18.04.1985
Sameinað þing: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4369 í B-deild Alþingistíðinda. (3678)

336. mál, frelsi í útflutningsverslun

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Þessi till. er ekki um að banna SÍS. Þessi till. er ekki um að banna SH. Mér finnst sumir tala hér eins og tillagan sé um það að banna einhver fyrirtæki sem fyrir hendi eru í landinu. Hún er alls ekki um það. Hún er um það að auka frelsi, koma á frelsi í útflutningsverslun. Þessi fyrirtæki eiga að fá að keppa við önnur fyrirtæki í þeirri grein eða kannske væri réttara að orða það þannig að önnur fyrirtæki eiga að fá að keppa við þessi.

Menn hafa flutt hér eins konar tækifærisræður um það hvað markaðsöflun væri göfugt og fagurt hlutverk og hvað hjarta þeirra slægi í takt við það göfuga markmið. En svo þegar kemur að kjarna málsins slá menn úr og í. Þá vita þeir ekkert hvað þeir vilja. Þá vilja menn helst engu breyta. Þá er þetta ekki þess virði að menn séu að standa í því. Þá er farið háðulegum orðum um það að menn skuli hafa uppi hugmyndir um að taka upp ný vinnubrögð í þessum efnum.

Það athyglisverðasta í ræðum fulltrúa Sjálfstfl. tveggja sem hér hafa talað, annars vegar hæstv. viðskrh. og hins vegar hv. þm. Valdimars Indriðasonar, er það að þeir sögðu báðir efnislega: Við treystum ekki útflytjendum til að taka skynsamlegar ákvarðanir. Við verðum að taka þessar ákvarðanir fyrir þá. Þess vegna verðum við að vera með leyfisbindingu í þessum efnum. Það getur ekki verið nem önnur ástæða til að vera með leyfisbindingu en sú að menn treysti ekki útflutningsaðilum til að taka ákvarðanirnar sjálfir.

Hvernig má það vera að þessir sömu menn skuli treysta sauðsvörtum almúganum til að taka ákvarðanir sjálfir um hvað þeir kaupa? Innflutningurinn er frjáls og menn fá að kaupa hvað sem þeir vilja. Mér hefur skilist að eitt af því sem fulltrúar Sjálfstfl. teldu væri að það ætti ekki að vera með forsjá af þessu tagi, að hinir einstöku aðilar ættu að fá að taka sínar ákvarðanir sjálfir og þá yrðu ákvarðanirnar betri en þegar þeir væru undir opinberri forsjá. Mér hefur skilist það. Hv. þm. Ellert Schram talaði út frá því sjónarhorni.

Þetta er kjarni málsins. Hæstv. ráðh. stóð hér upp og lýsti í rauninni kostum einokunar með mörgum orðum. Þessi fulltrúi Sjálfstfl., hæstv. ráðh., rakti það hversu mikilvægir kostir væru í einokun. Hvernig gengur þetta upp? Hvernig stendur á því að hæstv. ráðh. treystir ekki framleiðsluaðilunum á sama tíma og hann treystir sauðsvörtum almúganum til að taka ákvarðanir um það hvað hann kaupir? Þetta er kjarni málsins.

Í þeim orðum, sem hæstv. ráðh. hafði hér um þetta mál, er líka fólgið það að hann trúir ekki á áræði eða frumkvæði manna í þessum efnum. Hann setur það fyrir sig að menn muni gera glappaskot og þetta muni þá lenda í miklum ógöngum. Er þetta virkilega álit manna á útflutningsframleiðendum að þeir muni standa í einberum glappaskotum ef þeir fá aukið frelsi? Ég gat ekki skilið þær ræður sem hér voru fluttar öðruvísi.

Hv. þm. Valdimar Indriðason talaði mikið um t. d. síldarútvegsnefnd og útflutninginn á saltfiski. Hann sagði: Það eru engir framleiðendur sem vilja breyta núverandi fyrirkomulagi. Þeir hafa sjálfir óskað eftir að vera í þessum samtökum. — Þessi till. er ekkert um að banna mönnum að vera í þessum samtökum, hún er ekkert um það að þeir geti ekki notfæri sér sömu sölusamtök. Að sjálfsögðu. (VI: Það er ekki frelsi.) Er það ekki frelsi? (VI: Ekki í mínum huga.) Nú líst mér á hv. þm., nú hefur hann heldur betur ruglast í ríminu. Ég er svo aldeilis hissa. Þegar ég er að tala um það að framleiðendur eigi að fá að taka ákvarðanir sjálfir en ráðh. eigi ekki að taka þær fyrir þá, það er ekki frelsi? Eiga þeir ekki að fá frelsi til að vera þar sem þeir vilja vera? Hef ég ekki tekið fram og þurft að benda mönnum á að hér er ekki verið að banna SH, SÍS eða SÍF, ekki neitt af því tagi? Það eina sem þetta gengur út á — en það er líka stórt — er að aðrir fái tækifæri til að spreyta sig líka.

Ef lýsing hv. þm. Valdimars Indriðasonar er rétt og gildir um þessi sölusamtök skil ég ekki hvað hann óttast. Hann talaði líka um Ameríkumarkað og sagði að hann væri sérlega viðkvæmur. En ég vil bara benda hv. þm. á að Ameríka er dálítið stór og þegar við tölum um Ameríkumarkað hérna erum við að tala um þann Ameríkumarkað sem við erum á sem er ekki nema lítill hluti Bandaríkjanna. Hv. þm. — og mér skildist líka hæstv. ráðh. — taldi að það væri í lagi ef þetta væri eitthvað nýtt. Ef þetta væri eitthvað sem við hefðum ekki verið í þá mættu aðrir spreyta sig svona einhvers staðar á röndinni.

En hvað er þá nýtt? Er það einungis nýtt ef við finnum einhvern nýjan fisk sem ekki hefur verið veiddur hingað til? Gefur ekki verið að það sé nýtt að ganga frá vörunni með öðrum hætti en gert hefur verið? En kjarni þessa máls er engu að síður þessi spurning: Treysta menn framleiðendum til að taka skynsamlegar ákvarðanir rétt eins og sauðsvörtum almúganum er treyst til þess skv. því kerfi sem í gildi er? Eða vantreysta menn framleiðendunum og telja að þeir séu langtum heimskari og vitlausari en venjulegt fólk sem kaupir hvað sem það lystir hér á landi — þetta er kjarni málsins — og telja að þess vegna þurfi forsjá og boð og bönn? Framleiðendur eiga að velja það sjálfir hvernig þessum málum sé fyrir komið fyrir hvern og einn þeirra, hvort þeir vilja láta núverandi sölusamtök selja fyrir sig eða ekki.

Hv. þm. Valdimar Indriðason talaði um að það mundi verða svo mikil eftirspurn eftir íslenskum fiski að það yrði vandi að selja hann. Það eina sem getur réttlætt einokun er að það sé mikill vandi að selja fiskinn vegna þess að það sé ekki nægileg eftirspurn eftir honum. Hv. þm. Skúli Alexandersson nefndi einmitt dæmið um það. Það var skreiðin í Nígeríu sem ómögulegt er að koma þar á markað. Hann sagði: Það hefur skaðað að þar hafa verið svona margir aðilar eftir að markaðurinn lokaðist. Það var allt í lagi meðan markaðurinn var góður, en ekki eftir að hann hafði lokast. Það er eina réttlætingin fyrir því að vera með einokun á þessu sviði að menn séu þannig í algerri varnarstöðu og verði að verja sig.

Framtíðarspá hv. þm. Valdimars Indriðasonar var þess vegna enn þá frekari röksemd fyrir því að koma á frelsi í greinunum. Hann benti á að það væru ýmsir markaðir sem menn væru að uppgötva núna, Japan t. d., sem menn hefðu verið allt of seinir á sér að uppgötva vegna þess að kerfið er allt of stirðnað, of staðnað og stirt. Það er það sem er að og það er það sem við erum að reyna að gera tilraun til að fá bætt úr.

Herra forseti. Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta núna. Ræða hv. þm. Skúla Alexanderssonar hefði gefið tilefni til margvíslegra andsvara. En úr því að hann er fjarstaddur skal ég að mestu hlífast við því. Eins furðulegan málflutning hef ég sjaldan heyrt. Hann snéri hér út úr varðandi leyfilega stjórn á fiskveiðum þar sem við fluttum till. um að það yrði athugað hvernig því yrði fyrirkomið vegna þess að við vorum ekkert ánægðir með þær ákvarðanir sem hafa verið teknar og það kerfi sem er við lýði og teljum að menn eigi að rannsaka hvernig sé skárst að koma því fyrir. Þar er líka tekið fram að menn verði að velja það kerfi sem hefur sem minnst skrifræði í för með sér. Hv. þm. hafði því snúið öllu á haus að því er þetta varðar. Hann talaði gegn þessari þáltill. hér en síðan sagði hann: „Lítil fyrirtæki geta ekkert í markaðsþróun, það eru bara gömlu, góðu, sterku, stóru fyrirtækin eins og SH og SÍS sem geta eitthvað.“ En samt, ef þetta er staðreyndin, hvað er hann þá að óttast? Hvers vegna mega þau litlu þá ekki reyna að spreyta sig? Það skyldi þó ekki vera að það sé einhvers staðar ein lítil spíra sem gæti skilað afrakstri og sem væri mikils virði. En röksemdafærslan stendur gersamlega á haus þannig að það stendur ekki steinn yfir steini í þeirri ræðu.

Herra forseti. Ég vænti þess að þessi till. fái skjóta og góða afgreiðslu í þinginu og tel mikils um vert að þingið manni sig nú upp í að taka afstöðu í þessum efnum þannig að það liggi fyrir hverjir það eru sem vilja frelsi og hverjir það eru sem heimta höft.