við getur átt.

Að endingu má vekja athygli á ákvæði sem er að finna í lok kaflans um stjórn viðskiptabanka og fjallar um þagnarskyldu starfsmanna um allt er varðar hagi viðskiptamanna banka og önnur atriði sem þeir fá vitneskju um.

Í IV. kaflanum er fjallað um starfsemi viðskiptabanka. Meginákvæði þessa kafla er í 26. gr. Þar er því lýst hvað felst í hugtakinu viðskiptabankastarfsemi og er farin önnur leið í skilgreiningu hugtaksins en í gildandi lögum. Þykir sú skilgreining sem lagt er til að fylgt verði í frv. hæfa betur nútímaaðstæðum og gera bönkum betur kleift að laga starfsemi sína að breyttum kröfum. Eftir sem áður verður þó starfsemi viðskiptabankanna fyrst og fremst fólgin í geymslu og ávöxtun fjár og miðlun á peningum. Þessi skilgreining frv. á viðskiptabankastarfsemi felur í sér alla þá þætti sem falla almennt undir hugtakið, þ. á m. verðbréfaviðskipti. Ákvæðunum er því ekki ættað að þrengja almennt starfsvettvang viðskiptabanka frá því sem verið hefur. Engu að síður er ætlast til þess að þetta hugtak verði skýrt þröngt. Í 2. málsgr. 26. gr. er að finna þá grundvallarreglu frv. að viðskiptabankar og aðrir aðilar, er til þess hafa lagaheimild, eigi einkarétt á að auglýsa eða bjóðast til með öðrum hætti að taka við inniánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar. Lagaheimildir af þessu tagi eru þegar fyrir hendi í lögum um aðrar innlánsstofnanir. En skv. 10. gr. laga um Seðlabanka eru það þessar stofnanir sem háðar eru eftirliti bankaeftirlitsins. Tilgangur eftirlitsins er fyrst og fremst að gæta hagsmuna þeirra sem eiga innlánsfé í stofnunum eða aðrar kröfur á hendur þeim. Af því leiðir að rétt þykir að kveða skýrt á um einkarétt stofnananna til þess að auglýsa eða bjóðast til með öðrum hætti að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar. Það er ljóst að ekki er unnt í lögum að skilgreina nákvæmlega hvað átt sé við með inniánum. Niðurstaða þess verður að fást fyrir dómstólum.

Grundvallarbreyting er einnig gerð á ákvæðum gildandi laga um rétt viðskiptabanka til gjaldeyrisverslunar. Skv. frv. er þessi réttur ótvíræður en Seðlabankanum einungis heimilt að fengnu samþykki ráðh. að binda þann rétt tilteknum takmörkunum. Í þessum kafla frv. er einnig fjallað um heimild viðskiptabanka til að eiga aðild að öðrum félögum eða stofnunum. Þær heimildir eru tvenns konar og bundnar við félög og stofnanir með takmarkaðri ábyrgð. Það felur í sér að viðskiptabanki ber einungis ábyrgð á skuldbindingum þessara félaga og stofnana með framlagi sínu til þeirra, en ekki með öllum sínum eigum, eins og um væri að ræða ef banki gæti verið aðili að félagi með ótakmarkaðri ábyrgð. Verði þetta ákvæði að lögum er ljóst að viðskiptabankar þurfa að breyta fyrirtækjunum Visa Ísland og Kreditkort sf. úr sameignarfélögum í hlutafélög. Heimild viðskiptabanka í þessum efnum greinist eingöngu eftir því hvort um er að ræða félög sem reka viðskiptabankastarfsemi eða aðra starfsemi sem tengist viðskiptabankastarfsemi eða ekki.

Í báðum þessum tilvikum er reynt að draga sem mest úr áhættu bankans af rekstri þessara fyrirtækja með því að binda eignaraðild bankans að fyrirtækjum við tiltekið hlutfall af eigin fé hjá hlutaðeigandi banka. Mun strangari kröfur eru þó gerðar að því er varðar aðild viðskiptabanka að félögum sem reka aðra starfsemi en viðskiptabankastarfsemi. Ákvæði þetta er því til þess fallið að auka öryggi í landinu. Samkv. ákvæðum IV. kafla er viðskiptabanka óheimilt að eiga aðrar fasteignir en þær sem nauðsynlegar eru vegna starfsemi bankans. Þá er einnig gert ráð fyrir því að viðskiptabanki geti gefið út skuldabréf sem hafa að geyma ákvæði þess efnis að krafa sem eigandi slíks bréfs eignast á hendur viðskiptabanka skuli við slit eða gjaldþrotaskipti á búi bankans víkja í skuldaröð fyrir öðrum kröfum sem kunna að vera fyrir hendi. Hér er um svokölluð víkjandi lán að ræða og skiptir það máli um mat á eigin fé bankans.

Það er rétt að vekja athygli á ákvæði er mælir svo fyrir að bankastjórar og aðstoðarbankastjórar og skoðunarmenn megi ekki vera skuldugir við bankann sem þeir starfa við, hvorki sem aðalskuldarar né ábyrgðarmenn annarra. Gildir hið sama um maka þeirra. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að bankaráð setji reglur um viðskipi starfsmanna við banka sem þeir starfa hjá.

Í V. kafla frv. er fjallað um laust fé og eigið fé viðskiptabanka. Slík ákvæði er einungis að finna í gildandi lögum um ríkisviðskiptabankana. Þau ákvæði hafa ekki þótt duga nægjanlega vel. Aðstæður á peninga- og fjármagnsmarkaði geta breyst mjög á tiltölulega skömmum tíma og þykir því óraunhæft að setja í lög nákvæmar og ófrávíkjanlegar reglur um lágmarkslausafjárstöðu viðskiptabankanna eða annarra innlánsstofnana eins og gert er í gildandi lögum. Þess vegna hefur í frv. verið valin sú leið að skilgreina laust fé bankanna sem peninga í sjóði, óbundin nettóinnlán í innlendum og erlendum bönkum, ríkisvíxla og aðrar sambærilegar eignir. Samhliða því að laust fé er afmarkað á þennan hátt er kveðið á um að bankar kappkosti að hafa á hverjum tíma yfir að ráða nægilegu lausu fé til að geta innt af hendi úttektir á innlánsfé og aðrar nauðsynlegar greiðslur.

Ákvæði um eigið fé er ekki að finna í gildandi lögum um viðskiptabanka. Hér er þó um mjög mikilvægt atriði í löggjöf um innlánsstofnanir að ræða sem miðar að því að vernda hagsmuni eigenda innlánsfjár þótt banki verði fyrir óvæntum áföllum. Í frv. hefur því slíkt ákvæði verið tekið upp. Sú leið hefur verið valin að gera kröfur um ákveðið lágmark eigin fjár af niðurstöðutölum efnahagsreiknings, en bæta skal við eigið fé áður en hlutfallið er fundið út 3/4 hlutum andvirðis skuldabréfa sem bankinn gefur út og telst vera víkjandi lán. Skal hlutfallið vera minnst 5%. Á hinn bóginn skal bæta við niðurstöðutölu efnahagsreiknings áður en hlutfallið er fundið út samanlagðri fjárhæð veittra ábyrgða utan efnahagsreiknings, en draga frá eignir sem telja má litla hættu á að bankinn tapi.

Ýmsum kann að virðast að ekki sé eins rík þörf á að setja reglur um eigið fé ríkisviðskiptabanka og á við um hlutafélagabanka. Þessi skoðun er ekki fyllilega rétt því reglur um eigið fé fela í sér gagnlegt aðhald fyrir ríkisviðskiptabanka og að þessu leyti er einnig rétt að ríkisviðskiptabankarnir sæti sömu starfsskilyrðum og hlutafélagabankar. Þá getur það skipt máli fyrir erlenda banka, sem eiga í viðskiptum við íslenska ríkisviðskiptabanka, að ársreikningar sýni að eigið fé sé í fullnægjandi horfi.

Eins og fram kemur síðar er gert ráð fyrir að ráðh. setji reglur um gerð ársreikninga hjá viðskiptabönkum. Á því skal vakin athygli hér að setning slíkra reglna hefur mikið gildi þegar meta skal eigið fé bankanna, en þannig er unnt að tryggja að við gerð ársreikninga sé gengið út frá sömu forsendum alls staðar, svo sem við uppgjör einstakra efnahagsleiða og mat á eignum og skuldbindingum. Telja verður að setning þessara reglna svo og ýmissa aukinna ákvæða í þessu frv. veiti eigendum innlánsfjár nægilegt öryggi.

Í ákvæði frv. um eigið fé er kveðið svo á að bókfært virði fasteigna og búnaðar, sem viðskiptabankar nota til starfsemi sinnar, megi ekki nema hærri fjárhæð en sem svarar 65% af eigin fé bankans. En áður hefur komið fram að viðskiptabönkum er ekki heimilt að eiga aðrar fasteignir en þær sem nauðsynlegar eru vegna starfsemi þeirra. Ákvæði þetta byggist á því að óeðlilegt sé að bankar festi allt eigið fé í fasteignum og jafnvel meira fé. Ákvæðið tekur bæði til fasteigna og búnaðar sem er í eigu banka og hann hefur á leigu. Þá gegnir ákvæðið veigamiklu hlutverki við að stöðva þá fjölgun bankaútibúa sem oftlega hefur verið gagnrýnd hér á Alþingi á undanförnum árum. Það stuðlar að því að bankar gæti fyllsta sparnaðar við uppsetningu nýrra útibúa. Núgildandi reglur eru einnig að komast úr takt við tímann, bankaviðskipti taka nú örum breytingum. Þess er skemmst að minnast að sérstakir tölvubankar hafa nú verið settir upp og gefur sú þróun nokkra vísbendingu um hvernig viðskipti þessi muni breytast á næstu árum.

Í VI. kafla frv. er fjallað um ársreikninga viðskiptabanka. Um þennan kafla þarf ekki að hafa mörg orð. Þar er gert ráð fyrir að ráðh. setji, eins og áður er getið, nánari reglur um gerð ársreiknings. Ársreikningar hlutafélagabanka munu að sjálfsögðu taka mið af þeim reglum sem er að finna í lögum nr. 32/1978, um hlutafélög. Ástæða er til að taka sérstaklega fram að í athugasemdum við þennan kafla frv. er því lýst yfir að sú sundurliðun, sem lög nr. 35/1983, lög nr. 37/1983 og lög nr. 39/1983 gera ráð fyrir á efnahags- og rekstursreikningi, verði tekin upp í þær reglur sem viðskrh. mun setja um gerð ársreikninga. Þessa yfirlýsingu vil ég ítreka nú.

Ástæða þess að sundurliðun er ekki tekin upp í frv. er einfaldlega sú að það væri einnig ástæða til þess að setja upp önnur ákvæði um gerð efnahags- og rekstursreiknings bankanna í frv. Slík ákvæði yrðu mjög fyrirferðamikil og þykir því hægara að kveða á um uppsetningu ársreiknings í sérstökum stjórnvaldsreglum. Í athugasemdum við frv. er því gefið til kynna með hvaða hætti sú uppsetning skuli vera.

Í VII. kafla laganna er fjallað um endurskoðun. Er þar gert ráð fyrir að það fyrirkomulag verði óbreytt að Alþingi kjósi tvo endurskoðunarmenn fyrir hvern ríkisviðskiptabanka. Á hinn bóginn er kveðið svo á að auk hinna þingkjörnu endurskoðenda skuli ráðh. skipa löggiltan endurskoðanda til að annast endurskoðun hjá þessum bönkum. Með þessu er reynt að tryggja aukið eftirlit rn. með ríkisviðskiptabönkum. Þessi kafli frv. hefur og að geyma ýmis önnur nýmæli, þ. á m. um starfsemi endurskoðunardeildar sem annast skal innri endurskoðun undir stjórn forstöðumanns. Eins og áður segir er forstöðumaður ráðinn af bankaráði og er trúnaðarmaður þess. Þá er í kaflanum fjallað um starf skoðunarmanna, skyldur þeirra og réttindi.

Í VIII. kafla eru nýmæli um slit og samruna viðskiptabanka. Ákvæði kaflans tengjast um margt ákvæði frv. um eigið fé viðskiptabanka og geyma reglur um það hvernig með skuli fara ef eigið fé banka fer undir það lágmark sem áskilið er í frv. og ekki tekst innan hæfilegs tíma að gera þar bragarbót á. Ítarlegar reglur um slit viðskiptabanka eru nauðsynlegar. Núgildandi reglur eru með öllu óviðeigandi, um mikla hagsmuni getur verið að tefla og óeðlilegt er að opinbert eftirlit með tilhögun slita sé jafn lítið og raun er á. Það er enn fremur óæskilegt að mismunandi reglur gildi um slit viðskiptabanka eftir því hvort um er að ræða hlutafélagabanka eða ríkisviðskiptabanka. Af þessum sökum eru settar í kaflann sérstakar reglur um þetta efni sem ná til beggja tegunda viðskiptabanka. Með vísan til þess að brýnt er að opinbert eftirlit sé með tilhögun slita er farin sú leið að slit viðskiptabanka eða skipti á búi hans verði í höndum skiptaréttar.

Í kaflanum er einnig fjallað um samruna viðskiptabanka og taka þau ákvæði eðli sínu skv. einkum til hlutafélagabankanna. Skv. ákvæðunum þarf leyfi ráðh. til að samruni geti átt sér stað. Er tilgangur þessarar tilhögunar tvíþættur, annars vegar að koma í veg fyrir að hagsmunir þeirra, er eiga innlánsfé í þessum stofnunum sem samruni tekur til, sé stefnt í hættu. Hins vegar að tryggja að samruni sé ekki óæskilegur út frá almannahagsmunum t. d. vegna þess að hann dragi óeðlilega mikið úr samkeppni banka og annarra innlánsstofnana. samruni viðskiptabanka innbyrðis eða við hlutafélagabanka getur hins vegar ekki orðið skv. frv. nema um slíkt sé mælt fyrir í lögum.

IX. kafli laganna hefur að geyma refsiákvæði og skýrir ákvæði kaflans sig að mestu sjálft.

X. og síðasti kafli frv. fjallar um gildístöku þess og fleira. Ákvæði þessa kafla eru þrír þættir. Í fyrsta lagi eru reglur um gildistöku og þar með mælt fyrir um þá meginreglu að frv. öðlist gildi sem lög frá Alþingi 1. janúar 1986. Auk þess er að finna sérreglur varðandi gildistökuna að því er varðar einstaka kafla og ákvæði. Þá eru tilgreind nákvæmlega þau lög og lagaákvæði sem falla eiga úr gildi við gildistöku frv. sem lög.

Í öðru lagi er í kaflanum ákvæði er veita starfandi viðskiptabönkum frest til að koma eigin fé og hlutafé í það horf sem ákvæði frv. áskilja.

Í þriðja lagi er kveðið svo á í kaflanum að ráðh. skuli innan árs frá gildistöku þeirra gefa út reglugerð sem kveður nánar á um starfsemi ríkisviðskiptabanka. Jafnframt er gert ráð fyrir að hlutafélagabankar breyti samþykktum sínum til samræmis við ákvæði laganna á fyrsta aðalfundi eftir gildistöku þeirra.

Með frv. fylgja ákvæði til bráðabirgða í þremur liðum. Í fyrsta liðnum eru taldir upp starfandi viðskiptabankar. Er það gert með vísan til þess að vænta má að innan tíðar líti dagsins ljós till. um fækkun og sameiningu viðskiptabanka. Einnig mæla bráðabirgðaákvæðin svo fyrir að við gildistöku laganna falli úr gildi umboð þeirra er nú sitja í bankaráðum ríkisviðskiptabankanna og Alþingi kjósi nýja bankaráðsmenn. Jafnframt er gert ráð fyrir að sama tilhögun verði höfð á kjöri nýrra skoðunarmanna fyrir ríkisviðskiptabankana.

Herra forseti. Ég hef nú farið yfir flest meginatriði þessa frv. sem hér liggur fyrir. Ég vænti þess að unnt sé að hraða afgreiðslu frv. eins og frekast er kostur og ríkisstj. leggur áherslu á. Af hálfu viðskrn. verður kostað kapps um að veita fjh.- og viðskn. beggja deilda þær upplýsingar sem óskað kann að verða eftir og þannig reynt að tryggja sem skjótasta meðferð. Á það skal lögð áhersla að til grundvallar þessu frv. liggur fyrir mikið starf sem rekja má allt til ársins 1972 eins og ég gat um hér áðan.

Ég mun ekki hafa þessi orð mín fleiri hér. Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar. Ég vænti þess að viðskn. beggja deilda geti starfað saman til þess að að gagni mættu koma allar þær upplýsingar sem n. telja sig þurfa að fá, skjöl og annað eftir því, og þannig mætti flýta meðferð málsins.