18.04.1985
Sameinað þing: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4337 í B-deild Alþingistíðinda. (3658)

335. mál, frelsi í innflutningi á olíuvörum

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Mál það sem hér er á dagskrá, frelsi í innflutningi á olíuvörum, var rætt á síðasta fundi Sþ. Þar mælti hv. flm., 3. þm. Reykn., fyrir málinu og hæstv. viðskrh. gagnrýndi mjög þá þáltill. sem þar er flutt og vefengdi ýmsar tölur sem þar komu fram, bæði í grg. og í máli hv. flm.

Ég tók þátt í þessari umræðu og gerði athugasemdir við vissar upplýsingar sem hæstv. viðskrh. kom fram með um núverandi verð á olíu hér innanlands og það verð sem unnt er að fá í nágrannalöndum. Hæstv. ráðh. hélt því fram í þessari umræðu að verð á gasolíu á Íslandi, sem nú er 11,10 kr., og hins vegar í grannlöndum okkar, eins og Bretlandi, Danmörku og Þýskalandi, væri mjög ámóta. Stangast það mjög á við þær upplýsingar sem fyrir lágu eða a. m. k. voru fram reiddar í desember s. l. og janúar á þessu ári þegar mjög var um þessi mál rætt í sambandi við olíuverð til fiskiskipa.

Ég hef af þessu tilefni innt Landssamband ísl. útvegsmanna eftir því á hvaða verði mætti fá olíu í nágrannalöndum okkar og hvaða verð gilti þar á olíu sem afhent er til fiskiskipa, þ. e. gasolíu. Ég hef fengið svofelldar upplýsingar sem ég tel rétt að hér komi fram: Í Danmörku 8,35 kr. hver lítri, í Bretlandi 9,10 kr. og í Þýskalandi 9,20 kr. hver lítri. Þetta eru upplýsingar sem Landssamband ísl. útvegsmanna hefur látið mér í té um þessi efni. En á sama tíma er verð á gasolíu hér innanlands, þ. á m. til fiskiskipa, 11,10 kr. Það verður því ekki séð að sá verðmunur upp á 30% og þar yfir, sem talað var um í desembermánuði s. l. þegar þessi mál voru til umræðu, hafi minnkað í reynd þó að breytingar og sveiflur kunni að hafa orðið á olíuveiði erlendis, þ. á m. til fiskiskipa.

Ég hvatti mjög til þess hér í ræðu á síðasta fundi Sþ. ríkisstj. og hæstv. viðskrh. legðu fram fyrir þingið glöggar upplýsingar um vitneskju stjórnvalda í þessum efnum þannig að ekki færi milli mála um hvað væri verið að tala í þessum þýðingarmikla þætti sem skiptir afar miklu fyrir íslenskan sjávarútveg svo og aðra sem olíu nota hér innanlands. Ég vildi að þetta kæmi hér fram við framhald umræðunnar og vænti þess að hæstv. viðskrh. afli gagna fyrir þingið hið allra fyrsta og láti þau í té bæði fyrir þingið og almenning.