18.04.1985
Sameinað þing: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4364 í B-deild Alþingistíðinda. (3676)

336. mál, frelsi í útflutningsverslun

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Við tölum hér um till. til þál. um frelsi í útflutningsverslun, flutta af þm. Alþfl. Ég lýsi því yfir að Bandalag jafnaðarmanna styður þessa till. Við höfum ályktað í þessa veru, bæði í sumar sem leið, þingflokkurinn, og landsfundur Bandalags jafnaðarmanna í febrúar s. l.

Nú er vor í lofti og menn taka þeirri umræðu sem hér fer fram e. t. v. létt, líta frekar á hana sem þægilega íþróttamennsku og nauðsynlegar leikfimisæfingar til þess að vinna fyrir kaupinu sínu. Ég vil þó benda mönnum á að hlusta grannt eftir. Hér hafa talað fulltrúar Sjálfstfl. og Alþb. — Að vísu vantar enn þá innlegg frá fulltrúa Framsfl., en ég tel að það innlegg sé ónauðsynlegt því að viðhorf hans eru þegar komin fram. (SvG: Þau eru nú oftast ónauðsynleg.) Ég er að vísu sammála hv. 3. þm. Reykv. í því, en hvað sem því líður eru viðhorf Framsfl. komin mjög skilmerkilega fram í málflutningi sjálfstæðismanna og Alþb.-manna.

Ég get ekki tekið undir undrun hv. 6. þm. Reykv. á málflutningi ráðh. hér né þá heldur svipaða undrun hans á málflutningi hv. 3. þm. Vesturl, því að ég tel að landsfundur Sjálfstfl. um síðustu helgi hafi leitt í ljós enn sem endranær að Sjálfstfl. er stærsti Framsfl. þessa lands. Ég vitna þar í ummæli eins landsfundarfulltrúans sem taldi að stjórnmálaályktun landsfundarins væri þess eðlis og þeirra eiginleika að hvaða allaballi, eins og hann orðaði það, gæti skrifað undir hana. Og ef allaballar geta skrifað undir stjórnmálaályktun Sjálfstfl. eiga framsóknarmenn ekki í erfiðleikum með það. (Gripið fram í: Hvað eru allaballar?) Hafi það farið fram hjá hv. þm. hvað það þýðir get ég upplýst hann um að það er stuttnefni fyrir þá menn sem eru í Alþb.

Ég ætla ekki að halda því fram að það hafi verið mesta hamingja íslenskra barna þegar þau gátu farið að kaupa epli af ýmsum tegundum og gerðum fyrir rúmum 20 árum, en ég held ég geti samt sem áður haldið því fram að frjáls innflutningsverslun á Íslandi hafi ekki skaðað íslenska þjóð. Ég býst við að enginn hristi hausinn þó ég fullyrði að það hafi alls ekki skaðað íslenska innflytjendur heldur. En ég er að leiða rök að því að ein veigamesta gerð viðreisnarstjórnarinnar og sú sem lengst lifir e. t. v. í manna minnum er afnám innflutningshafta, frjáls innflutningsverslun. Ein stærstu mistök viðreisnarstjórnarinnar voru þau að afnema ekki höft með sama hætti af útflutningsverslun. Enn þann dag í dag búum við við þann málflutning úr munni flestallra sem um frelsi í útflutningsverslun tala að þeir vinna sér hver af öðrum, hvort sem um er að ræða hæstv. viðskrh. eða 3. þm. Vesturl., rétt til afreksmerkja SÍS með því að verja einokun í útflutningsverslun. Við búum við það að stærstu útflutningsgreinar okkar, landbúnaður og sjávarútvegur, eru þjáðar og þjakaðar af offjárfestingu. Hvers vegna í ósköpunum geta menn ekki sleppt þeim höftum sem eru á þessum atvinnugreinum, sérstaklega hvað útflutningsverslun snertir, þó það væri ekki nema bara til þess að reyna hvort markaðsöflun án íhlutunar, umsagnar og einokunar sölusamtakanna í þessum greinum skilaði einhverju meiru til þessara greina og drægi þá úr þeim óheilbrigðu áhrifum offjárfestingar sem þessar atvinnugreinar þjást undir?

Hv. 3. þm. Vesturl. rakti svolítið sögu þessa fyrirkomulags. Ég held að það sé líka athygli vert að staldra svolítið við þá sögu vegna þess að réttlætingin á sölusamtökunum er sú að þeim var komið á í alheimskreppu. Ég fæ ekki með nokkru móti séð að sú sama réttlæting geti gilt enn. Við búum ekki við alþjóðakreppu í viðskiptum. Menn voru hræddir við undirboð þá og menn eru hræddir við undirboð enn þann dag í dag. Síðan hvenær varð undirboð að bannorði í viðskiptum? Undirboð eru notuð til þess annaðhvort að ná eða halda mörkuðum þegar skortur er á þeim. Þau geta vel verið réttlætanleg þegar menn þurfa að vinna land eða halda landi í markaðsöflun og ekkert að því að finna ef það skilar árangri.

Það er til ritgerð, reyndar úr hendi bresks vísindamanns, um útflutningsverslun Íslendinga og þá aðallega með síld og saltfisk á árunum 1925–1935. Þar sýnir sá góði maður að einhver stærstu mistök Íslendinga í útflutningsverslun voru stofnun útflutningssamtakanna, vegna þess að það voru viðbrögð sem komu í raun allt of seint við þeim aðstæðum sem þau áttu að bregðast við. Þegar útflutningssamtökin voru stofnuð og þegar þau voru búin að tryggja sér markaði með ákveðinni verðlagningu fór verð almennt hækkandi, p. e. aðrir aðilar náðu betra verði fyrir sömu vöru en Íslendingar gerðu þá á þeim tíma.

Hv. 3. þm. Vesturl. sagði líka að hér væri um frjáls samtök að ræða og höfðar þá sérstaklega til samtaka síldarútflytjenda og saltfiskútflytjenda. Að vísu eru þessi samtök frjáls. En þessi frjálsu samtök hafa líka umsagnarrétt um aðild annarra manna að útflutningi. Viðskrh. er ekki heimilt í raun — alla vega hefur hefðin skapað það heimildarleysi — að afhenda öðrum mönnum útflutningsleyfi en þeim sem hljóta náð í umsögn þessara aðila. Þess vegna gengur þessi till. ekki út á það að úthluta fleiri leyfum, eins og reyndar kom fram í orðalagi hjá hv. 3. þm. Vesturl. Hún gerir ráð fyrir því að gera útflutninginn frjálsan í stað þess að binda hann leyfum, þ. e. engin leyfi.

Ég vil að lokum lýsa því að ég er ekki sammála hv. 6. þm. Reykv. um gott starf SH og SÍS í útflutningi. Ég vil bara segja að þakka skyldi þeim þó þeir hafi unnið innan þess ramma sem þeim er gefinn. En gæði þjónustu þeirra verða alls ekki mæld því að þeir hafa ekki haft neina samkeppni.