22.04.1985
Efri deild: 58. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4419 í B-deild Alþingistíðinda. (3705)

98. mál, sóknargjöld

Landbrh. (Jón Helgason):

Virðulegi forseti. Í 4. brtt. hv. menntmn. er lagt til að innheimtumenn ríkissjóðs skuli annast innheimtu gjalda samkv. lögum þessum. Þess vegna vil ég leyfa mér að bera fram brtt. Hún er þannig, að ákvæði til bráðabirgða orðist svo:

„Á meðan innheimtumaður ríkissjóðs nýtur óbreyttra lögkjara samkv. bráðabirgðaákvæði laga nr. 41/1984 skal innheimtuþóknun samkv. 2. málsl. 7. gr. laga þessara renna til innheimtumanns.“

Þegar kjör innheimtumanna ríkissjóðs voru sett undir Kjaradóm höfðu þeir heimild til að velja hvort þeir færu þá leið að halda þeim kjörum, sem þeir höfðu haft, næstu árin eða til 1990. Til þess að samræmi sé í því, þannig að þessi innheimta falli á sama hátt undir það bráðabirgðaákvæði, er þessi brtt. flutt.