22.04.1985
Neðri deild: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4425 í B-deild Alþingistíðinda. (3720)

423. mál, viðskiptabankar

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég var kominn þar í ræðu minni þegar umræðu um þetta mál var frestað fyrir nokkrum dögum að ég hafði gert grein fyrir athugasemdum fulltrúa Alþb. í bankamálanefndinni, Lúðvíks Jósepssonar, við þetta frv. eins og það liggur hér fyrir. Ég vil þá næst víkja, herra forseti, að almennum atriðum varðandi þetta frv. og vil þá fyrst segja að ég tel frv. illa fram lagt af hæstv. ríkisstj. Því fylgja engar upplýsingar um þróun bankakerfisins hér á landi á undanförnum árum og áratugum. Því fylgja engar upplýsingar um starfsmannafjölda í bankakerfinu og hvernig það hefur þróast á undanförnum árum. Því fylgja engar upplýsingar um kostnað við að reka bankakerfið á Íslandi í samanburði við bankakerfið í grannlöndum okkar. Yfir höfuð er ekki að finna í fylgiskjölum þessa frv. neinar upplýsingar um kostnaðinn við bankakerfið í heild og umfang þess. Þetta vil ég leyfa mér að gagnrýna og tel að frv. sé af þessum ástæðum, þó ekki komi fleira til, illa fram lagt.

Í annan stað vil ég gagnrýna það að ríkisstj. skuli ekki nú þegar hafa sýnt hér hugmyndir sínar og tillögur um breytingar á seðlabankalögunum. Eins og kunnugt er hefur verið starfað að endurskoðun seðlabankalaganna nú um nokkurt skeið samhliða frv. um viðskiptabanka. Engar upplýsingar hafa komið fram um það hvenær þetta frv. um Seðlabankann er væntanlegt hér inn í þingið. Ég hefði talið til bóta að hæstv. ráðh. hefði látið tillögur nefndarinnar fylgja með þessu frv. þannig að unnt hefði verið að átta sig á vilja ríkisstj. varðandi breytingu á seðlabankalögunum. Seðlabankalögin eru stofnlög bankamála í landinu og ég vil lýsa því yfir af minni hálfu að ég tel ótækt með öllu að afgreiða þetta frv. um viðskiptabankana öðruvísi en upplýsingar liggi fyrir um það hvernig ríkisstj. ætlar að fara með seðlabankalögin.

Ég vil nefna þessi atriði, herra forseti, og í þriðja lagi benda á að bankamálanefndin skilaði af sér fyrir einu ári eða svo. Eftir að bankamálanefndin skilaði af sér var þetta frv. sent öllum viðskiptabönkunum og Seðlabankanum og jafnvel fleiri aðilum til umsagnar. Ég hefði talið eðlilegt að prenta með þessu frv. sem fskj. umsagnir allra viðskiptabankanna og Seðlabankans og auðvitað hefði verið eðlilegt og sjálfsagt að ríkisstjórnin hefði gert grein fyrir því í grg. frv., lið fyrir lið, jafnvel þó í smáatriðum væri, hvaða atriði það eru sem ríkisstjórnin sjálf hefur breytt frá tillögum bankamálanefndarinnar. Það eru nokkur atriði sem ríkisstjórnin hefur greinilega breytt frá tillögum bankamálanefndarinnar. Sum þeirra liggja í augum uppi ef maður fer nákvæmlega í saumana á þessu frv. Önnur þyrfti í raun og veru að skýra betur hér strax við 1. umr. áður en málið fer til nefndar.

Þessi almennu gagnrýnisatriði vil ég láta koma hér fram til viðbótar því sem ég nefndi á síðasta fundi þegar hv. deild fjallaði um þetta mál, sem er það að í frv. er hvergi í raun og veru tekið á skipulagsmálum bankastarfseminnar í landinu. Það eru engar tillögur uppi um beina fækkun bankanna. En ég hefði talið eðlilegt að í slíku frv. hefði verið bein tillaga um fækkun ríkisviðskiptabankanna úr þremur í tvo. Gagnvart þessu atriði skilar ríkisstjórnin auðu. Þar er um að ræða uppgjöf í þessu máli, eins og reyndar oft og iðulega áður, þegar um þessi bankamál hefur verið fjallað.

Ég vil þessu næst, herra forseti, víkja með nokkrum athugasemdum að ýmsum greinum frv. og þá fyrst að 1. gr. þess. Í 1. gr., 2. málsgr., segir svo: „Einungis hlutafélögum er heimilt að reka aðra viðskiptabanka en ríkisviðskiptabanka. Ákvæði laga um hlutafélög gilda um hlutafélagsbanka nema annað sé boðið í lögum þessum.“ Ég spyr hæstv. viðskrh.: Hvaða ástæða er til þess að banna banka í eigu samvinnufélaga? Hvaða rök eru fyrir því að samvinnufélög megi ekki eiga banka? Það kemur mér nokkuð spánskt fyrir sjónir að af hálfu ríkisstjórnar sem er undir forustu Framsfl. skuli það beinlínis vera tekið hér fram fullum fetum að samvinnufélögum er bannað að eiga banka. Það er ekki nýtt að þessi ríkisstjórn mismuni samvinnuhreyfingunni. Það gerðist á s. l. ári í frv. til laga um skattfrelsi fyrirtækja sem einungis gat náð til hlutafélaga. Hér er vegið í sama knérunn. Ég vil spyrja hæstv. viðskrh. hvort hér sé eingöngu um að ræða pólitískar kredduástæður Sjálfstfl. sem þessu ráða eða einhver önnur tæknileg rök.

Í öðru lagi vil ég víkja aðeins að 2. gr. frv. sem hv. 3. þm. Reykn. ræddi ítarlega í máli sínu hér á dögunum. Spurningin er: Hvaða bankar eru það sem eiga að hafa ríkisábyrgðir og hverjir ekki? Er ástæða til þess að ríkisviðskiptabankarnir einir hafi slíkar ábyrgðir, eða eiga hlutafélagabankarnir eða aðrir bankar að geta keypt sér ríkisábyrgðir eða tryggt sig með einhverjum hætti? Ég hef heyrt það sjónarmið að eðlilegt sé að aðrir bankar en ríkisviðskiptabankarnir gætu keypt sér ábyrgðir, jafnvel hjá ríkissjóði. Þá spyr ég: Að hve miklu leyti eru þessir bankar þá orðnir einkabankar? Að hve miklu leyti eru þeir í raun og veru orðnir á ábyrgð þeirra sem eiga þessa banka og stofna þá ef ríkið ábyrgist þá ef illa fer? Með því að gera kröfu um að ríkið ábyrgist einkabanka eða hlutafélagabanka eru menn í raun og veru að viðurkenna að enginn geti rekið banka nema ríkið. Og það er sjónarmið út af fyrir sig sem mér finnst full ástæða til að hafa í huga.

Ég held að í þessum efnum komi margt til greina. En ég segi að ef það er ætlunin að tengja hlutafélagabankana með einhverjum hætti við ríkið í gegnum ábyrgðir þá er óhjákvæmilegt að viðskrh. tilnefni mann í bankaráð annarra banka líka. Ég held að það sé útilokað að ætlast til þess að ríkið beri ábyrgð á skuldbindingum hlutafélaga- og einkabanka öðruvísi en að ríkið eigi þá beina aðild að stjórn viðkomandi banka. Ég tek hins vegar undir það með hv. 3. þm. Reykn. að hér er um að ræða vandamál, vandamál sem annars vegar snýst um ákveðna mismunun á milli banka og bankategunda og hins vegar vandamál sem snýr að þeirri einföldu staðreynd að það er erfitt fyrir nokkurn aðila hér á Íslandi annan en ríkissjóð að ábyrgjast hluti af þessum toga. Og ég læt það koma fram sem mína skoðun að ég tel það óhjákvæmilegt að við frágang á þessu frv. verði þannig um hnútana búið að hagsmunir sparifjáreigenda, þ. e. þeirra smærri, verði í meginatriðum eins vel tryggðir og kostur er, en það tel ég ekki vera með þessu frv. eins og það hér liggur fyrir.

Ég vil þá næst, herra forseti, víkja aðeins að 3. gr. frv. Þar er um að ræða hefðbundið ákvæði um ríkisviðskiptabanka á þá leið að heimili og varnarþing þeirra skuli vera í Reykjavík. Ég vil spyrja: Stjórnar því eitthvað annað en vanahugsun að heimili og varnarþing viðskiptabanka skuli vera í Reykjavík? Eru einhver önnur rök fyrir því? Er ekki hugsanlegt að heimili og varnarþing ríkisviðskiptabanka sé í Kópavogi, svo ég nefni dæmi úr kjördæmi hæstv. viðskrh.? En í fullri alvöru spyr ég: Er nokkur ástæða til að binda þetta svona í lögum? Er ekki full ástæða til þess að hver ríkisviðskiptabanki ráði þessu í raun og veru sjálfur?

Ég kem þá hér næst að 5. gr. frv. en það er fjórða athugasemd mín við einstakar greinar frv. Hér er farið inn á þá braut að skv. þessari grein verður hægt að mynda hlutafélagabanka án þess að sett verði nein sérstök sérlög um það og um hlutafélagabanka gildi þá aðeins hin almennu lög um hlutafélög, þó með þeim takmörkunum sem gert er ráð fyrir í 7. gr. þar sem segir að viðskrh. eigi jafnan að veita bönkum starfsleyfi. Ég tel að með þessu móti sé verið að opna fyrir aukna útþenslu í bankakerfinu hér á landi. Ég sé engin rök fyrir nauðsyn þessa. Ég tel eðlilegra að Alþingi taki um það ákvörðun með lögum þegar bankar eru stofnaðir heldur en að það gerist með þeim hætti sem hér er lagt til. Ég tel sem sagt eðlilegra að það gerist með sérlögum hverju sinni þegar löggjafarvaldið telur nauðsynlegt að stofna nýja banka í landinu. Og hefði ég nú talið að það væri þörf á ýmsu öðru um þessar mundir.

Mér finnst það athyglisvert að í síðustu málsgr. 5. gr. er gert ráð fyrir því að hlutafé hlutafélagsbanka skiptist í a. m. k. 50 hluti og nemi 100 millj. kr. Ef það er ætlun ríkisstjórnarinnar að hafa þessa viðmiðun þá er auðvitað sjálfsagt að það sé tekið fram að hún skuli fylgja einhverri vísitölu í samræmi við verðþróun. Þetta er ekki fullnægjandi frágangur á málsgreininni eins og hún þarna er.

Við 6. gr. frv. er fimmta athugasemdin sem ég ætla að gera, herra forseti, og hún lýtur að 1. málsgr. 6. gr. Þar segir, með leyfi forseta: „Engar hömlur má leggja á viðskipti með hluti í hlutafélagsbanka.“ Hér er í raun og veru verið að segja að um þetta skuli gilda alveg sömu lög og reglur og með hluti í hlutafélögum almennt. Ég held að þessi málsgr. orki tvímælis að því er varðar banka. Tökum Alþýðubankann sem dæmi. Alþýðubankinn er stofnaður af verkalýðshreyfingunni og í reglum Alþýðubankans eru ákveðin ákvæði sem takmarka heimildir til þess að láta hluti af hendi. Ég tel að það eigi að vera möguleiki til slíkrar takmörkunar þegar um er að ræða stofnaðila viðkomandi banka. Ég vil biðja hæstv. viðskrh. að hugleiða hvort ekki er hægt að koma slíku ákvæði þarna við, þó að það sé aðalregla að engar hömlur megi leggja á viðskipti með hluti í hlutafélagsbanka.

8. gr. þessa frv. er sú næsta sem ég kem að og það vekur athygli mína að Landsbankinn sendir umsögn til hæstv. ríkisstj. um þessa grein og segir orðrétt: „Í henni felast ekki tillögur um róttæka nýjung í bankastarfsemi.“ Landsbankinn fullyrðir sem sagt að það sé heimilt nú þegar að starfrækja umboðsskrifstofur erlendra banka hér á landi. Ég held að rétt sé að fara fram á það við hæstv. viðskrh. að hann greini frá því hvort hann er sammála þessu sjónarmiði Landsbankans, að í gildandi lögum séu í raun og veru þegar heimildir fyrir erlenda banka til þess að starfrækja umboðsskrifstofur hér á landi. Ég er viss um að hæstv. viðskrh. hefur lesið samviskusamlega umsögn Landsbankans eins og umsagnir annarra banka. Þar kemur þetta fram og ég vil biðja hæstv. ráðh. að athuga þetta mál og fara yfir það þegar hann svarar hér þeim athugasemdum sem fram kunna að koma í þessum umræðum.

Ég er andvígur þessari 8. gr. og mun greiða atkvæði á móti henni vegna þess að hér er verið að stíga fyrsta skrefið til þess að heimila erlendum bönkum að starfa á Íslandi. Hér er verið að opna fyrir það og ég tel að það sé óeðlilegt og hættulegt í rauninni með tilliti til þess hvað bankastarfsemin er mikilvægur þáttur í efnahagslegu forræði landsmanna sjálfra. Ég sé ekki heldur að það séu nein rök fyrir því að opna landið fyrir erlendum bönkum eins og hér er lagt til. Ég sé engin rök fyrir því. Og ég vil spyrja hæstv. viðskrh.: Hafa einhverjir erlendir bankar þegar kvatt hér dyra og beðið um heimild til þess að fá að starfrækja umboðsskrifstofur hér á landi? Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðh., vegna ummæla sem fram koma í grg. þessa frv.: Eftir hvaða reglum ætlar hann að láta þessar erlendu umboðsskrifstofur starfa? En í 2. málsgr. segir: „að öðru leyti setur ráðherra nánari reglur um starfsemi þeirra að fengnum tillögum bankaeftirlitsins.“ Það er nauðsynlegt að fá það fram áður en málið fer í nefnd hér í hv. deild hvaða hugmyndir hæstv. ráðh. er með um starfsreglur fyrir þessar erlendu umboðsskrifstofur.

Ég vík þá næst, herra forseti, að áttundu athugasemd minni við einstakar greinar frv. Hún er við 9. gr. þar sem fjallað er um bankaráð. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Yfirstjórn ríkisviðskiptabanka er í höndum viðskrh. og bankaráða svo sem fyrir er mælt í lögum þessum.“ Síðan er talið upp hverjir eru í bankaráðum og hvernig þeir eru kosnir. Með tilliti til þess að þarna er lagt til að Alþingi kjósi bankaráð tel ég eðlilegt að taka það fram í greininni að bankaráðum sé skylt að senda Alþingi skýrslur um starfsemi sína á ári hverju með svipuðum hætti og Framkvæmdastofnun er skylt að senda hér inn slíkar upplýsingar. Ég held að það eigi beinlínis að taka það fram í þessari grein að bankaráðin eigi að gefa Alþingi skýrslu, eða kannske öllu heldur, svo að rétt boðleið sé farin, að bankaráðin sendi viðskrh. skýrslu sem hann síðan leggi fyrir Alþingi. Úr því að Alþingi er að kjósa bankaráðin, sem mér finnst alveg sjálfsagt, held ég að nauðsynlegt sé að skýrslur um starfsemi þeirra komi til umræðu hér á Alþingi. Ég mun flytja tillögu um það efni, herra forseti, þegar málið kemur hér til lokameðferðar. Það skapar betra aðhald að bönkunum en nú er, skapar möguleika fyrir efnislega og málefnalega umræðu hér í þinginu um bankamál. Þess vegna held ég að þetta væri heppileg tillaga.

Í 10. gr., sem er til bóta, segir svo: „Ráðherra getur hvenær sem er krafið bankaráð upplýsinga um rekstur og hag bankans.“ Svo undarlegt sem það nú er þá er þessi grein nýmæli í íslenskri bankalöggjöf. Í athugasemdum Landsbankans við frv. kemur það fram að bankinn telur þessa grein óþarfa vegna þess að viðskrh. hafi þegar allar heimildir til að gera kröfur í þessu efni. Ég efa út af fyrir sig ekki að það sé rétt, en hitt er ljóst að þessi grein gefur ráðherra aukna möguleika til þess að knýja fram upplýsingar frá bönkunum. Ég vil hins vegar bæta því við sem ábendingu frá minni hálfu að ég tel eðlilegt að inn í þetta sé því bætt að Alþingi eða meiri hluti Alþingis geti einnig hvenær sem er krafið ríkisviðskiptabanka um upplýsingar um rekstur hans. Ég geri ráð fyrir því að þessari athugasemd minni yrði svarað af t. d. Landsbankanum með svipuðum hætti og sagt sem svo: Alþingi getur þetta í raun og veru hvort eð er. Það má til sanns vegar færa. En með því að hafa það afdráttarlaust í lögum að Alþingi geti krafið ríkisviðskiptabanka um upplýsingar er verið að opna þarna leið sem yrði frekar notuð ef hún er tekin fram beinlínis í lögum.

Í 11. gr. er gert ráð fyrir því að bankastjórar verði ekki ráðnir til lengri tíma en sex ára í senn. Ég tek undir þessa tillögu. Ég tel að hún sé skynsamleg. Og ég er reyndar þeirrar skoðunar að þessi regla ætti að gilda um alla yfirmenn ríkisstofnana og að það ætti að framkvæma hana, ekki ráða menn aftur og aftur heldur setja sér þá reglu að framkvæma slíka endurnýjunarreglu í bankakerfinu.

Ég vil aðeins víkja hér að 12. gr. í sambandi við laun og önnur ráðningarkjör bankastjóra sem áður hefur verið rætt um á Alþingi. Ég held að það væri heppilegra að Kjaradómur fjallaði um laun og ráðningarkjör bankastjóra. En ef það er ekki Kjaradómur þá teldi ég hins vegar hugsanlegt að kveða á um það í lögum að bankastjórar hafi laun sem eru einhverjum tilteknum prósentum hærri en næst skv. samningum Sambands íslenskra bankamanna þannig, að þessi kaleikur sé a. m. k. frá bankaráðunum tekinn. Ég minni í þessu sambandi á frv. hv. þm. Skúla Alexanderssonar um þetta efni sem liggur fyrir Ed. og minni á það sem ég sagði við umræðu um þetta mál í þinginu fyrir nokkrum vikum. Ég tel að þetta atriði eigi ekki að geyma þangað til bankafrv. er afgreitt í heild heldur eigi að taka þetta ákveðna atriði út.

Ég vísa algjörlega á bug ummælum þeim sem hér féllu hjá hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni og hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur um Kjaradóm í sambandi við þetta mál. Ég tel að Kjaradómur sé þannig staddur að það væri að mörgu leyti mjög eðlilegt að hann fengi þessi mál til meðferðar. En mest er um vert að meiri hluti Alþingis, ef eitthvert mark er takandi á mönnum hér, meiri hluti Alþingis er sammála um að taka ákvörðunarvald um laun og launakjör bankastjóra af bankaráðunum. Ég hef ekki heyrt annað en allir þingflokkar, nema e. t. v. þingflokkur Sjálfstfl., hafi tekið af skarið í þessu efni. Og ég vil í tilefni af þessari umræðu spyrja hæstv. viðskrh. sérstaklega og formann Sjálfstfl. sem var formaður þessarar bankamálanefndar síðast: Hver er afstaða Sjálfstfl. í þessum efnum? Er hann tilbúinn að taka undir það að ákvörðunarvald í þessum efnum verði tekið af bankaráðunum? Það er kjarni þessa máls.

Ég vil einnig í tilefni af umr. um inntak 12. gr. spyrja hæstv. ráðh.: Hvað um aðra starfsmenn bankanna? Það er hvergi í raun og veru minnst á aðra starfsmenn bankanna í þessu frv. Þó eru bankarnir ekki bara reknir með bankastjórum heldur kemur þar við sögu starfsfólk í stórum stíl þar fyrir utan sem allt veltur auðvitað á.

Kjör starfsmanna bankanna eru ákveðin í samningum með takmörkuðum verkfallsrétti og í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna er kveðið á um það að starfsmenn bankanna séu undanþegnir Kjaradómi og umfjöllun mála þar. Ég held að óhjákvæmilegt væri að taka hér upp ákvæði um starfsmenn bankanna og stöðu þeirra, hugsanlegan rétt þeirra og starfsmannaráð. Mig minnir að einhver hafi hér verið að tala um starfsmannaráð í bönkunum og mig minnir að einhver hafi verið að tala um það eða ég hafi jafnvel lesið það í blaði að einhverjir þm. Alþfl. hafi verið með sérstakan skæting um Lúðvík Jósepsson í tilefni af því að hann ha;i ekki staðið að tillögu varðandi starfsmannaráð í bönkunum. Ég verð nú að segja alveg eins og er að mér þykir þessi málflutningur þeirra þm. og málgagns Alþfl. gagnvart Lúðvík Jósepssyni hafa verið allsérkennilegur að undanförnu. En ummælin um afstöðu Lúðvíks til starfsmannaráða og upplýsingaskyldu bankanna, sem ég kem að síðar, eru alveg með endemum og eru að mörgu leyti þó í góðu samræmi við það sem oft kemur upp þegar verið er að reyna að finna höggstað á mönnum eins og Lúðvík Jósepssyni sem á þess ekki kost að bera hönd fyrir höfuð sér hér á hv. Alþingi.

Ég er þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að í ákvæðum laga séu reglur sem skapa starfsmönnum heimildir til þess og möguleika að hafa áhrif á starfskjör sín og starfsumhverfi eins og kostur er miðað við ákvæði laga um það hverjir eigi bankana. Það er álitamál hvort þessi ákvæði um starfsmannaráðin eigi að vera í þessum lögum eða öðrum lögum um starfsmenn bankanna. Nú man ég ekki svo glöggt hvernig lögum er háttað varðandi starfsmenn bankanna og kjarasamninga þeirra. En hugsanlegt er að það atriði kæmi þarna inn líka.

Ég vík þá næst, herra forseti, að 15. gr. frv. Þar segir: „Stjórn hlutafélagsbanka nefnist bankaráð. Bankaráðið fer með málefni hlutafélagsbanka milli hluthafafunda. Bankaráð hlutafélagsbanka skal skipað ekki færri en þremur mönnum og jafnmörgum til vara. Bankaráð skal kosið af hluthöfum á aðalfundi.“ Hver kýs formann bankaráðs? Það eru engin ákvæði um formann bankaráðs í þessu frv. Ég tel að það hljóti að vera mistök hjá rn. í þessu efni vegna þess að í frv. bankamálanefndarinnar, sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson var formaður fyrir, var gert ráð fyrir því að bankaráðið kysi sér formann ef ég man rétt. Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Hvernig stendur á því að þarna er ekki tekið fram hver kýs og hvernig verður til formaður bankaráðs? Einnig finnst mér það hæpið í lögum að takmarka fjölda manna í stjórn hlutafélagabanka við töluna þrjá. Mér finnst hugsanlegt að í bankaráði hlutafélagsbanka séu fimm. Ég minni á að í sumum þessara banka eru og hafa verið fimm bankaráðsmenn um langt skeið. Ég held að eðlilegt væri að þeir væru annaðhvort þrír eða fimm, en ekki sé verið að binda þetta eins og er gert í frv. eins og það kemur frá ríkisstj., af hvaða ástæðum sem það nú er.

Í síðustu málsgr. 15. gr. segir: „Aðalfundur hluthafa ákveður þóknun bankaráðsmanna og varamanna þeirra.“ Þetta eru aðalfundir hlutafélaganna sem eiga þessa banka. Þetta held ég að sé hæpið ákvæði. Ég held að það sé hæpið að aðalfundir hlutafélaganna séu að togast á um það hver þóknun þessara bankaráðsmanna er. Ég teldi langeðlilegast að taka það fram í lögum að þetta sé einfaldlega ákveðið hlutfall af einhverjum launaflokki, tengt einhverjum launaflokki sem samband bankamanna semur um. Það tel ég að ætti raunar líka að eiga við um bankaráðsmenn ríkisviðskiptabankanna. Það getur verið að þeirra kjör mundu eitthvað breytast við þá ákvörðun. Ég tel það út af fyrir sig ekkert gera til. Það væri eðlilegra að kjör bankaráðsmanna væru tengd beinlínis við samninga bankamanna.

Þá vil ég í tíunda lagi, herra forseti, víkja hér að 19. gr., þar sem fjallað er um starfslið bankanna, og endurtaka það sem ég sagði áðan almennt um starfsmenn bankanna en bæta við: Hvaða rök eru til þess að aðstoðarbankastjórar, útibússtjórar og forstöðumenn endurskoðunardeilda séu hér í lögum teknir út fyrir samningssvið Sambands íslenskra bankamanna? Hvaða ástæða er til þess? Nóg er nú að vera með bankastjórana eins og allir þekkja hvernig þeir hlutir hafa gengið fyrir sig, þó að ekki sé í beinum lagatexta verið að bæta hér við forstöðumanni endurskoðunardeildar, útibússtjórum og aðstoðarbankastjórum. Auðvitað eiga þessir menn að taka kaup með hliðsjón af samningum Sambands íslenskra bankamanna. Auðvitað á ekki að taka þá út úr í þessum efnum þannig að bankaráðin ákveði kaup þessara manna. Þetta er óheppilegt fyrirkomulag. Það elur á klíkuskap, alls konar klíkuskap og slæmu andrúmslofti gagnvart starfsmönnum bankanna að öðru leyti, og ýtir undir tortryggni gagnvart þeim. Það ýtir líka undir tortryggni þeirra gagnvart þessari valda„eilífu“ í hverjum banka, sem eru bankaráðin og þessir guðs útvöldu þjónar þarna, aðstoðarbankastjórinn, útibússtjórinn og forstöðumenn endurskoðunardeildar. Það á ekki að vera að búa til svona „plott“ í bönkunum. Það er óþarfi. Menn eiga ekki að vera að leika sér að þessu og ýta undir úlfúð og illindi, tortryggni og leiðindi. Menn eiga ekki að vera að því. Og ég sá enga tillögu frá Alþfl. um að breyta þessu, svo merkilegt sem það nú er.

Við 21. gr. frv. er ellefta athugasemdin sem ég ætla hér að gera. Ég tel að ákvæðin um starfssvið bankaráðanna séu til bóta. Þau eru til bóta vegna þess að núna eru engin eða mjög takmörkuð lagaákvæði til um starfssvið bankaráðanna, svo merkilegt sem það kann nú að virðast. Ég tel að þessi ákvæði um starfssvið bankaráðanna mættu gjarnan vera eitthvað ítarlegri og þá legg ég áherslu á þetta atriði sem ég nefndi áðan, að bankaráðin gefi Alþingi skýrslu eða gefi ráðherra skýrslu sem hann svo flytur til Alþingis.

En í 21. gr. er dæmi um litla orðalagsbreytingu sem rn. hefur smyglað inn á leiðinni frá bankamálanefndinni til Alþingis án þess að gera grein fyrir því. Þetta finna menn ef þeir lesa vandlega sína heimastíla. Þar stendur í næstsíðustu málsgrein þetta: „Bankaráð mótar almenna stefnu bankans í vaxtamálum og getur að fenginni umsögn bankastjórnar sett almennar reglur um lánveitingar bankans.“ Hvaða orð ætli það sé nú sem hafi laumast þarna inn á milli húss og bæjar, á milli bankamálanefndarinnar og Alþingis, fyrir milligöngu ríkisstj., hvaða orð ætli það sé? Það er orðið „almenna“, því hefur verið stungið þarna inn. Og af hverju var því stungið inn? Vegna þess að Landsbankinn gerði við þetta alvarlega athugasemd, taldi að ef þetta stæði eins og bankamálanefndin lagði til þá yrðu bankaráðin að grauta í stefnumótun bankanna í vaxtamálum í einstökum atriðum. Bankastjórarnir bentu á að það væri ekki hlutverk bankaráðanna að vera að því, og þess vegna teldum við til bóta, sögðu bankastjórar Landsbankans, að skjóta inn orðinu „almenna“ á undan orðinu stefnu í næstsíðustu málsgr. 21. gr. Og það var auðvitað gert. Þess vegna er þarna búið að draga úr þeim áhrifum sem bankaráðin eiga að geta haft í sambandi við stefnumótun í vaxtamálum. Ég tel að tillagan eins og hún kom frá bankamálanefndinni sem starfaði síðast hafi verið betri. Ég tel að þetta, að draga úr valdi bankaráðanna að þessu leytinu til, sé til bölvunar.

Í 22. gr. birtist partur af þessari frjálshyggjukreddu sem veður uppi um þessar mundir. Þar segir: „Við ákvörðun vaxta og þjónustugjalda er viðskiptabanka óheimilt að hafa samráð við aðrar innlánsstofnanir.“ Bankastjóri Alþýðubankans spurði í sinni athugasemd: Er bannað að tala við fólk? Hvað þýðir þetta í raun og veru? Hvernig ætlar ríkisstj. að framkvæma þetta? Ég óska eftir því að hæstv. viðskrh. geri grein fyrir því hvernig hann ætlar að tryggja það að menn komi sér ekki saman um ákvörðun þjónustugjalda bankanna. Ég held að það liggi alveg í augum uppi að bankarnir muni með einhverjum hætti koma sér saman um helstu þjónustugjöld í grófum dráttum. Ég vil hins vegar spyrja hæstv. ráðh. hvernig hann hugsi sér að koma í veg fyrir að bankarnir ákveði mjög svipuð þjónustugjöld við sína viðskiptamenn. Ég held að þessi grein, eins og hún stendur hér óútskýrð, sé í rauninni hálfgert rugl. Hérna eru menn að festa á blað frómar óskir í samræmi við niðurstöður Sjálfstfl., en í rauninni er hér ekkert um það hvernig þetta á að gerast. Hér eru komin þessi frjálshyggjutrúarbrögð sem er verið að troða hér inn í lagatexta í alls konar frv. út og suður að undanförnu og nær hápunkti í því að samvinnufélögum er bara byggt út úr þessu frv., en það er nú kapítuli út af fyrir sig

Ég vík þá næst, herra forseti, að 26. gr. þessa frv. en það er 14. athugasemd mín við einstakar greinar frv. Þar segir í 2. málsgr.: „Viðskiptabönkum og öðrum, sem til þess hafa sérstaka lagaheimild, er einum heimilt að auglýsa eða bjóðast til með öðrum hætti að taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar.“ Hvaða áhrif hefur þetta á starfsemi ýmissa skrifstofa sem hafa verið að rísa upp hér að undanförnu í landinu og auglýsa að þær taki að sér ávöxtun á peningum fyrir fólk? Á grundvelli hvaða laga starfa þær stofnanir? Ég er hér að tala um fjárvörslu svokallaða sem hefur verið auglýst í blöðum á vegum Kaupþings. Og ég er hér að tala um hliðstæða starfsemi sem hefur verið auglýst í blöðum á vegum Fjárfestingafélagsins. Ég hygg að í rauninni sé engin lagaheimild fyrir þessari starfsemi. Ég spyr ráðherra að því, telur hann að lagaheimild sé fyrir þessari starfsemi? Er það í raun og veru ekki alveg ótvírætt eftir orðanna hljóðan hér að það eru viðskiptabankarnir og aðrir, sem til þess hafa sérstaka lagaheimild, sem mega stunda svona starfsemi, taka við innlánum og lána út peninga? Er það ekki alveg ótvírætt að með þessu er ráðherra að segja að starfsemi Kaupþings og annarra slíkra stofnana sé ólögleg? Er ekki verið að segja það að starfsemi Kaupþings og annarra slíkra stofnana sé með öllu ólögleg? Ég vona að hæstv. ráðh. treysti sér til að taka alveg af skarið í þessu efni.

Ég vil þá næst víkja hér að 36. gr. frv. Það er í raun og veru sú grein sem hefur í för með sér mestar breytingar á uppbyggingu bankakerfisins í landinu af þeim tillögum sem hér eru inni. Það er greinin sem fjallar um eigið fé bankanna: „Eigið fé viðskiptabanka að meðtöldum 3/4 hlutum andvirðis skuldabréfa skv. 30. gr. má á hverjum tíma eigi vera lægra en sem svarar 5% af niðurstöðutölu efnahagsreiknings bankans.“ Ég spyr ráðherra og ég óska eftir að upplýsingar um það komi fram hér við 1. umr. málsins: Hvernig er þessi staða hjá einstökum bönkum í dag? Hvert er eiginfjárhlutfall Landsbankans, Útvegsbankans, Búnaðarbankans, Iðnaðarbankans, Samvinnubankans og Alþýðubankans miðað við þessa grein? Hversu margir bankar uppfylla nú þau skilyrði sem hér eru sett? Ég held að það sé óhjákvæmilegt að fá um það upplýsingar vegna þess að í frv. er gert ráð fyrir því að ráðherra þurfi ekki lengur að heimila bankaútibú heldur gerist það eftir almennum reglum og þær reglur taka mið af eiginfjárstöðu bankanna. Ég vil bæta því við og spyrja ráðh.: Hvaða bankar eru það sem gætu ekki stofnað útibú eftir orðanna hljóðan hér? Ég hef grun um það að þessi regla sé svo rúm og svo loðin að í rauninni geti allmargir bankar stofnað ný útibú þó að þessi grein sé framkvæmd. Það væri fróðlegt að vita hvaða bankar það eru sem geta stofnað ný útibú skv. þessari grein og þannig orðið til þess að auka þensluna í bankakerfinu eftir að þetta frv. yrði samþykkt.

Við 40. gr. frv. hef ég sömu athugasemd að gera og áður. Næstsíðasta málsgrein 40. gr. er um að þóknun skoðunarmanna hlutafélagsbanka sé háð samþykki aðalfundar að fengnum tillögum bankaráðs. Slík atriði held ég að eigi öll að vera skv. kjarasamningum.

Ég hef þá farið hér, herra forseti, yfir 20 athugasemdir við þetta frv. Þetta er viðamikið frv., það telur samtals um 60 greinar með ákvæðum til bráðabirgða og er vafalaust eitt af stærri málum sem hér hafa komið fyrir þessa deild, a. m. k. það sem af er árinu 1985. Ég vil þessu næst víkja að þremur atriðum í grg. frv. Það er fyrst þar sem stendur að ríkisstj. hafi lýst því yfir að hún hyggist láta endurskoða reglur um beina lántöku fyrirtækja erlendis án ríkisábyrgðar. Ég vil spyrja ráðh.: Hvar eru þessar tillögur á vegi staddar, þessar endurskoðuðu reglur um heimild til lántöku fyrirtækja erlendis án ríkisábyrgðar? Hvar er þetta nákvæmlega á vegi statt? Ég vil einnig endurtaka spurningu mína til hæstv. ráðh. um þær reglur sem hann hyggst setja fyrir hinar erlendu umboðsskrifstofur.

Á bls. 14 í grg. frv. segir svo, með leyfi forseta: „Jafnframt hafa tvö sjónarmið verið sett fram í nefndinni um fækkun og sameiningu ríkisviðskiptabanka. Annars vegar er um innbyrðis sameiningu tveggja ríkisviðskiptabanka að ræða en hins vegar sameiningu ríkisviðskiptabanka og hlutafélagsbanka.

Nefndin gerir ekki tillögur um með hvaða hætti þetta skuli gert en meiri hluti nefndarinnar telur ... að það mundi flýta fyrir framgangi málsins að ráðherra hefði forgöngu um tæknilega útfærslu sameiningar sem leggja mætti fyrir Alþingi í frumvarpsformi þegar þing kemur saman í haust.“

Og í grg. kemur fram að Gylfa Þ. Gíslasyni fyrrverandi ráðh., Birni Líndal og Sigurgeiri Jónssyni hefur verið falið að gera tillögur um þessa tæknilegu sameiningu. Ekki tók ég eftir því að ráðherra gerði í máli sínu hér á dögunum grein fyrir því hvernig hann vildi að þessari tæknilegu sameiningu yrði háttað. Ég held hins vegar að það sé nauðsynlegt til að hægt sé að ræða þetta mál nánar að fram komi hvað ráðherra hyggst leggja áherslur á í þeim efnum.

Þá vil ég víkja hér að nokkuð öðru atriði. Fyrir Ed. liggur frv. um stórfelldar breytingar á bankakerfinu, 217. mál, flutt af Eyjólfi Konráði Jónssyni og Valdimar Indriðasyni, breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands sem þm. annars stjórnarflokksins eru að gera tillögur um uppi í Ed. Er ráðherra hlynntur þessu frv.? Er samstaða um það í ríkisstj. að keyra þetta frv. í gegnum þingið án þess að hafa séð frv. til seðlabankalaga og jafnvel án tillits til þess hvernig þessu máli reiðir af sem hér er á dagskrá?

Þessu næst vil ég víkja að upplýsingaskyldu banka og annarra innlánsstofnana. Á þinginu 1978 flutti Kjartan Ólafsson frv. til laga um upplýsingaskyldu banka og annarra innlánsstofnana og lagði það fyrir hv. Nd. Þetta frv. var fellt hér í Nd. með 17:16 atkv. Í því var gert ráð fyrir veigamiklum breytingum á starfsemi bankanna þannig að almenningur ætti þess kost að kynna sér betur en nú er og hafa eftirlit með útlánum lánastofnana. Í 2. gr. frv. sagði svo:

„Bankar, sparisjóðir, fjárfestingarlánasjóðir og aðrar lánastofnanir skulu birta opinberlega lista yfir öll veðlán, sem veitt hafa verið á liðnu ári, einnig hvers konar útlán, sem nema hærri fjárhæð en 4 millj. kr. og veitt eru til lengri tíma en tveggja ára, ásamt upplýsingum um nöfn lántakenda, lánskjör og yfirlýstan tilgang lánanna. Þá skal einnig birta lista yfir einstaklinga, félög og stofnanir sem skulda við áramót meira en 6 millj. kr. í viðkomandi stofnun.

3. gr. Útlánalistinn skal lagður fram í afgreiðslu stofnunarinnar áður en liðinn er fyrsti mánuður næsta árs og afhentur hverjum sem vill gegn hæfilegri þóknun sem svarar til kostnaðar við prentun“, eins og það er orðað hér.

Eins og ég sagði áðan þá var þetta frv. flutt á þinginu 1978 af hv. þm. Kjartani Ólafssyni og það var fellt við atkvgr. í Nd. með 17:16 atkv.

Ég vil láta það koma hér fram að ég mun við meðferð þessa máls hér í hv. deild flytja frv. um svipað efni og láta á það reyna hvort þm. eru tilbúnir til þess að opna bankana fyrir eftirliti almennings frekar en nú er.

Að lokum ætla ég að draga saman fáein atriði úr máli mínu, herra forseti, og segja þetta: Í frv. er ýmislegt sem er til bóta frá tæknilegu sjónarmiði séð og ég hef nefnt sumt af því. En gallarnir liggja í augum uppi og þeir eru þessir:

1. Frv. mun hafa í för með sér, ef samþykkt verður, fjölgun hlutafélagabanka.

2. Frv. mismunar rekstrarformum og er gegn samvinnufélagabönkum.

3. Frv. opnar fyrir svo að segja fullt frjálsræði, eins og það er kallað, um stofnun nýrra útibúa.

4. Í frv. felst fyrsta skrefið til að hleypa erlendum bönkum inn í landið.

5. Í frv. er gert ráð fyrir því að bönkum verði heimilað að vasast í alls óskyldum atvinnurekstri, gjörsamlega óskyldum atvinnurekstri, eiga hlutabréf í fyrirtækjum sem eru í almennum atvinnurekstri af ýmsu tagi. Ég vil lýsa fullum fyrirvara við það ákvæði.

6. Ég tel það galla að það er óljós skilgreining á eigin fé banka í frv. Ég óttast að sú takmörkun sem þar er um að ræða hafi lítil áhrif í þá átt að takmarka útibú.

7. Ég er andvígur því ákvæði frv. að vextir verði algjörlega gefnir frjálsir. Ég tel að það sé hættulegt. Ég tel að blind samkeppni milli lítilla innlánsstofnana geti stofnað sparifé almennings í verulega hættu vegna þess að þessar litlu stofnanir hafa lítil eða engin tök á að tryggja fé þessa fólks.

8. Í frv. er lokað fyrir upplýsingaskyldu bankanna. Ég endurtek það sem ég sagði um frv. Kjartans Ólafssonar í þeim efnum: Einhver slík ákvæði verða að koma þarna inn.

9. Í frv. er ekki tekið á skipulagsmálum bankanna í heild og fækkun viðskiptabanka í eigu ríkisins er ekki á dagskrá með afgerandi hætti skv. þessu frv.

10. Hvergi er tekið á Seðlabankanum enda er ekkert frv. komið fram. Seðlabankinn er kominn langt út fyrir eðlileg takmörk, hann er að vasast í alls konar viðskiptabankastarfsemi. Það á að skera starfsemi hans niður. Það er í rauninni vonlaust að ræða um þessi mál í heild öðruvísi en að seðlabankafrv. liggi fyrir.

11. Ég tel að þetta frv., ef að lögum verður, stuðli að stjórnleysi í banka- og peningamálum, það stuðli að fjölgun bankaútibúa, fjölgun banka, glórulausri samkeppni um vexti, og í þessu frv. kemur fram mjög víða vantrú á lýðræðið vegna þess að menn ætla í vaxandi mæli að láta fjármagnið ráða ferðinni. Í því felst vantrú á lýðræðið.

12. Ég tel að það sé verulegur tæknilegur galli í framlagningu þessa frv. þar sem fylgiskjöl og upplýsingar vantar eins og ég rakti í upphafi máls míns. Þetta er hins vegar stórt mál sem er allrar athygli vert og það er eðlilegt og nauðsynlegt að þm. setji sig vel inn í þetta mál og það fái vandaða afgreiðslu hér á hv. Alþingi.