18.04.1985
Sameinað þing: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4347 í B-deild Alþingistíðinda. (3667)

353. mál, afnám misréttis gagnvart konum

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að vera stuttorð, en hér hefur fjöldamargt fram komið sem ég þarf aðeins að tæpa á, með leyfi forseta. (Forseti: Forseti vill teygja þingsköp svo langt sem mögulegt er, en við verðum að fylgja þingsköpum. Það er ekki heimilt að gera núna nema stutta athugasemd. )

Þá vil ég fyrst minnast á það, sem hv. 2. þm. Reykv. gerði hér að umræðuefni, og það var mál sem við ræddum á síðasta fundi Sþ., að í grg. stæði að ekki þyrfti að breyta lögum eða gera aðrar ráðstafanir til að framfylgja samningnum. Ég benti á að ekki þyrfti að breyta lögum til að fullgilda samninginn, en það þyrfti að gera formlegar ráðstafanir og standa að lagasetningu til að framfylgja honum. Undir það tók hæstv. utanrrh. á síðasta fundi í Sþ.

Ég þakka hæstv. félmrh. svörin. Enn á ný lýsir hæstv. ráðh. góðum vilja, en lítið er sagt af eða á um hvað kann fram að koma.

Þar sem ég hef lítinn tíma vil ég benda hæstv. félmrh. á, ef hann hefur ekki heyrt mál mitt skýrt áðan, að það liggur fyrir þessu þingi frv. til laga um lengingu fæðingarorlofs. Það er búið að vera í nefnd síðan 17. desember s. l. og hefði ríkisstj. áhuga á að gera eitthvað í þessum málum hefði það verið í lófa lagið í þeirri nefnd, t. d. með brtt. við það frv.

Hæstv. félmrh. og reyndar líka 2. þm. Reykv., sem hér talaði áðan, settu allt sitt traust á frv. til l. um jafnan rétt og jafna stöðu karla og kvenna. Það er ein allsherjarlausn í þessu máli að því er virðist. Ég ætla ekki að ræða um það frv. sérstaklega hér, enda ekki tími til. En það var einmitt megininntak máls míns áðan að slík lög duga ekki ein og sér til þess að afnema í reynd allt misrétti gagnvart konum. Slík lög byggja ekki barnaheimili, þau lengja ekki fæðingarorlof og þau endurmeta ekki störf kvenna úti á vinnumarkaðnum.

Í þessu sambandi langar mig til að minnast á annað dæmi. Nú í vor, 19. júní, eru liðin 70 ár frá því að íslenskar konur fengu kjörgengi og kosningarrétt til jafns á við karla skv. lögum. Hvernig skyldi standa á því að við erum aðeins níu konur á hæstv. Alþingi? Það er ekki vegna þess að skort hafi lagaákvæði, heldur vegna þess að félagslegur og fjárhagslegur aðstöðumunur karla og kvenna er allt of mikil. Á því verður að taka með lagasetningu sem er annars konar en jafnréttislög.