22.04.1985
Efri deild: 58. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4404 í B-deild Alþingistíðinda. (3692)

49. mál, vinnumiðlun

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég verð reyndar að segja strax að málflutningur minn mun að einhverju leyti verða ámóta á að hlýða og hv. 5. þm. Vesturl. Ég sé að hann hefur rekið sig á mörg þau sömu atriði sem ég hef rekið mig á í þessu frv.

Ég leyfi mér að segja að þetta sé afskaplega vitlaust frv. um ágætt málefni. Ég sé fyrir mér að vinnumiðlun sé fyrst og fremst ákveðin skuldbinding af hálfu yfirvalda, þ. e. ríkis og sveitarfélaga, til að fyrir hendi séu sem víðast um allt land upplýsingar um atvinnuástand, þ. e. framboð og eftirspurn eftir vinnuafli, þannig að þeir, sem í atvinnuleit eru, geti haft aðgang að þessum upplýsingum og þeir, sem eru að leita að starfsfólki, geti haft aðgang að þeim.

Ég sé ekki betur en lögin geri ráð fyrir því að stjórnvöld skuldbindi sig til að tryggja hér á landi ákveðið atvinnuástand. Ef þessi skuldbinding er tekin alvarlega geta orðið býsna skondnir hlutir úr því. „Markmið vinnumiðlunar er að stuðla að nægri og jafnri atvinnu um land allt.“ Það er stórt orð Hákot. Það er ekki lítið verkefni sem þarna er tekist á hendur. Hingað til hefur stjórnvöldum ekki tekist að uppfylla loforð af þessu tagi og ég á ekki von á því að þau geti það neitt frekar í framtíðinni.

Síðan er það loforð að stuðla að „nægjanlegu framboði vinnuafls fyrir atvinnuvegi þjóðarinnar“. Ef maður væri ekki orðinn svo vanur því að orðalag í frumvörpum og lögum væri oft og tíðum mjög heimskulegt gæti maður skilið þetta þannig að ríkisstjórn Íslands ásamt sveitarfélögum ætlaði sér að koma upp eins konar útungunarstöð á vinnuafli fyrir atvinnuvegi þjóðarinnar til að tryggja að aldrei þyrfti að lenda þar í neinu hallæri. (HS: Framleiðsluhvatning.) Framleiðsluhvatning, já. Við eigum kannske von á því að hér komi til viðbótar löggjöf um verðlaun til mæðra sem miðist við ákveðinn fjölda barna.

Eina vitið í þessum tveim setningum, sem teljast til 1. gr., er það að vinnumiðlunina skuli starfrækja eftir því sem nánar er fyrir mælt í lögum þessum og reglugerð og að vinnumiðlunin skuli í þessu skyni hafa endurgjaldslausa meðalgöngu milli þeirra sem leita eftir atvinnu og atvinnurekenda sem leita eftir vinnuafli. Þetta er hlutverk vinnumiðlunarinnar. Hitt er bara orðagjálfur sem hefur enga merkingu og er algerlega nauðsynjalaust að halda því inni í þessu frv.

Síðan er reyndar búið að koma hér upp embætti og nefnd sem á að hittast mánaðarlega til að gera allt og ekkert. Fyrir þessa nefnd skulu lagðar upplýsingar um atvinnuástand, atvinnuleysi og atvinnutækifæri á landinu öllu ásamt skýringum á orsökum og breytingum á atvinnuástandi, enn fremur tekin fyrir önnur mál sem Vinnumálaskrifstofan, aðrir opinberir aðilar eða einstakir fulltrúar tilnefningaraðila óska eftir að tekið sé á dagskrá og snerta hlutverk nefndarinnar.

Þarna er búið að koma upp einni af mörgum minni háttar ríkisstjórnum í þessu landi þar sem menn ætla sér að sitja mánaðarlega í einhverjum klúbb og fjalla um árangur og vandamál í atvinnumálum landsins án þess að hafa í raun og veru nokkurt umboð til að gera neitt í þeim efnum en hafandi þarna ákveðinn vettvang til að láta ljós sitt skína. Ég get ekki séð að þessi ráðgjafarnefnd lofi góðu. Með tilliti til margra atriða í þessu frv. hefði ég mjög gjarnan kosið að þessum lögum yrði séð fyrir sólarlagsákvæði og væri þá litið á þau sem tilraun til ákveðins tíma og árangur þessara framkvæmda allra yrði metinn eins fljótt og hægt væri til að gera mætti sér grein fyrir hvort tilraunin hefði svarað kostnaði.

Í 7. gr. frv. er tekist á við eitt höfuðdeilumál undanfarinna ára og áratuga í íslensku stjórnarfari. Í athugasemdum með frv. segir um þessa grein:

„Í greininni er það nýmæli að landinu skuli skipt í tiltekin atvinnusvæði með tilliti til legu og atvinnuhátta og að sveitarfélög innan hvers svæðis hafi samstarf um vinnumiðlun eftir því sem tök eru á. Með ákvæðum greinarinnar er stefnt að því að gera vinnumiðlun sem virkasta á hverju svæði, auka hreyfanleik vinnuafls milli nærliggjandi sveitarfélaga og nýta sem best atvinnuframboð.“

Við skulum nú horfa fram hjá því að Íslendingar búa við það ástand í dag að ekki er um neinn hreyfanleika vinnuafls lengur að ræða. Stjórnvöld eru búin að koma því þannig fyrir að menn búa hér við slíka átthagafjötra að þeir geta sig hvergi hreyft. Ef þér býðst einhvers staðar atvinna langt frá þinni heimabyggð átt þú lítinn kost að nýta hana öðruvísi en að selja eign þína á einhverju undirmálsverði, tapa þar stórkostlegum fjármunum og hafa hugsanlega ekki efni á því nema með miklum harmkvælum að kaupa þér eign á næsta stað og þar fram eftir götunum. Þetta er nú aukaatriði.

Hér er verið að búa til nokkurs konar nýja stjórnsýsluskiptingu, sameiningu sveitarfélaga, bara undir öðru formerki. Nú hefur mönnum ekki tekist frá stofnun lýðveldisins að sameina sveitarfélög með þeim hætti sem menn hafa óskað sér. Hvað er það sem sannfærir menn um það að þeim takist það hér frekar en annars staðar? Og ef mönnum tekst það ekki sem gert er ráð fyrir í þessari grein er sá tilgangur laganna fallinn að stuðla að nægri og jafnri atvinnu og nægjanlegu framboði vinnuafls. Takist ekki að ná því markmiði sem sett er fram í 7. gr. eru þetta og verða ekkert annað en einfaldar og gagnlegar upplýsingaskrifstofur. Hvers vegna gátu menn ekki verið svo raunsæir að horfast í augu við þessa staðreynd og hafa lögin einfaldlega þannig, ekki að ætla sér að leysa vandann með einhvers konar utanborðsríkisstjórn sem þessi ráðgjafarnefnd er og svo hins vegar að leysa vanda sameiningar sveitarfélaga með 7. gr. í lögum sem varla nokkur maður hér á landi hefur tekið eftir að verið er að fjalla um hér innan veggja, að ætla sér að leysa þannig nokkur af þeim meiri háttar vandamálum sem Alþingi hefur verið að brasa við undanfarin ár og áratugi?

Það er víða hægt að grípa niður. Ein bein spurning er hér til hæstv. ráðh. varðandi 17. gr. Þar segir: „Einkaaðilum er óheimilt að reka vinnumiðlun í ágóðaskyni.“ Síðan geta menn lesið áfram það sem þar stendur. Greinin fjallar um það hverjum félmrh. getur leyft að reka vinnumiðlun. Þýðir þetta að þeim vinnumiðlunarskrifstofum, sem nú eru starfandi, verði að loka? Er þeim bönnuð starfsemi? Má Hagvangur ekki stunda vinnumiðlun eftir þessu að dæma? Ég tel ekki smekklegt að tína hér til fleiri nöfn. En hér eru starfandi þegar þó nokkrar skrifstofur sem stunda vinnumiðlun með nokkuð góðum árangri að ég tel fyrir alla hlutaðeigandi aðila og væru ekki að þessu ef þær hefðu ekki af þessu einhvern ábata, býst ég við. Er þeim þetta þar með ekki lengur heimilt þegar við erum búin að samþykkja þessi lög eða er hérna eins og oft áður kannske ekki alveg að marka það sem sagt er í frv.?

Í heild get ég sagt að tilfinning mín af þessum lögum er ekki góð. Þetta er frv. þar sem menn hafa ekki virkilega sest á afturfæturna og hugsað: Hvað erum við að gera og hvað ætlum við að gera? Hverju getum við raunverulega náð sem löggjafar annars vegar og sem framkvæmdavald hins vegar? Sá draumur, sem birtist í þessum lögum, er draumur sem ég get líklega frekar nú en oft áður veðjað þó nokkuð miklu um að aldrei rætist.