18.04.1985
Sameinað þing: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4375 í B-deild Alþingistíðinda. (3681)

336. mál, frelsi í útflutningsverslun

Flm. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það er mjög gaman að hæstv. viðskrh. þegar hann kemur upp í stólinn til að skemmta sér yfir því að ég skuli flytja tillögu á grundvelli reglugerðar og um breytingu á reglugerð sem ég hafi sjálfur gefið út. Ég hef ekki dregið neina dul á að ég hafi gefið út þessa reglugerð, en mér finnst alveg sjálfsagt að málin séu skoðuð þó að reglugerðin sé út gefin af mér. En það er ekki meginerindi mitt hingað upp í stólinn, heldur hitt að fáein atriði af því sem annars vegar ráðh. og hins vegar hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði áðan vekja til umhugsunar.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði að menn skyldu íhuga hvað það væru til óprúttnir menn að því er varðaði sölu á afurðum og reyndar kaup líka. Hér kemur fram það viðhorf að framleiðendunum er ekki treyst til að taka skynsamlegar ákvarðanir. Væntanlega er það svo að þessi óprúttnu aðilar, sem áttu að hafa keypt vörurnar, hafa keypt þær af einhverjum og þá væntanlega framleiðendunum.

Menn tala um þrönga markaði hjá okkur. Það getur verið að í vissum greinum og á vissum tímum séu þröngir markaðir, en það er ekki almennt eða alltaf. Hv. þm. Valdimar Indriðason var að lýsa framtíðarmöguleikum í sambandi við sjávarútveginn svo að menn geta ekki haft það eitt að leiðarljósi að ævinlega verði mjög þröngir markaðir. Þar að auki sannar röksemdin um þrönga markaði ekkert sérstakt í þessum efnum.

Hæstv. ráðh. sagði að það væri auðvitað framleiðendanna í sjávarútveginum að taka ákvörðun um hvernig þeir vildu haga þessum málum. Það er rétt. Þeir eiga að fá að taka ákvarðanir um að nota SÍF eða SH eða SÍS eða hvern þann aðila sem þeir vilja til að selja sínar vörur. Það er enginn að meina þeim það með þessari till. Alls ekki. Það er einmitt verið að tryggja að þeir fái að ráða því hvernig þessum málum sé hagað. Það sem hins vegar felst í orðum ráðh., þegar hann vill engu breyta, er að hann heimtar ekki að þeir fái að ráða, heldur að hann fái sjálfur að ráða því. Það er ákvörðunarvald ráðh. sem er hér til umræðu, skömmtunarvald ráðh., og það vill hann ekki skerða. Það er ekki spurningin um að framleiðendurnir ráði, heldur spurningin um að ráðh. fái að ráða og skammta. Því vill hann ekki breyta.

Hæstv. ráðh. sagði að menn yrðu auðvitað að hugsa um þjóðarhag í þessu máli. Það er rétt. Auðvitað eiga menn að hugsa um þjóðarhag. En viðhorf ráðh. er að hann hafi vitið að því er varðar þjóðarhag. Hæstv. ráðh. er að segja: Ég á að ráða þessu. Ég veit um þjóðarhag. Hæstv. ráðh. er að segja: Þjóðarhagur, það er ég.