18.04.1985
Sameinað þing: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4353 í B-deild Alþingistíðinda. (3672)

336. mál, frelsi í útflutningsverslun

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Á fundi í Sþ. í gær ræddum við hv. þm. örlítið um innflutningsmál. Í dag ræða menn um útflutning. Á þskj. 534 er flutt till. til þál. um frelsi í útflutningsverslun og hefur 1. flm., hv. 3. þm. Reykn., talað fyrir þeirri till. hér.

Af því tilefni vildi ég gjarnan gera grein fyrir mínum sjónarmiðum í þessum efnum, rifja upp hvernig staðið er að þessum málum nú og hefur verið. Þær reglur, sem farið er eftir við framkvæmd útflutnings, byggjast á 13. gr. laga nr. 63/1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ráðuneytinu er heimilt að ákveða að ekki megi bjóða, selja eða flytja vörur til útlanda nema að fengnu leyfi. Útflutningsleyfi getur rn. bundið skilyrðum sem nauðsynleg þykja. Útflytjendur eru skyldir að veita rn. þær upplýsingar sem það óskar um allt er varðar söluútflutning og útflutning vara sem seljast eiga til útlanda.“

Í III. kafla reglugerðarinnar nr. 519/1979 er nánar kveðið á um framkvæmdina, svo sem um útflutningsleyfin, skilyrði fyrir veitingu leyfa, upplýsingaskyldu, útflutningsskjöl o. fl. Eins og fram kemur er aðeins um heimild að ræða til ráðh. hverju sinni að ákveða hvort sækja þurfi um útflutningsleyfi fyrir útflutningi á hinum ýmsu vörum eða ekki. Hann getur þannig með reglugerðarútgáfu ákveðið hvort einstakir vöruflokkar skuli falla undir ákvæðið um útflutningsleyfi. Það er eins farið með þennan þátt mála og þann sem við ræddum um í gær, að stjórnvaldsákvarðanir eru skv. reglugerð sem sett var 14. des. 1979 af þáv. viðskrh., Kjartani Jóhannssyni, hv. 3. þm. Reykn., 1. flm. þessarar till. Í henni var gert ráð fyrir þeirri meginreglu að útflutningur á vöru væri háður leyfi viðskrn. Þar var þó tekið fram að rn. gæti veitt undanþágu frá þeirri reglu. Þann 1. jan. 1984 var útflutningur á langflestum iðnaðarvörum gerður undanþeginn þessari aðalreglu. Það er því nú svo, að útflutningur á sjávarafurðum og landbúnaðarafurðum er háður eftirliti viðskrn., enda þótt um sjávarútveg sé því sumpart farið þannig að þar sé aðeins um formsatriði að ræða.

Útflutningur á sjávarafurðum frá Íslandi er að því leyti til sérstæður að framleiðendur þessarar vöru skipta hundruðum og eru dreifðir út um allt land stórir og smáir. Auðvitað er enginn þeirra stór á mælikvarða alþjóðaviðskipta og framleiðendur sjálfir hafa valið þann kost að mynda sölusamtök um sölu sinna afurða. Svo mikið hefur verið rætt og ritað um sölusamtök í sjávarútvegi hér á landi á undanförnum árum og áratugum og jafnvel síðustu mánuðum að engin ástæða er til þess að bæta þar við neinu nýju, svo að hér verður nánast eingöngu um að ræða samantekt á því sem þar hefur verið sagt.

Aðalástæðan fyrir því að fiskframleiðendur á Íslandi hafa kosið þennan hátt á sölu er að að þeirra mati fylgir því mikill styrkur að standa saman að sölu á erlendum mörkuðum. Þeir koma þá fram sameiginlega sem stór og sterk fyrirtæki með staðlaðar vörur sem hafa unnið sér það gott orð að þegar minnst er á Ísland vita allir að þar er um að ræða góðan fisk sem allir geta treyst. Framleiðendur í þessum sölusamtökum hafa komið sér upp umfangsmiklu gæðaeftirliti sem reynst hefur einstaklega farsælt og hefur nú nýlega að ákvörðun Alþingis leyst að mestu af hólmi ríkiseftirlit með sjávarafurðum. Framleiðendur ná með samtökum sínum mikilli hagræðingu í gæðaeftirliti í útflutningi og við sameiginleg innkaup á ýmiss konar rekstrarvörum og þjónustu. Með þessu sparast framleiðendum og þá um leið þjóðarbúinu mikið fé. Það hefur sýnt sig að íslenskur fiskur hefur á sér gott orð og sölukerfi íslenskra sjávarafurða er sterkt, svo sterkt að árum saman ef ekki áratugum saman hefur íslenskur fiskur verið seldur á hærra verði en fiskur frá keppinautum á öllum mörkuðum.

Þegar verið er að ræða um kosti og galla sölusamtakanna, frelsi eða ófrelsi í útflutningsverslun er rétt að hafa þetta í huga: Hvað er það sem á að vera keppikefli útflytjendum almennt frá einu landi? Það hlýtur að vera að hafa gott orð á mörkuðum, þykja tryggur seljandi með stöðugt framboð af góðri vöru og ná þannig ávallt hæsta verði á hverjum tíma. Það er því tæplega hér verið að tala um að litlir hagsmunir séu í húfi. Væri staðan sú að hægt væri að benda á að sölusamtök í sjávarútvegi, sem allt þetta tal snýst um, stæðu sig illa í markaðsmálum horfði málið öðruvísi við.

Einstaka aðilar þykjast geta tekið svo stórt upp í sig að segja að sölusamtökin séu stöðnuð og sinni ekki svokallaðri markaðsleif sem skyldi. Vel má vera að þar megi koma að mörgum góðum og nýjum breytingum. Því skal ekki móti mælt. En við Íslendingar höfðu leyft okkur þann munað að selja okkar útflutningsvörur íyrst og fremst á þeim mörkuðum sem best verð borga hverju sinni án tillits til þess hvort þar sé endilega um mikið markaðsöryggi að ræða til lengri tíma. Fyrir vikið höfum við legið afskaplega flatir fyrir ef eitthvað bjátar á í hinum ýmsu markaðslöndum. Þarna er að sjálfsögðu við útflutningssamtökin að sakast ef menn vilja líta svo á. Þeim hefði að sjálfsögðu verið í lófa lagið að reyna að selja til miklu fleiri landa og færa út starfsemi sína. Talið er að það hefði skilað minni tekjum á hverjum tíma.

Menn ganga einnig út frá því að við hefðum meira magn að selja en reyndin hefur verið. Þessu mega menn ekki gleyma þegar þeir eru að deila á hin svokölluðu sölusamtök fyrir að selja ekki útflutningsvörur okkar til fleiri landa. Það er einfaldlega heiðarleg ákvörðunartaka um að það sé skynsamlegra og gefi meira í þjóðarbúið að haga sölumálum með þessum hætti.

En hvaða fleiri kostir kynnu að fylgja því að standa sameiginlega að sölu á fiskafurðum okkar? Þeir eru að sjálfsögðu margir og ef til vill ekki þýðingarminnstur sá, að með því að framboð á hverjum markaði er aðallega frá einum eða tveimur aðilum hafa kaupendur að vörunni tryggingu fyrir því að aðilar séu ekki að bjóða íslenskan fisk, e. t. v. lakari að gæðum eða á lægra verði, til sömu kaupenda á sama tíma og spilla þannig fyrir sölu samtakanna á íslenskri gæðavöru sem þau hafa keypt hæsta verði. Með þessu móti eru kaupendur tilbúnir að greiða hærra verð fyrir vöruna en ella og geta einbeitt sér að sölu hennar án þess að verða fyrir utanaðkomandi truflunum af sams konar vörum frá öðrum seljendum. Þessi kostur er allþekktur úr öllum viðskiptum og er m. a. grundvöllur að því að framleiðendur iðnaðarvara í heiminum vilja velja að hafa aðeins einn umboðsmann eða söluaðila fyrir ákveðnar vörur á hverjum markaði. Er óþarfi að fjölyrða um það hér. Þau dæmi þekkja allir úr íslenskri innflutningsverslun.

En hvað er það þá sem menn finna til foráttu því fyrirkomulagi sem jafnframt verður til þess, sem talað er um, að auka frelsi í útflutningsverslun? Ef við lítum á sölusamtökin er enginn fiskframleiðandi skyldur til að vera í útflutningssamtökum. Þau eru öll opin, bæði að ganga í þau og segja sig úr þeim. Hins vegar hefur brugðið svo við síðustu árin að samstaða meðal framleiðenda hefur verið mjög mikil. Útflutningur á flestum sviðum, að undanskilinni skreið, hefur gengið vel og framleiðendur því ekki séð ástæðu til annars en að standa vörð um það fyrirkomulag sem þeir hafa kosið sér. Þrátt fyrir það hafa ýmsir séð ástæðu til þess að reyna að gagnrýna þetta samstarf, stundum að ósekju, gagnrýna samstarf framleiðenda í nafni frelsis. Að sjálfsögðu geta þeir haft ýmsar ástæður til þess að gera svo. Sumir þeirra játa hreinskilnislega að þeir vilja fá að taka þátt í þessum útflutningi og hafa þau viðskipti eins og önnur. Aðrir leggja áherslu á að hér sé um að ræða hugsjón sem þeir vilja hrinda í framkvæmd. Hvort tveggja er þetta gott. Það er hins vegar vafasamt að tala um að verið sé að auka frelsi í útflutningsverslun með því að ríkisvaldið breyti starfsemi sem það hefur skapað útflutningssamtökunum, framleiðendunum sjálfum. Frelsið á að sjálfsögðu að felast í því að hver sem er gæti boðið vöru til sölu á hvaða markaði sem er við hliðina á samtökum framleiðenda sjálfra og verður þá að sjálfsögðu að taka tillit til sérstöðu einstakra markaða.

Það er ekki aðeins mikilvægt að vinna markaði. Við getum ekki aðeins lagt áherslu á að vinna markaði. Við verðum að leggja áherslu á að vernda markaði sem við höfum náð. Það hefur verið unnið stórvirki á sviði markaðsmála að undanförnu. Óhemju fé hefur verið varið til þess að kynna íslenskan fisk á þann hátt að nú er engum blöðum um það að fletta að íslenskur fiskur hefur á sér hvað best orð af öllum fiskafurðum í veröldinni. Orðið „íslenskt“ er því í reynd orðið gæðastimpill. Það er því mjög áríðandi að þeim árangri verði ekki gloprað niður. Framleiðendur gera sér best grein fyrir því á hverju framtíð þeirra byggir. Þeir hugsa því ekki aðeins um líðandi stund í öllum tilfellum, heldur einnig um viðskiptin til lengri tíma og af því leiðir að oft verður að fórna minni hagsmunum fyrir meiri. Það þýðir e. t. v. tímabundið verð — sem ekki gefur ávinning af sölu einhverrar afurðar til þess að halda mörkuðum sem eiga í stundarerfiðleikum. Þeir markaðir hafa síðan komið aftur innan fárra missera og orðið mjög mikilvægir á ný og eru sumir hverjir með mikilvægustu mörkuðum okkar í dag. Samtök framleiðenda hafa haft bolmagn til og hagsmuni af að sinna þessu mikilvæga atriði og munu sjálfsagt verða þeir sem geta gert það best.

Hér að framan hafa verið færð rök fyrir því að það fyrirkomulag, sem framleiðendurnir sjálfir hafa valið sér, hefur skilað mestum mögulegum árangri fyrir íslenskt þjóðarbú. Ævinlega hafa verið uppi hugmyndir um að kominn væri tími til þess að skipta um stefnu og hafa ekkert eftirlit með útflutningi. Ég vek athygli á því að útflutningur sjávarafurða er um 70% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar, til samanburðar í Noregi 4–5%. Við verðum að gera þá kröfu að svör fáist í smæstu atriðum um hvað með auknu útflutningsfrelsi vinnst og þau svör verða að fást. Þýðir það hærra verð á mörkuðunum? Uppgötvast áður ónýttir markaðir sem eru tilbúnir að borga hærra verð? Verður áliti íslenskra afurða stefnt í hættu? Hvernig verður skipulagið best innanlands? Mun útflutningurinn verða t. d. í höndum sölusamtaka við hlið margra smárra? Hvernig verður skipulaginu best fyrir komið erlendis? Þessum spurningum og mörgum öðrum fleiri verður að svara.

Þegar við ræðum þessi mál hér er ekki úr vegi að benda á að keppinautar okkar á helstu erlendu mörkuðunum hyggjast ná fram breyttu skipulagi mála sinna til þess horfs sem hér hefur verið. Hvers vegna? Til þess að ná betri árangri. Þær starfsaðferðir, þær stjórnunaraðferðir, sem hér gilda hafa ekki komið í veg fyrir aukið frelsi í útflutningi. Og eins og fram kom hér áðan hef ég beitt mér fyrir því að útflutningur iðnaðarvara er orðinn frjáls. En við hljótum að gera lágmarkskröfur ævinlega um gæði og verð og að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður á mörkuðum, þangað sem vörurnar skal flytja, sem valda því að skynsamlegra sé að haga fyrirkomulaginu eins og það hefur verið. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að heimila útflutning þeim sem uppfylla lágmarkskröfur um verð og gæði. Ég er líka þeirrar skoðunar, eins og ég gat um áðan, að við þurfum að afla okkur markaða, að við þurfum að verja þá markaði og haga okkar útflutningi með tilliti til þess.