18.04.1985
Sameinað þing: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4379 í B-deild Alþingistíðinda. (3684)

339. mál, bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Páll Pétursson:

Herra forseti. Vegna þessarar till. langar mig til að segja örfá orð. Þá er það fyrst að ég tel að það sé enginn ágreiningur um það að vilja veg íslenskrar tungu sem mestan. Vegur íslenskrar tungu er mikill. Ég vil nú ekki nefna hana grunnmál, enda er ég ekki vanur á sjó, en hugsanlegt væri að tala um íslenskuna sem móðurtungu annarra norrænna mála. Okkar mál er næst því máli sem mun hafa verið talað á Norðurlöndum fyrir svo sem eins og 1000 árum síðan. Okkur hefur lánast að varðveita þetta mál betur en öðrum Norðurlandaþjóðum. Okkar tunga er minna brengluð en það mál sem Danir, Norðmenn og Svíar tala. Hvers vegna höfum við afbakað málið minna? Það er vegna þess að við skrifuðum á íslensku fyrr, við eignuðumst íslenskt ritmál fyrr en aðrar þjóðir. Við vorum kannske ekki eins snjallir í latínu á 12. öld og grannar okkar í Skandinavíu eða Evrópubúar. Við vorum ekki mjög latínulærðir og við höfðum ekki aðra tungu til að tjá okkur á en íslensku.

Ég verð að víkja í allri hógværð sögunni til Húnvetninga því að 1117–1118 var drepið niður penna á Breiðabólstað í Vesturhópi, eins og menn muna, á búi Hafliða Mássonar, vegna þess að það þurfti að hafa glöggar reglur um hvernig ætti að fara að ef einn dræpi annan. Nú eru Húnvetningar, eins og allir vita, og hafa alltaf verið miklir friðmenn en þeir láta ekki óátalið ef einhver fer að drepa annan. Ég held því fram að réttlætiskennd Húnvetninga og vankunnátta þeirra í latínu hafi ráðið því að við Íslendingar eignuðumst okkar ritmál á meðan Saxi fróði og það fólk varð að tjá sig á latínu.

Herra forseti. Þetta er tillaga sem flutt er af dáð og dugnaði en er óþörf. Að álykta um það að Íslendingar leggi fram verk á íslensku er óþarfi því það er heimilt nú þegar. Það er einmitt það sem gert hefur verið. En venjan hefur hins vegar verið sú að verkin hafa verið þýdd á einhverja af granntungunum.

Bókmenntaverkin eru valin af tveimur mönnum. Nú síðast voru þau valin af Jóhanni Hjálmarssyni og Heimi Pálssyni. Næst munu tvö íslensk bókmenntaverk valin af Jóhanni Hjálmarssyni og Sveini Einarssyni. Þessum mönnum er falið það vald að velja þessi bókmenntaverk og það gera þeir án íhlutunar annarra og bera ábyrgð á sínu vali. Dómnefndin er ekki stærri en þetta. Síðan er þýðandinn samþykktur af höfundi. Það er engum þýðanda nauðgað upp á höfund. Ef höfundur kærir sig ekki um að verk hans sé þýtt á sænsku, dönsku eða norsku þá kemst hann upp með það. Honum helst það fyllilega uppi. Það er engin spurning um það. Hins vegar tekur hann þá áhættu að allir dómnefndarmenn skilji ekki það bókmenntaverk sem lagt er fram. Hann tekur þá áhættu að allir dómnefndarmenn séu ekki læsir á íslenska tungu.

Nú vill reyndar svo til að margir dómnefndarmennirnir geta notið bókmennta á íslensku. Það eru í fyrsta lagi tveir Íslendingar. Síðan situr í dómnefndinni einn Færeyingur. Síðan situr fyrir Noregs hönd í dómnefndinni Ívar Eskeland. Ég biðst afsökunar ef það hefur orðið breyting á með þessa menn, Færeyinginn eða Ívar Eskeland, ég hef ekki fylgst með því, en þeir sátu í dómnefndinni síðast. Þar að auki hinn kunni Íslandsvinur Per Olof Sundman sem sjálfur hefur reyndar hlotið bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og mun lesa íslensku að mér er tjáð. Þannig er það alveg ljóst að þarna er dálaglegur hópur manna sem getur notið íslenskra bókmenntaverka. Hins vegar finnst mér ekki sanngjarnt að gera kröfu til þess að allir dómnefndarmenn séu læsir á íslensku, finnsku, grænlensku og samísku. Það eru merkilegar tungur líka eins og íslenska og ég hygg að það séu sjaldhittir þvílíkir málamenn sem ekki bara skilja þessar tungur allar saman heldur þurfa þeir að vera bókmenntamenn líka og hafa næman smekk. Ég vil leyfa mér að vitna til ályktunar frá ritstjórn Rithöfundasambands Íslands sem ályktaði um þetta mál og taldi þetta vanhugsaða till. Sú ályktun hefur birst í fjölmiðlum. Ég ætla ekki að fara að lesa þessa ályktun alla en vil þó aðeins grípa niður:

„Auðvitað væri æskilegt að verk á íslenska tungu gætu staðið jafnfætis bókum á sænsku, dönsku og norsku fyrir dómnefndinni. Það er ljóst að í flestum þýðingum glatast eitthvað af gæðum hins upprunalega texta. Hvað varðar bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs stöndum við Íslendingar hins vegar í rauninni einungis frammi fyrir vali milli þess að sætta okkur við það forskot sem danskir, sænskir og norskir höfundar óneitanlega hafa eða á hinn bóginn hreinlega hætta þátttöku í samkeppninni. Að halda til streitu kröfunni um að verk skuli eingöngu lögð fram á hinni upphaflegu tungu getur ekki leitt til annars en að verðlaunaveitingunni verði hætt, hún verður óframkvæmanleg. Þá munu íslenskir höfundar endanlega hafa glatað möguleikanum á að hljóta þessi verðlaun. Núverandi framkvæmd þessarar verðlaunaveitingar hefur einnig haft þann kost að á hverju ári hafa verið þýddar tvær nýjar, íslenskar bækur höfundunum að kostnaðarlausu og án þess að þeir hafi fyrir fram gert samning um útgáfu þeirra við erlendan forleggjara, en sá kostnaður mun að sjálfsögðu glatast nái hugmyndir flm. fram að ganga.“

Þá skulum við hugleiða það hvort íslenskir rithöfundar eða finnskir rithöfundar hafi verið settir hjá við úthlutun bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs á undanförnum árum: Ég held að það sé ekki hægt að halda því fram með haldbærum rökum. Tvö ágæt íslensk bókmenntaverk hafa hlotið verðlaun. Einungis þrjú norsk bókmenntaverk hafa hlotið verðlaun á þessum tíma. Þannig hefur þessi þröskuldur alls ekki reynst Íslendingum ókleifur. Þar að auki hafa fimm Finnar hlotið þessi verðlaun og þar af eru fjórir finnskumælandi og skrifa sín verk á finnsku. Einungis einn af þessum Finnum er sænskumælandi. Auðvitað er þetta þröskuldur en við því er ekkert að gera. Hann er ekki ókleifur eins og dæmin sanna.

Auðvitað eru fjölmörg dæmi þess að illa hafi verið þýtt, sjálfsagt bæði þau bókmenntaverk sem þýdd hafa verið í þessu skyni og þó eru hin náttúrlega miklu fleiri sem öðruvísi eru tilkomin. En ég hef fyrir mér mjög dómbæra menn um það að sumt af þessum þýðingum hafi verið mjög vel af hendi leyst hvað varðar íslensku bókmenntaverkin. Það sem mér finnst algerlega fráleitt við þessa till. er sú hugmynd flm. að gera því skóna að farið verði að leggja fram þýðingar á ensku, þýsku eða frönsku. Það væri sjálfsagt ef hér væri um að ræða t. d. bókmenntaverðlaun sem Evrópuráðið efndi til en mér finnst þetta fráleitt í norrænu samstarfi. Ég er einnig mjög óánægður með hvað mér finnst grg. anga af andnorrænu viðhorfi. T. d. segir hér í grg., með leyfi forseta:

„Þetta horfir öðruvísi við okkur Íslendingum. Dönsk tunga hefur aldrei fest hér rætur og enginn stafur er fyrir því að hún sé okkur tamari en t. a. m. enska, franska eða þýska, þó svo að við höfum deilt konungi með Dönum svo öldum skiptir.“

Þetta finnst mér óþarflega og ómaklega fram sett. Ég hef fyrir því Sigurð Nordal prófessor, hann orðaði það svo að danska væri gluggi okkar til umheimsins. Hann skýrði það þannig að það væri heldur minna verk fyrir Íslendinga að læra dönsku þannig að þeir kynnu hana til nokkurrar hlítar og gæfu notið á henni bókmennta- og vísindarita heldur en t. d. ensku, þar eð orðaforði ensku er svo miklu meiri en dönsku.

Mér finnst þessi till. vera allt of ameríkaniseruð. Ég tel að við Íslendingar eigum heima í hópi Norðurlanda og ég leggst gegn því að við förum að slíta þau bönd til þess að reyna að tengja okkur fastar við hina engilsaxnesku veröld.