18.04.1985
Sameinað þing: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4366 í B-deild Alþingistíðinda. (3677)

336. mál, frelsi í útflutningsverslun

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Ég held að það sé ástæða til að vekja athygli á því að það er ekki alls kostar rétt með farið hjá flm. þessarar þáltill. að útflutningur á iðnaðarvörum sé ófrjáls nánast að öllu leyti. Í grg. er aðeins minnst á að um lítils háttar undanþágur hafi verið þar að ræða. Hið rétta er, eins og fram kom í ræðu hæstv. viðskrh. í upphafi þessarar umr., að útflutningur á iðnaðarvörum er frjáls og hefur verið það síðan það frelsi var veitt 1983. Það var greinilega undirstrikað í hans máli. Það ber að fagna þeirri stefnubreytingu sem núv. viðskrh. stóð að og er í samræmi við ýmsar ákvarðanir í frjálsræðisátt í viðskiptamálum — og þá sérstaklega á sviði gjaldeyrismála — sem hann hefur tekið.

Það er vitanlega líka í fullu samræmi við þá stefnu sem ætti að ríkja á sem flestum sviðum í þessum málum, þ. e. frjálsræði í viðskiptum. Það er sú grundvallarregla sem hér á að hafa í heiðri. En því miður — þótt svo sé ástandið orðið á sviði viðskipta hvað iðnaðarvörur snertir og útflutning þeirra, þar sem það er komið í gott horf, — er ekki hægt að segja það samá um önnur svið atvinnuveganna og iðnaðinn, ef við lítum til þeirra.

Þm. er eflaust í fersku minni hverjar voru útflutningsuppbætur á landbúnaðarvörum sem greiddar voru úr sameiginlegum sjóðum skattborgara þessa lands á síðasta ári. Þar var um tæplega hálfan milljarð kr. að ræða. Af hverju þurfti að greiða svo háar upphæðir vegna sölu á erlendum mörkuðum? Til þess eru ýmsar ástæður. Vitanlega er sú nærtækasta of mikil framleiðsla sem ekki miðast við innanlandsmarkaðinn, sem ekki selst hér innanlands. Afleiðing þess var sú, eins og hefur verið öll undanfarin ár, að verulegan hluta framleiðslunnar þurfti að flytja út. En hvernig er þeim útflutningi varið? Þar ríkir ófrelsið, þar ríkja höftin, þar ríkir einokunin. Það er fyrst og fremst einokun Sambands ísl. samvinnufélaga sem þar er um að ræða. Á því sviði er kannske mesta nauðsynin að innleiða frjálsræði í útflutning landsmanna vegna þess að þar skiptir svo miklu máli, eins og dæmin sýna um útflutningsuppbæturnar, að vel sé að málum staðið og reynt að fá sem hæst verð fyrir íslensku landbúnaðarafurðirnar.

Einn af þeim ræðumönnum sem tóku til máls fyrr í þessari umr. minntist á grisjukjötið. Við þekkjum öll dæmi um hvernig að markaðsöflun fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir hefur verið staðið. Í stað þess að beita þar nýtísku söluaðferðum og vinnsluaðferðum að því er afurðirnar snertir er allt í hinu sama gamla, staðnaða horfi. Afleiðingin af þessu er m. a. sú að svo sáralágt verð fæst fyrir landbúnaðarafurðir á erlendum mörkuðum að stundum dugar það ekki einu sinni fyrir framleiðslukostnaðinum. Afleiðingin var sú að á síðasta ári urðu íslenskir skattborgarar að greiða tæplega hálfan milljarð kr. í meðgjöf með landbúnaðarafurðum sem á erlendum mörkuðum voru seldar og svo mjög háa upphæð einnig á þessu ári. Hér er þess vegna um mjög alvarlegt mál að ræða og hér er hvorki við landbúnaðinn né bændur að sakast. Hér er fyrst og fremst við söluaðilann að sakast og það ófrelsi sem á þessu sviði markaðsmála hefur ríkt. Þess vegna ber hina brýnustu nauðsyn til að breyta því.

Mörg orð hafa verið látin falla í þessum umr. um sölumál sjávarútvegsins. Það væri að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um margt af því sem þar hefur komið fram. Það er ekki hægt að líta á markaðsmál sjávarútvegsins sem eina heild eða setja þau öll undir sama hatt, en mönnum hættir mjög til þess. Það er hinn mesti misskilningur og rangur málflutningur. Önnur viðhorf hljóta að gilda þar sem um er að ræða samtök framleiðendanna sjálfra, sölusamtök sem þeir hafa komið á laggirnar og framleiðendur allir sem einn una vel við og hafa náð á mörgum sviðum gífurlegum árangri. Það er fyrst og fremst á mörkuðum fyrir frystan fisk í Bandaríkjunum. En það er á mörgum sviðum sjávarútvegs annars staðar sem fullt útflutningsfrelsi á fullan rétt á sér og þá ekki síst hvað nýjar framleiðsluvörur snertir.

Nefndur hefur verið útflutningur á ferskum fiski í gámum og margs konar nýjar sjávarafurðir, bæði á mörkuðum vestan hafs og einnig í Evrópu, þar sem frelsi ríkir og full ástæða er til að undirstrika að frelsi á að ríkja. Vitanlega er það rétt, sem hér hefur komið fram, m. a. hjá 6. þm. Reykv., að meginreglan á að vera frjálsræði, einnig á sviði sjávarútvegsins. Við verðum engu að síður að líta til aðstæðna í hverri grein. En grundvallarreglan er aukið frjálsræði og sem mest á því sviði einnig.

Ástæða er til þess í sambandi við þær umræður sem hér fara fram að undirstrika nauðsyn aukinnar markaðsöflunar og aukinnar sölumennsku fyrir íslenskar afurðir á erlendum mörkuðum. Það er ekki síst á sviði landbúnaðarafurða, eins og dæmin sýna, en einnig á sviði iðnaðarvara. Við erum þar að mörgu leyfi eftirbátar nágrannaþjóða okkar. Við höfum jafnan verið þjóða, duglegust við að afla verðmæta, framleiða og draga fisk úr sjó, en okkur hefur skotist, miðað við aðrar þjóðir, í sölu- og markaðsmálum. Það hefur þó farið vaxandi skilningur á mikilvægi þessara þátta og í viðskrn. hefur verið unnið á undanförnum mánuðum að nýbreytni og nýju skipulagi í þeim efnum undir leiðsögn núv. viðskrh. Það sem hér þarf að gera er kannske fyrst og fremst tvennt:

Í fyrsta lagi þarf að stofna hér öflugt útflutningsráð sem ekki taki aðeins til iðnaðarvarnings eða hluta hans eins og nú er heldur nái yfir nánast sviðið allt. Það sem hér skiptir máli er að um öflugt ráð sé að ræða sem hafi erindreka og sölufulltrúa sem víðast um heim. Á það hefur skort hingað til. Þess vegna þurfum við m. a. að fara að dæmi Norðmanna í þessum efnum og gera hér bragarbót á og raunverulega byltingu á sviði útflutningsmála að þessu leyti.

Hitt atriðið varðar þá keðju sendiráða sem við rekum á allmörgum stöðum í veröldinni, ellefu eða tólf munu þau vera. Hingað til hefur þáttur þeirra í útflutnings- og markaðsmálum verið miklu minni en skyldi, ekki þó vegna þess að starfsmenn sendiráðanna eða utanríkisþjónustunnar í heild væru ekki fúsir til þess, heldur hafa þeim einfaldlega verið falin önnur verkefni sem forgangsverkefni og þess vegna ekki gefist tími eða tækifæri til að sinna þessum verkefnum sem skyldi. Þá hafa sérfróðir menn ekki nema í mjög litlum mæli verið ráðnir til starfa í sendiráðunum að markaðsleitarmálum, en þó með nokkrum ágætum undantekningum. M. a. núverandi skrifstofustjóri í viðskrn. sem starfaði sem verslunarfulltrúi í París í allmörg ár.

Hér þarf að gera á grundvallarbreytingu. Við þurfum að endurskipuleggja utanríkisþjónustuna frá grunni með viðskipta- og markaðssjónarmið að leiðarljósi. Í skýrslu utanrrh., sem hann gaf hér í Sþ. fyrir nokkrum dögum, vék hann að nauðsyn þess að stofna a. m. k. ný sendiráð í Japan, Kanada og Finnlandi. Ég læt liggja á milli hluta nauðsyn þess að stofna sendiráð í Kanada og Finnlandi, en ég held að fyrir löngu hefðum við átt að stofna sendiráð í Japan sem er eitt mikilvægasta markaðssvæði okkar og þar sem markaðir eru að opnast fyrir nýjar sjávarafurðir. Það ætti því ekki að dragast úr hömlu. Það sendiráð á ekki fyrst og fremst að iðka vinsamleg stjórnmálaviðskipti við japönsku ríkisstjórnina og keisarann í Japan, heldur fyrst og fremst að vera markaðssendiráð eins og önnur sendiráð okkar eiga raunar að vera að stórum hluta, þau sem fyrir eru.

Ekki aðeins koma markaðsmálin sem slík, þ. e. sölumál afurða okkar, inn sem eitt af meginhlutverkum sendiráðanna og nýrra liðsmanna sem á þeim vettvangi starfa, heldur minni ég í leiðinni einnig á þær hugmyndir sem iðnrh. setti fram á ársþingi íslenskra iðnrekenda fyrir nokkrum dögum. Hann vék að nauðsyn þess að gerð yrði í fyrsta lagi útrás á erlendan markað fyrir íslenskar iðnaðarvörur en lagði ekki síður áherslu á hitt, að við hefðum fulltrúa erlendis og sendum þá beinlínis út af örkinni, aðallega til Asíulanda en þó miklu víðar um heim, til að koma á viðskiptasamböndum milli fyrirtækja af miðlungsstærð erlendis og íslenskra fyrirtækja sem í samvinnu gætu unnið að vöruþróun og framleiðslu iðnaðarvarnings hér á landi. Til þessarar áætlunar vildi hann verja tilteknum milljónum króna og nefndi m. a. þá staði sem þarna væri hagstæðast að bera niður á, a. m. k. í upphafi.

Þetta er mjög tímabær, sjálfsögð og skynsamleg tillaga, sem þarna hefur komið fram frá iðnrh. og mjög ber að fagna. Hér erum við að fara inn á algjörlega nýja braut í íslenskum iðnaði, sölumálum hans, markaðsmálum og framleiðslusamvinnumálum við erlenda aðila sem geta mjög gagnast iðnaðinum á komandi árum. En þessa hugmynd og þetta framtak á vitanlega að tengja breyttu hlutverki íslenskra sendiráða og utanríkisþjónustunnar almennt á nákvæmlega sama hátt og viðskiptamálin eiga að fá þar miklu hærri sess. Í væntanlegu sendiráði í Japan eiga ekki aðeins að vera fulltrúar fyrir sölu á íslenskum afurðum heldur einnig iðnaðarsendifulltrúar sem leita slíkra tækifæra. Þannig á það að vera miklu víðar um heim. Við eigum að breyta utanríkisþjónustunni að þessu leyti og fá henni þar nýjan farveg.