30.10.1984
Sameinað þing: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

79. mál, raforkuverð á Íslandi

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 81 leyft mér að leggja fram svohljóðandi fsp. til hæstv. iðnrh. um könnun á raforkuverði á Íslandi:

„1. Hverjar eru niðurstöður nefndar þeirrar er kanna skyldi verðmyndun á raforku hér á landi í samræmi við ályktun Alþingis frá 22. mars 1984?

2. Hverjir áttu sæti í nefndinni?

3. Með hverjum hætti verða niðurstöður hennar kynntar almenningi?“

Ég hygg, herra forseti, að það sé óþarfi að hafa um þetta fleiri orð. Þetta er einföld og skýrt afmörkuð fsp. í beinu framhaldi af ályktun Alþingis frá 22. mars fyrr á þessu ári.