18.04.1985
Sameinað þing: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4339 í B-deild Alþingistíðinda. (3663)

353. mál, afnám misréttis gagnvart konum

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Á síðasta fundi Sþ. hófst umr. hér um 353. mál Sþ., till. til þál. um heimild fyrir ríkisstj. til að fullgilda samning um afnám alls misréttis gagnvart konum. Hæstv. utanrrh. mælti fyrir þessari till. sem ríkisstj. leggur hér fyrir þingið og hv. 11. þm. Reykv. ræddi hér málið og beindi fsp. til ráðh. af tilefni þessa tillöguflutnings. Ég vil ekki láta hjá líða að lsa fyllstu samþykki mínu við það að þessi till. um staðfestingu á þessum samningi er hér fram komin og tel það ánægjuefni. Jafnnauðsynlegt er fyrir þingið að átta sig á hvað í ákvæðum þessa samnings felst.

Nú er það svo að eflaust er hægt að benda á mörg ríki sem standa hallari fæti í sambandi við það efni sem í samningnum felst en Ísland, en eins og um önnur mál sem varða alþjóðlegar reglur og viðmiðanir hlýtur það að skipta mestu hvernig menn yrkja garðinn hver hjá sér í þessum efnum. Ég vil benda á það hér að í grg. þessa samnings segir m. a., með leyfi forseta:

„Skv. 1. gr. samningsins er misrétti gagnvart konum skilgreint sem hvers kyns aðgreining, útilokun eða takmörkun sem byggð er á kynferði sem hefur þau áhrif eða markmið að takmarka eða gera að engu að konur, óháð hjúskaparstöðu, á grundvelli jafnréttis karla og kvenna, fái viðurkennd, geti notið eða framfylgt mannréttindum og grundvallarfrelsi á sviði stjórnmála, efnahagsmála, félagsmála, menningarmála, borgaralegra mála eða á sérhverju öðru sviði.

Í samningnum eru síðan ákvæði sem skuldbinda aðildarríkin til að gera ráðstafanir til að afnema misrétti gagnvart konum á hinum ýmsu sviðum.“

Um þessi efni er nánar fjallað í bindandi ákvæðum þessa samnings, sem hér er lagður fyrir Alþingi til staðfestingar, þar sem aðildarríki, sem hann staðfesta, hafa m. a. orðið ásátt um eftirfarandi og ég leyfi mér að vísa þar til þess sem kemur fram á bls. 4 og 5 í þessum samningi sem er fskj. með þáltill.

Þar kveður á um í 1. gr. að hvers kyns takmörkun „sem byggð er á kynferði sem hefur þau áhrif eða markmið að hindra eða koma í veg fyrir að konur, óháð hjúskaparstöðu, á grundvelli jafnréttis karla og kvenna, fái viðurkennd, geti notið eða framfylgt mannréttindum og grundvallarfrelsi á sviði stjórnmála, efnahagsmála, félagsmála, menningarmála, borgaralegra mála eða á sérhverju öðru sviði.“

Og í 2. gr. er vikið að því undir a-lið að þau ríki sem staðfesta samninginn setji „grundvallarregluna um jafnrétti karla og kvenna í stjórnarskrár sínar eða aðra viðeigandi löggjöf, sé hún þar ekki fyrir, og að ábyrgjast með lögum eða öðrum viðeigandi ráðum að grundvallarreglu þessari verði framfylgt í raun.“

Og í b-lið:

„að gera viðeigandi ráðstafanir með lögum og aðrar ráðstafanir þar með talið viðurlögum, þar sem við á, sem banna allt misrétti gagnvart konum.“

Ég vek athygli á þessu og vísa þá til þeirra ábendinga sem fram komu hjá hv. 11. þm. Reykv. hér fyrr við umr. þar sem innt var eftir áliti hæstv. ríkisstj., utanrrh. og alveg, sérstaklega félmrh. um það hvernig ríkisstj. mæti þessa 'stöðu í sambandi við löggjöf hérlendis með tilliti til ákvæða þessa samnings.

Í c-lið sömu greinar segir:

„að koma á lagavernd á réttindum kvenna á grundvelli jafnréttis við karla og að tryggja fyrir lögbærum dómstólum landsins og hjá öðrum opinberum stofnunum raunverulega vernd til handa konum gegn hvers konar misrétti.“ — Ég vek athygli á þessu: „að tryggja fyrir lögbærum dómstólum landsins og hjá öðrum opinberum stofnunum raunverulega vernd til handa konum gegn hvers konar misrétti.“

Í d-lið sömu greinar:

„að eiga ekki hlut að né framfylgja misrétti gagnvart konum og ábyrgjast að opinber stjórnvöld og stofnanir breyti í samræmi við þessa skyldu.“

Og í e-lið er vikið að öðrum en opinberum aðilum og segir svo í samningnum:

„að gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að afnema misrétti gagnvart konum af hálfu einstaklinga, stofnana eða fyrirtækja.“

Hér er einnig vikið að fyrirtækjum, þ. e. ekki aðeins hinum opinbera þætti máls heldur einnig einkaaðilum. Og í f-lið sömu greinar:

„að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þ. á m. með lagasetningu, til þess að breyta eða afnema gildandi lög, reglugerðir, venjur og starfshætti sem fela í sér misrétti gagnvart konum.“

Ég bið hv. þm. að taka eftir þessum ákvæðum um „venjur og starfshætti sem fela í sér misrétti gagnvart konum.“

Í framhaldandi greinum þessa samnings er enn hert á þessum þáttum, m. a. í 4. og 5. gr., og ætla ég ekki að taka tíma hv. deildar til að vitna frekar í þennan samning. Ákvæði hans liggja hér fyrir í íslenskri þýðingu. En ég vek athygli á því að hér erum við að fjalla um eitt stærsta mál félagslegs eðlis sem varðar jafnrétti í landinu. Með því að staðfesta þennan samning, sem ríkisstj. hér hefur lagt fyrir, eru stjórnvöld og aðrir aðilar, sem hlut eiga að máli, að taka á sig mikla ábyrgð í þessum efnum.

Ég vék að því í upphafi míns máls að við Íslendingar stæðum ekki verst þjóða í þessum efnum. Mjög víða er að finna hörmulegt ástand að því er varðar stöðu kvenna, bæði réttarstöðu og félagslega stöðu. Nægir í því sambandi að minna á það sem Kurt Waldheim, fyrrv. aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, greindi frá fyrir nokkrum árum þar sem hann dró það fram í ræðu um réttindamál kvenna, sem mjög hafa verið til meðferðar á þingi Sameinuðu þjóðanna, að á sama tíma og konur eru helmingur af íbúum jarðar og 1/3 af skráðu vinnuafli fá þær aðeins 1/10 af heimsframleiðslu í sinn hlut og eiga minna en 1% af eignum í heiminum. Þær eru hins vegar á sama tíma ábyrgar fyrir 2/3 allra vinnustunda. Þetta voru orð Kurt Waldheims og þau segja sína sögu um stöðuna almennt í þessum málum.

Ef litið er til Íslands í þessu efni er nærtækt að líta í hagskýrslur frá Framkvæmdastofnun ríkisins varðandi stöðu mála á árinu 1983, sem nýlega hefur verið dreift til alþm., en þar er m. a. að finna yfirlit um ársverk og meðallaun eftir kyni í einstökum greinum og á heildina litið í okkar landi. Niðurstaðan í því yfirliti, sem ég ætla ekki að tíunda hér nema meginniðurstöður, er sú að af vinnuafli eða ársverkum í atvinnulífinu, þar sem starfandi voru árið 1983 68 920 karlar, voru meðallaun á ársverk 308 þús., en af 44 001 ársverki kvenna voru meðalárslaunin 200 þús. kr. Fátt talar skýrara um þá efnahagslegu stöðu sem konum er búin á vinnumarkaði hérlendis og er þá ekkert sagt um hina félagslegu stöðu, þá undirokun sem viðgengst í reynd þrátt fyrir ákvæði laga og stjórnarskrár um réttarstöðu kvenna. Vonandi verður sú till. sem hér er lögð fyrir af ríkisstj. til þess að af hálfu löggjafans og framkvæmdavaldsins verði tekið á þessum þáttum svo sem ber, m. a. með hliðsjón af þeim samningi sem hér er lagður fyrir þingið.