22.04.1985
Efri deild: 58. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4409 í B-deild Alþingistíðinda. (3694)

49. mál, vinnumiðlun

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég tel að félmrh. sé okkur skuldugur um nokkrar orðskýringar, a. m. k. skýringar á því sem hann hefur sagt hér. Fyrst vildi ég gjarnan fá skýringar á því margnefnda fyrirbæri, sem oft kemur fram í umræðum manna í millum en ég hef aldrei séð framkvæmt að neinu ráði, a. m. k. ekki hér á Íslandi, þessum margumtalaða möguleika til flutnings á vinnuafli milli atvinnusvæða, hvernig menn hugsa sér slíkt framkvæmt. Hér er verið að tala um það að taka manneskjur og flytja þær af einum stað á annan. Ég vildi gjarnan fá í stuttu máli lýsingu á því hvernig menn hugsa sér slíkt eigi sér stað. Við þekkjum dæmi úr mannkynssögunni aftan úr öldum um mikla þjóðflutninga. Við þekkjum þess einnig dæmi úr nútímasögu, annaðhvort vegna einhverra gífurlegra náttúruhamfara sem eiga sér stað eða annarrar óáranar eins og það stjórnarfar sem er í sumum löndum sem gerir ráð fyrir að svona aðgerðir séu hluti af stjórnvaldsaðgerðum. Sér hæstv. ráðh. það fyrir sér að fólk af norðanverðu Snæfellsnesi, þar sem verður einhverra hluta vegna lítið um atvinnu vegna aflabrests í Breiðafirði, sem við skulum nú guði sé lof vona að aldrei verði, sé flutt þjóðflutningum niður í Borgarfjörð af því að þar er nóg að gera í landbúnaði þá dagana? Eða hvernig sér hæstv. ráðh. fyrir sér flutning á vinnuafli innan þessa umrædda kjördæmis hér fyrir norðan?

Ég segi þetta vegna þess að þetta atriði bar á góma í ræðu hæstv. ráðh. Þetta er atriði sem ég hef oft heyrt nefnt en aldrei fengið neinar skýringar á og ég ætla að vona að hæstv. ráðh. hafi ekki verið að tala um það hér án þess að hann hafi þrauthugsað hvernig slíkir hlutir gætu gerst.

Ég mótmæli eindregið þeim lögskýringum sem fram komu í sambandi við 17. gr. frv. Ég les það hér að einkaaðilum er óheimilt að reka vinnumiðlun í ágóðaskyni. Ég get ekki tekið gildar lögskýringar þær sem hér koma fram í aths.: „Tekið skal fram að bann við vinnumiðlun einkaaðila tekur ekki til þeirrar starfsemi sem færst hefur í vöxt að undanförnu að fyrirtæki, er annast ráðgjafarstörf, hafi með höndum ráðningarþjónustu til sérhæfðra starfa „enda sé slík starfsemi rekin atvinnuleitendum að kostnaðarlausu.“ Það segir sig sjálft að hún er það og hefur verið það. Eða hvaða störf á þessu landi eru ekki sérhæfð? Ég veit ekki betur en þau fyrirtæki, sem annast hér ráðningarþjónustu, miðli störfum nánast af hvaða tagi sem er, hvort sem það er framkvæmdastjóri með sérhæfingu, verkfræðingur, tæknifræðingur, tækniteiknari eða einhvers konar sérhæfður vinnukraftur eins og tölvari eða þá einfaldlega skrifstofukraftur, hverju nafni sem hann nefnist, eins og það orð er nú leiðinlegt. Og hver ætlar svo að hafa eftirlit með því að þessi eða hin einkavinnumiðlunin sé ekki að koma skrifstofustúlku eða manni í störf þessa stundina heldur verkfræðingi? Hver á að hafa eftirlit með því? Hvaða lögregla á að fylgjast með því? Er það siðgæðiseftirlitið eða verður komið upp sérstöku lögregluembætti í þessum efnum?

Hæstv. félmrh. gat þess að gagnavinnsluuppsetning á þessu upplýsingakerfi væri gífurlega stórt og umfangsmikið verk. Það er trúlega alveg rétt hjá honum. Þess vegna er það ekki á færi neins eins aðila að standa að uppsetningu slíks kerfis. Þess vegna hefðu einföld lögmál lífsins leitt til þess að menn hefðu orðið að bindast samtökum um slíkt.

Það er gífurleg árátta á okkar landi að binda alla hluti í lög. Það er eins og menn séu ekki enn farnir að átta sig á því að lög binda ekki bara rétt, þau hafa mjög sterka tilhneigingu að leiða til skyldna eftir því sem á liður. Lög eru í eðli sínu alltaf íhaldssöm. Hugmyndirnar, sem til laga leiða, geta oft og tíðum verið mjög róttækar, en þegar búið er að binda þessar hugmyndir í lög og þær eru orðnar á ábyrgð valdsins, þá verða þær íhaldssamar og verða að valdatæki. Þess vegna tel ég hæpið og óábyrgt að nota það orðalag í löggjöf sem leitt getur til klúðurs og útúrsnúnings og hugsanlega til fáránlegra krafna sem hægt er að útleiða af asnalegu orðalagi eins og ég minntist á í upphafi máls míns að ég tel vera í 1. gr. frv. Og það skiptir engu máli hversu margir aðilar stóðu að gerð frv. Hæstv. félmrh. getur bara spurt framkvæmdastjóra SÍS hvort hann telji gæði verkanna aukast eftir því sem fleiri standa að þeim. Ég minnist þess að hafa heyrt þann ágæta mann halda því fram á almannafæri að því færri sem menn væru, sem að verkefnum stæðu, því betur væru þau unnin. En ég hrekk ekkert frá þeirri fullyrðingu sem ég hélt fram hér áðan. Af lestri þessa frv. til laga tel ég að 1. gr. sé óþarfa bull og engin ástæða til að hafa hana inni með þeim hætti sem hún er þarna og lögin alveg jafngóð ef þessu bulli er sleppt.

Eins get ég ekki orðið sammála hæstv. félmrh. um gagnsemi þessarar ráðgjafarnefndar. Hann sagðist vænta þess að hún gerði stjórn virkari. Ég get ekki séð hvaða munur er á því hvort ráðleggingar, ráðgjöf eða hugmyndir um úrræði í atvinnumálum koma frá nefnd sem þessari eða frá bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Ég get ekki séð að ráð sem koma frá ráðgjafarnefnd sem þessari séu neitt betri en þau sem koma frá ríkisstjórn Íslands. Ég get aftur á móti séð það að ef ráð koma frá slíkri ráðgjafarnefnd og eru síðan framkvæmd annaðhvort af bæjarstjórn Hafnarfjarðar eða ríkisstjórn Íslands og ef ráðin síðan ekki duga, þá geti viðkomandi ráðherra í næsta kosningaleiðangri kennt ráðgjafarnefndinni um. Hennar ráð voru óholl. Þetta segi ég vegna þess að þessu fyrirbæri mætir maður svo oft í íslensku stjórnarfari, og maður getur ekki látið hjá líða að leita þessara undankomuleiða sem stjórnvöld oft og tíðum smíða inn í löggjöf til þess að gera ábyrgð sína á framkvæmd löggjafarinnar það óræða að hægt sé að skjóta sér undan henni þegar með þarf. Þann eina tilgang sé ég í þessari ráðgjafarnefnd og ég held að ef við stöndum hér eftir fimm ár, hæstv. félmrh. og ég, og tölum saman, þá verði ekki með nokkru móti hægt að sanna það að þessi ráðgjafarnefnd hafi skilað nokkru gagni.