22.04.1985
Efri deild: 58. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4418 í B-deild Alþingistíðinda. (3704)

98. mál, sóknargjöld

Frsm. (Haraldur Ólafsson):

Virðulegi forseti. Þetta mál hefur nú tafist nokkuð af þeim sérstöku ástæðum að það tók nokkurn tíma að ná samkomulagi um innheimtuaðferðir. Eftir að 3. umr. hófst komu athugasemdir frá fjmrn., nokkuð seint fram komnar, og var síðan skilað í formi brtt. sem fluttar hafa verið af menntmn. og er samkomulag um.

Þær brtt. tengjast allar nákvæmara orðalagi til þess að taka af allan vafa og ég vil leyfa mér að lesa þær hér: Við 1. gr. Greinin orðist svo:

„Hver maður í þjóðkirkjunni, sem orðinn er 16 ára á tekjuárinu og er heimilisfastur hér á landi samkv. ákvæðum 1. gr. laga nr. 75/1981 og á er lagt útsvar samkv. lögum nr. 73/1980, skal greiða sóknargjald ár hvert samkv. lögum þessum.

Sóknargjald rennur til þeirrar sóknar þar sem gjaldþegn átti lögheimili hinn 1. des. á tekjuárinu.“

Í öðru lagi er lagt til að 4. gr. orðist svo:

„Hver sá, sem telst til skráðs trúfélags, sbr. lög nr. 18/ 1975, skal greiða til trúfélags síns eigi lægri fjárhæð en honum hefði annars borið að greiða til þjóðkirkjunnar, þó aldrei meira en 0.4 af hundraði af útsvarsstofni, sbr. 2. gr.

Við 6. gr. er lagt er til að 2. mgr. orðist svo: „Framangreind gjöld hlíta sömu reglum og útsvör eftir því sem við getur átt nema annars sé getið, þ. á m. um kærur og úrskurð þeirra. Um gjalddaga, ábyrgð kaupgreiðenda á gjöldum, innheimtuúrræði, þ. á m. tilkall innheimtumanns til greiðslu úr kaupi gjaldþegns og ábyrgð hjóna á gjöldum hvors annars, svo og um dráttarvexti og innheimtu að öðru leyti skulu gilda ákvæði XIII. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Gjöld þessi og dráttarvextir eru lögtakskræf samkv. lögum nr. 29/ 1985.“

Þá er enn fremur lagt til að 3. mgr. 6. gr. orðist svo: „Að lokinni álagningu gjalda samkv. l. kafla laga þessara getur sóknarnefnd ákveðið, að fenginni umsögn gjaldanda, að lækka eða fella niður álögð gjöld samkv. lögum þessum þegar svo stendur á sem greinir í 27. gr. laga nr. 73/1980. Á sama hátt getur stjórn skráðs trúfélags eða ríkisskattstjóri lækkað eða fellt niður álögð gjöld sem um er rætt í II. kafla laga þessara.“

Ég vil taka fram að þarna stendur innan sviga „háskólaráð“. Þar urðu mistök í handriti. Það er ljóst að þó að þeir sem eru utan þjóðkirkju eða safnaða skuli greiða til Háskólasjóðs hefur háskólaráð ekkert með það að gera og er eðlilegast að ríkisskattstjóri sinni þá þeim, sem óska eftir að það verði fellt niður, eftir ákveðnum reglum. Að sjálfsögðu gilda sömu reglur og um önnur gjöld varðandi niðurfellingu ellilífeyrisþega og annarra aðila, en þarna er um að ræða einhver sérstök tilvik og er eðlilegast að ríkisskattstjóri ákveði það.

Þá er brtt. við 7. gr. Greinin orðist svo: „Innheimtumenn ríkissjóðs skulu annast innheimtu gjalda samkv. lögum þessum. Innheimtuþóknun skal vera 1% og rennur hún í ríkissjóð. Ríkissjóður skal ársfjórðungslega standa sóknarnefndum og öðrum þeim, sem gjald á að renna til, skil á innheimtu gjaldi samkv. lögum þessum.“

Loks er lagt til að aftan við 9. gr. bætist: „og að höfðu samráði við fjmrn. varðandi atriði er snerta framkvæmd álagningar eða innheimtu.“

Það hafa áður komið fram brtt. við þetta, en þær snerta ekki beinlínis það sem hér er um að ræða, og einnig hefur hv. 3. þm. Norðurl. v. lagt fram brtt. sem hann hefur gert grein fyrir.

Það hefur verið mikið fjallað um þessi mál og ég vænti þess að hér komi till. um ákvæði til bráðabirgða um innheimtuna. Það eru alltaf viðkvæm mál og þarf að ganga svo frá að það rekist ekki á önnur lög eða reglur sem um það gilda, en væntanlega verður nánari grein gerð fyrir því hér á eftir.

Ég hef þá lokið að gera grein fyrir þessum brtt. og orðalagstill. sem komu eftir að umr. hófst, en eins og ég tók fram í upphafi eru þær frá fjmrn. Hefði verið æskilegt að þær till. hefðu komið fram fyrr. Þetta mál hefur tafist allmikið, en ég vænti þess að það eigi nú greiða leið áfram.