18.04.1985
Sameinað þing: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4362 í B-deild Alþingistíðinda. (3675)

336. mál, frelsi í útflutningsverslun

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Þær umr., sem hér hafa farið fram um þessa till. til þál. um frelsi í útflutningsverslun, finnst mér að hafi einkennst af ótrúlega mikilli tvöfeldni, bæði frá hendi 1. flm. till. og svo þeirra sjálfstæðismanna sem hér hafa verið að spjalla um efni hennar.

Í fyrsta lagi má í sambandi við málflutning 1. flm. benda á að það er ekki langt síðan sami hv. þm. flutti í þessum ræðustól innfjálga ræðu í sambandi við veiðileyfastjórnun eða eins og hann orðaði það í sambandi við útflutninginn: um aukið skrifræði og þar af leiðandi ekki nema hálfa sjón í sambandi við þann málaflokk eins og hann lýsti því hvernig viðskrh. mundi fara og stæði í sambandi við útflutningsstjórnina. Svipað mundi vitaskuld fara með þann sem ætti að stjórna á hinum vettvanginum sem er mikið viðameiri og áhrifaríkari en sá þáttur sem hér er verið að ræða um.

Á hinn mátann er sú skoðun sem fram kom hjá þeim hv. 6. þm. Reykv. Hann lýsti þeirri skoðun sem hefði komið fram á landsfundi Sjálfstfl. og sem hefði notið þar mikils fylgis, og hann flutti hér að vissu leyti framsöguræðu fyrir henni þó að hann hafi ekki mátt eða getað setið landsfundinn, eftir því sem mér skildist. Skoðun sem þar kemur fram og sú skoðun hæstv. viðskrh. og hv. 3. þm. Vesturl. að mæla með því kerfi sem hv. þm. Svavar Gestsson kom á fyrir 5 eða 6 árum stangast á. Það virðist sem sagt fullkominn skoðanaágreiningur í Sjálfstfl. um afstöðu til þessara mála og svo alger tvöfeldni hjá Alþfl. að vera á móti stjórn á þessum þættinum en með stjórn á hinum þættinum.

Ekki batnar það þegar farið er að spjalla um málefnið. Þá er því haldið fram fullum fetum að það sé um algera einokun að ræða á þessum vettvangi. Það séu fyrst og fremst Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Samband ísl. samvinnufélaga sem sjá um að selja frysta fiskinn okkar og þar sé varla um neina aðra að ræða. Síðan bæta þeir við í lokin: Við erum ekki að mæla með því að það verði sett á algert frelsi. Nei, við erum á því að það verði að líta eftir þessu, það verði að fylgjast með þessu. — Þar með lýsa þeir yfir að þeir séu tilbúnir að búa við óbreytt ástand. Í dag búum við ekki við neina einokun Sambandsins og Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna á útflutningi á frystum fiski, hvorki til Bandaríkjanna né á Evrópumarkað. Við getum e. t. v. þakkað fyrir að hæstv. viðskrh. hefur það vald að geta sett stimpil á leyfi. En ég veit ekki til þess að hann hafi neitað um leyfi þegar í boði hafa verið viðskipti sem hafa verið okkur hagstæð. Ég veit ekki annað en að hér séu a. m. k. tvö fyrirtæki auk SÍS og SH sem flytji hraðfrystan fisk umfram hörpudisk á Bandaríkjamarkað, og jafnvel þó að við notuðum alla fingur til þess efast ég um að þeir nægðu til að telja upp þau fyrirtæki sem flytja frystan fisk og sjávarafurðir á Evrópumarkað. Það ástand, sem hér hefur verið útmálað, er því ekki til staðar sem betur fer. Það er nokkurt frelsi í útflutningsversluninni og ég efast ekki um að það frelsi, sem nú er til staðar, hefur orðið íslenskum sjávarútvegi til hagsbóta. En það er ekki þar með sagt, og ég tek undir lokaorð bæði flm. og hv. 6. þm. Reykv., að rétt sé að gefa ekki algerlega frjálst. Okkur ber að hafa svipaða stjórnun á þessum málum og við höfum haft fram á þennan tíma. Það ástand, sem við búum við núna, er ekki einokun. Þeir sem geta unnið markaði fyrir íslenska vöru hafa fengið að selja sína vöru. (EBS: Ert þú alveg viss um þetta?) Já, ég er nokkurn veginn viss um þetta. (Gripið fram í.) Ég skal bæta því við, af því að hv. 6. þm. Reykv. spyr, að ég veit að það eru til ýmis kerfi í þjóðfélaginu, en ég efast um, og ég vil nærri því fullyrða það, að kerfið í rn. sé það kerfi sem við þurfum fyrst og fremst að losna við svo að okkur gangi betur að selja okkar vöru á erlendum markaði. Það kerfi sem við þurfum fyrst og fremst að losna við er bankakerfið okkar, stjórn þess. Mér er kunnugt um að á síðasta ári voru íslensk frystihús að framleiða nýjar tegundir á Bandaríkjamarkað og líka á Evrópumarkað. Þau urðu að hætta við þessa framleiðslu vegna þess að bankarnir voru ekki tilbúnir að lána út á vöruna. Þeir höfðu ekki trú á þessari þróun, þessari nýsköpun.

Það er verið að tala um markaðsþróun og höfð um það stór orð. Ég skal ekki gera lítið úr því að önnur fyrirtæki komi að því en þau fyrirtæki sem hér hafa verið nefnd einokunarfyrirtæki. En gæti það nú ekki verið nauðsynlegt, til þess að byggja upp og standa að markaðsþróun, að hafa til þess nokkuð öflug fyrirtæki? Er líklegt að smáfyrirtæki, sem tekur að sér að selja kannske eina sérstaka vörutegund, hafi mikinn möguleika til þess að afla markaða eða búa til nýja vörutegund til að koma inn á einhvern ákveðinn markað? Ég held að það séu frekar litlar líkur fyrir því og okkur sé nauðsynlegt að hafa fyrirtæki eins og við höfum verið að tala um sem hafi forustu um að koma nýjum tegundum á markað. Þau hafa afl til þess. Litlu fyrirtækin hafa takmarkað afl til þess.

Ein og ein vörutegund hefur búið við frelsi, hefur ekki verið háð mjög takmörkuðum leyfum. Allt að því hver sem hefur viljað hefur getað fengið leyfi til þess að flytja hana út. Það eru t. d. þorskhrogn, söltuð og fryst.

Við skyldum nú halda að þessi vara væri sérstaklega búin að hasla sér völl á hinum frjálsa markaði, hvort sem það er í Bandaríkjunum eða annars staðar, og það hefði tekist að vinna upp verð á þessari vöru umfram aðrar tegundir sem við höfum verið með á boðstólum. Nei, það er ekki svo. Þessu er þveröfugt farið. Þessi vara hefur verið að lækka í verði ár frá ári og er þó að mati margra ein af betri vörunum sem við höfum til að bjóða á markaðnum.

Við þekkjum ágætlega aðra vörutegund sem hefur ekki verið bundin sérstakri þvingun á leyfum, ef það hefði verið hægt að selja hana, né heldur lokuð inni í neinum einkasölusamtökum. sú vara heitir skreið. Hvernig hefur gengið með hana? Það þarf ekki að svara þeirri spurningu. Fyrir nokkrum árum voru 20–30 heildsalar á Íslandi sem seldu skreið. Þeir höfðu tækifæri til að finna þá markaði sem eru úti um allan heim fyrir íslenska framleiðsluvöru. Við heyrðum nefnt Egyptaland og Arabíu. En ég sé ekki að þessir frjálshyggjumenn hafi komið neinni vöru þangað á markað. Við sitjum enn þá að gömlu mörkuðunum. Fullyrt er af þeim sem hafa verið að reyna að selja vöruna á þeim eina markaði sem við höfum von til að losna við hana á að það hafi verið ógæfa okkar að þar voru þrír aðilar, eins og núna er, að slást um þennan markað. Það hefði verið gæfa okkar og við værum jafnvel búnir að losna við vöruna ef þar hefði einn einokunaraðili, jafnvel undir stjórn hæstv. ráðh., séð um hituna.

Það má ýmislegt spjalla um þessi mál. Hæstv. ráðh. nefndi það, og reyndar kom það fram í ræðu 3. þm. Vesturl., að það væri framleiðendum í sjálfsvald sett gagnvart stóru fyrirtækjunum, eins og SÍF og SÚN, SÍS og SH, hvort þeir vildu vera í þessum fyrirtækjum eða ekki. Þarna held ég að hafi verið fullyrt heldur mikið. Ég ætla að upplýsa að þeir sem framleiða saltfisk og þeir sem framleiða síld hafa enga leið aðra en að selja í gegnum þessi ákveðnu einokunarfyrirtæki. Þannig er það. Og tilfellið er að einmitt þessar vörur, sem eru alveg lokaðar inni í einokunarfyrirtækjunum, eru þær vörur sem hefur gengið hvað best að selja og við höfum öruggasta markaði fyrir. Ég er þó á því að gagnvart saltfiskinum sé heldur mikið aðhald. Það eigi að gefa svolítið svigrúm fyrir minni aðila að koma nálægt saltfisksölunni, það eigi þar að fara að á svipaðan máta og varðandi hraðfrysta fiskinn að gefa vissum aðilum tækifæri til að leita að öðrum mörkuðum og öðrum viðskiptavinum en þetta stóra fyrirtæki hefur gert þó að því hafi á undanförnum árum tekist mjög vel.

Þó má alltaf búast við því að aðrir geti gert betur. Ég vil sem sagt taka undir það, sem flm. og hv. 6. þm. Reykv. sögðu hér, að það á að halda áfram að selja íslenskar sjávarafurðir á svipuðum grunni og hefur verið hingað til. Við eigum að hafa visst aðhald og visst eftirlit. Þar af leiðandi er sú till., sem hér er til umræðu, algerlega óþörf.