18.04.1985
Sameinað þing: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4341 í B-deild Alþingistíðinda. (3664)

353. mál, afnám misréttis gagnvart konum

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Þegar þessi þáltill. kom til umr. á síðasta fundi hér í Sþ. óskaði ég eftir því að hæstv. félmrh. væri viðstaddur umr. því að framkvæmd þeirra mála, sem þessi samningur um afnám alls misréttis gagnvart konum tekur til, snertir mjög hans verkefnasvið í hæstv. ríkstj. Hæstv. félmrh. hafði þá nýlokið við að ræða stöðuveitingar í félmrn. og var farinn af fundi Sþ., en hæstv. forseti féllst góðfúslega á að fresta umr. til þessa fundar svo að hæstv. félmrh. gæti verið viðstaddur og svarað þeim spurningum sem ég óska eftir að beina til hans varðandi framkvæmd þess stórmerka samnings sem hér er lagt til að verði fullgiltur fyrir Íslands hönd. Hæstv. félmrh. er nú viðstaddur og er okkur því ekkert að vanbúnaði til að halda áfram umr. þótt óhjákvæmilegt reynist að endurtaka nokkuð það sem sagt var á síðasta fundi í þessu máli vegna fjarvistar ráðh. þá.

Eins og ég greindi þá frá fagna ég því innilega að till. um fullgildingu þessa samnings er hér fram komin og ég lýsi fullum og einhuga stuðningi Kvennalistans við hana. En um leið hlýt ég að benda á að enn vantar mikið upp á raunverulega framkvæmd þess — svo að notað sé orðalag tillögunnar — að allt misrétti gagnvart konum hér á landi sé úr sögunni. Því miður er reyndin ekki sú og því hnýt ég um það sem stendur í grg. með till., með leyfi forseta:

„Ekki er talin þörf frekari lagasetningar né annarra ráðstafana til þess að geta framfylgt samningnum.“ Nú er það ekki svo að allt misrétti teljist afnumið gagnvart konum í viðkomandi aðildarlandi við fullgildingu þessa samnings, heldur skuldbinda aðildarríkin sig til að „takast á hendur að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir í löndum sínum sem miða að því að framfylgja fullkomlega réttindum þeim sem viðurkennd eru í samningi þessum“, eins og segir í 24. gr. samningsins, með leyfi forseta.

Hér á landi er einmitt þörf á lögum eða öðrum ráðstöfunum sem tryggja raunverulega bættan hag kvenna, sem tryggja að markmiðum þessa merka samnings verði náð. Þótt fullgilda megi samninginn án frekari lagasetningar á það ekki við rök að styðjast, eins og segir í grg., að ekki þurfi til að koma ráðstafanir til að þessum samningi um afnám alls misréttis gagnvart konum verði framfylgt hér á landi. Hæstv. utanrrh. kom aftur í stólinn við umr. um þetta mál á síðasta fundi Sþ. og samsinnti hann því að hér væri ef til vill ekki rétt til orða tekið og vissulega kynni að vera þörf formlegra ráðstafana til að framfylgja þessum samningi, en ekki var hann tilbúinn til að segja af eða á um hvaða ráðstafanir þyrftu að hans mati til að koma né hverju hann væri tilbúinn til að beita sér fyrir í þessum efnum og taldi, og það með nokkrum rétti, að framkvæmd samningsins heyrði ekki undir hans málasvið í hæstv. ríkisstj. Hæstv. utanrrh. er samt sem áður flm. þessarar till. og því talsmaður annars stjórnarflokks í þessu máli og ætti því að vera tilbúinn til að svara einhverju í þessum efnum. Jafnframt vil ég benda hæstv. utanrrh. á að ein forsenda þessa merka samnings heyrir beint undir hans málasvið í hæstv. ríkisstj., en í inngangi samningsins segir svo, með leyfi forseta:

„Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum, árétta að efling heimsfriðar og öryggis, slökun spennu í alþjóðamálum, gagnkvæm samvinna allra ríkja óháð félagslegu og efnahagslegu kerfi þeirra, almenn og algjör afvopnun og sérstaklega kjarnorkuafvopnun undir ströngu og virku alþjóðaeftirliti, staðfesting á grundvallarreglum um réttlæti, jafnrétti og gagnkvæman hag í samskiptum ríkja í milli og viðurkenning á rétti þjóða, sem eru undir erlendum yfirráðum og yfirráðum nýlenduvelda, til sjálfsákvörðunar og sjálfstæðis, jafnt sem virðing fyrir fullveldi og landamærahelgi, muni efla félagslegar framfarir og framþróun og mun því stuðla að algeru jafnrétti karla og kvenna.“

Hér kemur beinlínis til kasta hæstv. utanrrh. og vil ég því hvetja hann til dáða í þessum efnum á alþjóðavettvangi og inna hann eftir hvernig hann hafi hugsað sér að leggja sitt af mörkum til að framfylgja þessari forsendu samningsins. En það voru þær ráðstafanir sem gera þarf hér heima fyrir til að framfylgja þessum samningi um afnám alls misréttis gagnvart konum sem ég vildi inna hæstv. félmrh. sérstaklega eftir og reyndar utanrrh. einnig, eins og ég hef áður sagt, og hér er sannarlega aðgerða þörf.

Ef við lítum fyrst á vinnumarkaðinn blasir kynbundið launamisrétti við hvert sem við lítum. Konur eru fjölmennastar í lægst launuðu störfunum. Þær manna láglaunahópa þessa lands að 2/3 hlutum. Hefðbundin kvennastörf eru lægra launuð en hefðbundin karlastörf. Eins og fram kemur í nýrri skýrslu Framkvæmdastofnunar ríkisins um vinnumarkaðinn árið 1983 skila öll karlastörf nema í landbúnaði launum yfir landsmeðaltali það ár á meðan öll kvennastörf skila lægri launum en sem nemur landsmeðaltalinu. Meðallaun karla voru skv. þessari skýrslu talin tæpum 52% hærri en meðallaun kvenna þetta sama ár. Kynbundið launamisrétti er orðið sem við notum yfir þetta ástand á vinnumarkaðinum. Og hvað ætlar hæstv. ríkisstj. að gera til þess að afnema það? Ég spyr og vonast til að hæstv. félmrh., sem nú er hér viðstaddur, sé þess megnugur að svara því á eftir hvaða ráðstafanir hæstv. ríkisstj. ætlar að gera til að afnema þetta launamisrétti og framfylgja þeim samningi sem hér er til umræðu um afnám alls misréttis gagnvart konum að þessu leytinu til.

Ég vil benda á í þessu sambandi að stjórnvöld geta fjöldamargt gert í þessu. Þau geta sýnt fordæmi og afnumið þetta kynbundna misrétti í samningum við sína eigin starfsmenn, þ. e. opinbera starfsmenn, — og nú er leitt að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera staddur hér. Stjórnvöld geta sýnt fordæmi að þessu leytinu til og þannig rutt brautina fyrir aðra launþega sem geta notað fordæmi ríkisins í samningum við sína vinnuveitendur. Stjórnvöld geta líka sett lög um tímabundna jákvæða mismunun kvenna á vinnumarkaðinum og er sérstaklega tekið fram í þeim samningi sem hér er til umræðu að slík lagasetning teljist ekki brot á honum, heldur í anda hans, ef slík lagasetning þykir horfa til raunverulegs jafnréttis í viðkomandi landi. stjórnvöld geta einnig beitt sér fyrir endurmati á hefðbundnum kvennastörfum, þ. e. á störfum láglaunahópa, og hefur frv. þess efnis verið borið fram tvívegis hér á hv. Alþingi á þessu þingi og einnig á síðasta þingi, í bæði skiptin á upphafi þings.

Á síðasta þingi fékkst þetta frv. ekki afgreitt úr nefnd fyrir þinglausnir og á þessu þingi er það búið að dúsa í hv. allshn. Nd. síðan í október og enn bólar ekki á því úr nefndinni. Stjórnvöld geta einnig beitt sér fyrir því að heimilisstörf, sem að miklum meiri hluta eru unnin af konum og launalaust inni á heimilum landsins, yrðu metin til tekna, þ. e. til starfsreynslu úti á vinnumarkaðinum. Þáltill. þess efnis hefur legið í hv. allshn. Sþ. síðan í janúar og ekkert bólar heldur á henni úr nefndinni. Ef afnema á allt misrétti gagnvart konum hér á landi eins og samningurinn hljóðar upp á verður að taka á þessum málum og ég spyr: Hvað ætla stjórnvöld sér að gera í þessu efni?

Fjöldamargt fleira má tiltaka er varðar fjárhagsstöðu kvenna sérstaklega, svo sem skattamál, lífeyrismál og tryggingamál. En ég vil aðeins minnast á tvö önnur atriði sem borin hafa verið upp sem þingmál hér á hv. Alþingi og sem miða að raunverulega bættri stöðu kvenna hér á landi, að því að konur búi ekki við misrétti vegna þess að þær eru konur. Þetta eru þingmál sem ekki hafa hlotið náð hjá þeim þingmeirihluta sem væntanlega stendur að baki þeirri þáltill. sem hér er til umr.

Í fyrsta lagi vil ég nefna frv. til l. um lengingu fæðingarorlofs úr þremur mánuðum í sex mánuði sem m. a. auðveldar konum til mikilla muna að samhæfa móðurhlutverkið þátttöku á öðrum sviðum þjóðfélagsins, en það er eitt af meginmarkmiðum þessa samnings. Þetta frv. hefur nú verið flutt tvívegis. Á síðasta þingi lá það í salti í hv. heilbr.- og trn. Nd. í fulla fjóra mánuði og fékkst ekki afgreitt úr nefnd fyrir þinglausnir. Nú er það búið að dúsa í þessari sömu hv. nefnd síðan í desember og enn er engin hreyfing á málinu sýnileg. Ef hæstv. ríkisstj. er ekki tilbúin til að taka tillit til barnsfæðingarhlutverks kvenna á þann máta sem lagt er til í þessu frv., hvernig hefur hún þá hugsað sér að gera það? Ég spyr og vona að hæstv. félmrh. geti svarað því hér á eftir. Og þegar hann gerir það, ef hann verður við þeirri ósk minni, bið ég hann að hafa í huga ofurlítinn kafla í inngangi samningsins sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ríki þau, sem aðilar eru að samningi þessum, hafa í huga hinn mikla skerf sem konur leggja fram til velferðar fjölskyldunnar og þróunar þjóðfélagsins, sem hingað til hefur ekki verið viðurkenndur að fullu, hið félagslega mikilvægi móðurhlutverksins og hlutverk beggja foreldra fyrir fjölskylduna og uppeldi barnanna og eru sér þess meðvitandi að barnsfæðingarhlutverk konunnar á ekki að vera undirrót misréttis heldur skal ábyrgð á uppeldi barna vera skipt milli karla og kvenna og alls þjóðfélagsins.“

Ofurlítið seinna segir, og er þar aftur vísað til þeirra ríkja sem eru aðilar að þessum samningi, að þau séu staðráðin í að framfylgja grundvallarreglum þeim sem séu settar fram í yfirlýsingunni um afnám misréttis gagnvart konum og gera í því skyni nauðsynlegar ráðstafanir til að afnema slíkt misrétti í hvaða mynd sem er. Og þá spyr ég: Hvaða ráðstafanir er hæstv. ríkisstj. tilbúin til að gera til að framfylgja þessu grundvallaratriði samningsins því að ráðstafanir verður að gera í þjóðfélagi þar sem 80% kvenna eru úti á vinnumarkaðinum, það sér hver heilvita maður?

Þá kem ég að síðara málinu sem ég vildi minnast hér á og það eru dagvistarmál barna. Í 11. gr. samningsins, lið 2, segir m. a., með leyfi forseta:

„Til þess að koma í veg fyrir misrétti gagnvart konum vegna hjúskapar- eða móðurhlutverksins og til þess að framfylgja raunverulegum rétti þeirra til vinnu skulu aðildarríkin gera allar viðeigandi ráðstafanir.“

Síðan kemur c-liður:

„Til þess að stuðla að því að séð sé fyrir nauðsynlegri félagslegri þjónustu til þess að styrkja foreldra til þess að þeir geti sameinað skyldur sínar við fjölskylduna ábyrgð í starfi og þátttöku í opinberu lífi, sérstaklega með því að stuðla að stofnun og þróun sem flestra barnagæslustofnana.“

Nú er ástandið þannig hér á landi að á meðan flestar vinnufærar konur á barneignaraldri eru úti á vinnumarkaðinum og þurfa á barnagæslu að halda er aðeins rúm fyrir innan við 10% barna á aldrinum þriggja mánaða til fimm ára á dagvistarheimilum landsins í heilsdagsfóstrun. Í þessum efnum ríkir neyðarástand. Það er að sönnu tómt mál að tala um jafnrétti karla og kvenna úti á vinnumarkaðinum á meðan foreldrar eiga ekki kost á öruggri gæslu fyrir börn sín á daginn, ef þeir kjósa.

Á þessu þingi var borið fram frv. til l. um sérstakt átak í dagvistarmálum barna, en stjórnarflokkarnir treystu sér ekki til að styðja það og var því vísað til ríkisstj. og þar með saltað um aldur og ævi. Ég vil í þessu sambandi minna á að núv. hæstv. ríkisstj. hefur hingað til ekki gert annað en að minnka framlög á fjárlögum til þessara mála frá einu ári til annars og er því varla líkleg nú til að veita þeim málum sérstakan forgang — eða er fullgilding þessa samnings teikn um að sinnaskipti hafa orðið hjá ríkisstj. í þessum efnum? Ég spyr hæstv. félmrh. að því hvort svo sé, og ef svo er ekki, hvernig hann hafi þá hugsað sér að framfylgja lið 2 c. í 11. gr. samningsins?

Herra forseti. Ég hef af handahófi valið fáein þingmál sem fram hafa komið á Alþingi að undanförnu og sem miða að því að bæta stöðu kvenna hér á landi og tryggja að konur búi ekki við misrétti vegna þess að þær eru konur. Málin eru miklu fleiri. En öll eiga þau það sameiginlegt að þau hafa verið söltuð eða svæfð í nefndum þingsins. Samt bregður svo við að við erum hér að ræða þáltill. borna fram af hæstv. utanrrh. um afnám alls misréttis gagnvart konum.

Eins og ég sagði í upphafi máls míns fagna ég því innilega að þessi þáltill. er fram komin og ég lýsi einhuga stuðningi Kvennalistans við hana, en ég hlýt að spyrja hæstv. ráðh.: Hvernig hafa þeir hugsað sér að afnema í raun, eins og sagt er í samningnum, allt misrétti gagnvart konum hér á landi? Hvernig ætlar ríkisstj. að taka á þessu stóra verkefni, ekki aðeins í orði heldur einnig á borði? Orðin ein duga ekki, hvort sem þau er að finna í ræðum hér á hv. Alþingi eða í gagnmerkum alþjóðasamningum, jafnvel ekki heldur þótt þau sé að finna í gagnmerkum lögum eins og jafnréttislögunum. Þau lög hafa nú verið í gildi í nær tíu ár, en þrátt fyrir það viðgengst hér á landi hróplegt launamisrétti karla og kvenna og ekki hafa jafnréttislögin heldur knúið menn til að byggja barnaheimili, lengja fæðingarorlof eða endurmeta hefðbundin kvennastörf svo að eitthvað sé nefnt. Slík lög og fögur orð duga nefnilega engan veginn til til að afnema allt misrétti gagnvart konum. Til þess er félagslegur og fjárhagslegur aðstöðumunur karla og kvenna allt of mikill og hugmyndir um hefðbundin hlutverk og stöðu kynjanna allt of rótgrónar. Til þess að hér megi ríkja jafnrétti í raun á borði jafnt sem í orði verður að taka sérstaklega á þessum málum með lagasetningu og ráðstöfunum sem taka með beinum hætti á vandanum og sem tryggja ótvírætt bættar aðstæður kvenna hér á landi, ráðstöfunum sem tryggja í raun bæði félagslegt og fjárhagslegt sjálfstæði kvenna. Í þá átt ganga þau þingmál sem ég hef hér nefnt og þær leiðir sem ég hef nefnt að fara mætti í kjaramálum. Og því spyr ég hæstv. félmrh.: Er hann tilbúinn til að beita sér fyrir því að þessi þingmál, og fleiri sem fram hafa komið og miða í sömu átt, fáist afgreidd og samþykkt á þessu þingi og aðrar þær ráðstafanir verði gerðar sem horfa til úrbóta í þessum efnum, m. a. á vinnumarkaðinum? Á því veltur hvort þessi gagnmerki samningur um afnám alls misréttis gagnvart konum hér á landi verði eitthvað annað en orðin tóm.

Ég vil að lokum taka undir það með hæstv. utanrrh. að þessi samningur er góður grundvöllur undir frekari ráðstafanir og lagasetningu um afnám alls misréttis gagnvart konum og mun ég ekki láta mitt eftir liggja sem nefndarmaður í hv. utanrmn. að afgreiða þessa þáltill. bæði fljótt og vel aftur til þingsins. En stóra spurningin er: Hvaða ráðstafanir er hæstv. ríkisstj. tilbúin til að gera til að tryggja að þessi samningur verði eitthvað annað en fögur og innantóm orð?