18.04.1985
Sameinað þing: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4356 í B-deild Alþingistíðinda. (3673)

336. mál, frelsi í útflutningsverslun

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég hafði fregnir af því á landsfundi Sjálfstfl. um síðustu helgi að þar hefði verið flutt till. um að landsfundurinn ályktaði á þá leið að flokkurinn beitti sér fyrir því að frjálsræði yrði aukið í útflutningi. Ég hafði sömuleiðis fréttir af því að þessi till. hefði verið felld eftir að hæstv. viðskrh. hefði flutt ræðu gegn henni. Ég hélt fyrst að þarna væri um einhvern misskilning að ræða, datt satt að segja ekki í hug að minn ágæti og gamli vinur, hæstv. ráðh. Matthías Mathiesen, hefði farið að taka upp á því að beita sér gegn frjálsræðinu á sjálfum landsfundi Sjálfstfl. En ég heyri núna af þeirri ræðu, sem hæstv. ráðh. flytur, að þetta er því miður sannleikanum samkvæmt og kannske hefur hann verið að endurflytja hér ræðuna sem hann flutti á landsfundinum. Að vísu tel ég það ólíklegt því að hann átti í erfiðleikum með að lesa handritið svo að hann hefur greinilega ekki verið búinn að kynna sér ræðuna sem skyldi áður en hann flutti hana hér úr ræðustólnum, enda er satt að segja líkast því að þessi ræða hafi verið samin fyrir hæstv. ráðherra úti í Sölumiðstöð eða hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga því að annan eins málflutning til varnar samtryggingunni á þessum vettvangi, einokuninni og kerfinu hef ég ekki heyrt og alls ekki heyrt það úr munni sjálfstæðismanns.

Ég kvaddi mér hér hljóðs eftir að hafa hlýtt áframsögu hv. þm. Kjartans Jóhannssonar vegna þess að mér þótti það góð ræða. Mér þykir þetta góð till. sem hér er flutt. Mér þykir það satt að segja ansi hart að hér virðast mál hafa heldur betur snúist á hinn verri veg þegar kratar eru farnir að flytja tillögur um aukið frjálsræði en sjálfstæðismenn standa upp til að andæfa gegn slíkum till. Öðruvísi mér áður brá.

Mér fannst ræða 1. flm. góð vegna þess að inntak þeirrar ræðu var að undirstrika gildi frjálsræðisins í verslun og viðskiptum. Sannleikurinn er sá að forsendan fyrir því að við náum árangri í viðskipfum, — í útflutningi — er að frelsið fái notið sín. Það er inntak skoðana þeirra sem hafa fylgt Sjálfstfl. að málum og það hefur verið grundvöllurinn að framförum hér á Íslandi allt frá því að heimastjórn kom til sögunnar og síðan eftir að lýðveldið var stofnað, frelsi þjóðarinnar og frelsi einstaklinganna til þess að fá að athafna sig, taka áhættu og axla ábyrgð. Það hlýtur að gilda á þessum vettvangi eins og alls staðar annars staðar vegna þess að það er einfaldlega lögmál að frelsið fái að njóta sín. Það var inntak ræðu hv. þm. Kjartans Jóhannssonar og ég fagna þeim málflutningi.

Við höfum að undanförnu heyrt mjög athyglisverðar umr. í þjóðfélaginu um nýsköpun í atvinnulífinu. Menn vilja söðla um, breyta um stefnu í atvinnumálum og það hafa átt sér stað mjög miklar breytingar á viðhorfum manna í atvinnulífinu beggja megin borðsins, bæði hjá launþegum og hjá atvinnurekendum. Þessi viðhorf hafa líka að einhverju leyti einnig, en því miður of takmörkuðu, náð inn í flokkana sjálfa. Þarna er um að ræða nýsköpun sem felur það í sér að menn vilja hætta að leggja áherslu á óarðbæra atvinnu, vilja fara að flytja þekkinguna til útlanda, vilja að atvinnustarfsemin skili arði og vilja leyfa einstaklingum, félögum og fyrirtækjum að spreyta sig í vaxandi mæli.

Ríkisstj. hefur átt sinn þátt í því að þessi umr. hefur farið af stað, hún hefur fyrir sitt leyti tekið undir hana og það er gott eitt um það að segja. Nýsköpun í atvinnulífinu er forsenda fyrir því að Íslendingar geti náð framförum á allra næstu árum. Sú nýsköpun verður að byggjast á frjálsræði. Það er alger nauðsyn og það hljóta sjálfstæðismenn að taka undir.

En þessi nýsköpun þarf þá að ná til útflutningsmála líka. Menn geta ekki verið að tala um nýsköpun, um framleiðslufyrirtæki og um nýja möguleika í atvinnumálum til þess að framleiða eitthvað, ef ekki má jafnframt taka áhættu og spreyta sig með nýjum hætti í útflutningsmálunum sjálfum — eða hvað ætla menn að gera við framleiðsluna ef allt situr við hið sama í útflutningsmálum? Við erum að tala um í fullri alvöru að stokka hér upp „kerfið“, grípa til nýrra og róttækra aðgerða til að skapa grundvöll fyrir auknum þjóðartekjum. Einn anginn af þessari uppstokkun hlýtur líka að vera sá að taka fyrir og stokka upp staðnað kerfi í útflutningsmálum. Það er sorglegt til þess að vita að menn standi hér upp einmitt á miðjum þessum vakningartíma og flytji varnarræður í þágu einokunar og staðnaðra sölusamtaka.

Hæstv. ráðh. bendir réttilega á að það sé tiltölulega mikið frjálsræði í útflutningi á almennum iðnaðarvörum, en nefnir í sömu andránni að það sé háð leyfisveitingum að flytja út landbúnaðarvörur og sjávarafurðir. Er það ekki öllum ljóst að útflutningur á landbúnaðarvörum og sjávarafurðum hefur verið umtalsverðasti útflutningurinn fram að þessu og verður vonandi áfram, a. m. k. að því er varðar sjávarafurðir?

En hvernig er ástandið t. d. í útflutningnum á kindakjötinu þar sem Samband ísl. samvinnufélaga situr nánast eitt að þeim útflutningi og það fyrirkomulag ríkir í þeim efnum að útflutningsaðilinn, Sambandið, fær söluþóknun af brúttóverði vörunnar sem út er flutt? Hvaða vit er í slíku fyrirkomulagi í þeim útflutningsmálum? Hvaða hvati er að því fyrir Sambandið sem útflutningsaðila að reyna að auka söluna og fá hærra verð þegar það hirðir allt sitt á þurru út frá framleiðsluverði án tillits til söluverðsins í útlöndum? Maður heyrir jafnvel sögur um það, réttar eða rangar, að SÍS hafi gripið til undirboða erlendis þegar aðrir aðilar hafa gert tilraun til að komast inn á markaði og selja landbúnaðarvörur við hærra verði en Sambandið hefur átt kost á á þeim mörkuðum.

Ég minnist þess að fyrir nokkrum mánuðum kom til mín einstaklingur sem hafði staðið að því að framleiða nýja vél sem átti að stuðla að því að hægt væri að framleiða nýjar vörur úr sjávarfangi, athyglisverð vél sem ég veit ekki hvort gengur eða ekki. En þegar hann fór á stúfana með þessa uppfinningu og vildi kynna mönnum þessa nýjung sögðu menn: Þetta er mjög athyglisverð vél, þetta er greinilega öndvegisuppfinning. En hvað á að gera við framleiðsluna, vöruna? Það er enginn markaður til fyrir þessa vöru. Vitaskuld er enginn markaður til fyrir þessa vöru vegna þess að hún hefur ekki verið framleidd, hún hefur ekki verið til. En þetta eru dæmigerð viðbrögð hjá sölusamtökum sem eru svo stöðnuð að þau nenna ekki og hafa ekki dug í sér, en taka því með tortryggni þegar menn koma með nýja möguleika og bjóða upp á nýja kosti og segja: Ja, það er ekki til markaður, þess vegna er ekki hægt að fara að framleiða þessa vöru — án þess að varan hafi nokkurn tíma verið til og án þess að á það hafi reynt hvort hægt sé að búa til markaði.

Sannleikurinn er nefnilega sá að þessi sölusamtök okkar í sjávarútflutningsmálum eru meira og minna stöðnuð og við skulum bara viðurkenna það. Þessir menn eru búnir að hreiðra um sig með sínum hætti og hafa gert góða hluti í gegnum árin — ég er þá sérstaklega að tala um ferskfisksöluna — og þeir vilja bara hafa þetta í gamla farinu. Þeim líður vel í því kerfi sem þeir stýra sjálfir, þeir hafa trygga stöðu og þurfa ekki að hafa áhyggjur af keppinautum, a. m. k. ekki hér heima. Á þessum vettvangi, eins og alls staðar annars staðar þar sem menn sitja nánast einir að kökunni, slaknar á og þá kemur tregða og stöðnun í vinnubrögð og áhuga og allan atbeina.

Ég er ekkert að draga í efa að sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Samband ísl. samvinnufélaga, Samband ísl. fiskframleiðenda og öll þau samtök hafi unnið þjóðinni gott starf á undanförnum árum. Ég skil ekki þessa till. svo að það sé verið að banna þessi samtök, það sé verið að koma í veg fyrir að þau fái að starfa áfram. Það er einfaldlega verið að tala um að aðrir fái tækifæri til að selja líka. Það er kjarni málsins, að gefa öðrum frelsi til að selja líka. Við skulum flytja margar lofræður og taka undir það hvað SH og SÍS hafi staðið sig vel þó að ég hafi þá skoðun að á því sé nokkur stöðnun. Það hefur í gegnum árin verið unnið þar þjóðþrifaverk og sjálfsagt að bera lof á það eins og hæstv. ráðh. gerði hér áðan. En það er algert aukaatriði þegar við erum að tala um það núna að auka frjálsræði og stíga ný skref og skella okkur út í nýsköpun á þessum vettvangi.

Íslensk verslunarstétt hefur líka unnið þessari þjóð vel. Hún skapaði grundvöllinn að frjálsri og sjálfstæðri innanríkisverslun hér eftir lýðsveldistökuna fyrst og fremst og reisti stoðir undir raunverulegt sjálfstæði íslensku þjóðarinnar. Hún hefur sannað getu sína og ég held að íslenskri verslunarstétt sé vel treystandi til að ráðast nú til atlögu í útflutningi og bjóða íslenskar vörur erlendum aðilum með sama árangri og með sömu burðum og hún hefur staðið að í innflutningsversluninni. Í þessum efnum hlýtur það að gilda að menn þurfa áræði, menn þurfa að taka áhættu, menn þurfa að fá ábyrgð. Þeir þurfa jafnframt að sýna frumkvæði. En allt þetta er verðmætasköpun og allt þetta er forsenda fyrir því að ný viðhorf og ný staða komi upp í útflutningsmálunum. Þetta er eitt mikilvægasta málið sem nú blasir við í stjórnmálunum, þ. e. einmitt að auka frjálsræðið á þeim vettvangi. Það er enginn að segja að það eigi að vera algjörlega galopið. Það er enginn að segja að rn. eigi með öllu að láta þetta afskiptalaust. Það má auðvitað hafa eftirlit. Það er enginn sem segir að það megi ekki hafa eftirlit og það er sjálfsagt að gæta þess að þar sé ekki um að ræða mjög alvarleg undirboð. En að ástandið sé þannig að varðandi fjölmargt, sem menn eru með á prjónunum í útflutningsmálum, í sjávarútvegi sérstaklega, þurfi sífellt að leita til rn. að fá leyfi eftir einhverju skömmtunarkerfi þar, það er alger tímaskekkja.