22.04.1985
Neðri deild: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4435 í B-deild Alþingistíðinda. (3721)

423. mál, viðskiptabankar

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að segja nokkur orð um þetta frv. til laga um viðskiptabanka nú við 1. umr. áður en málið fer til umfjöllunar í nefnd.

Þó vissulega megi segja að í þessu frv. megi finna mörg ákvæði, sem eru til bóta frá því sem nú er, þá er þó að finna veigamikla galla á frv. sem ég vil gera að umtalsefni, og stikla þar aðeins á þeim stærstu.

Ég vil fyrst gera að umtalsefni V. kafla frv. sem fjallar um laust fé og eigið fé bankanna. Í 36. gr. er að finna ákvæði um eiginfjárstöðu viðskiptabanka. Gert er ráð fyrir að eigið fé að meðtöldum 3/4 hlutum andvirðis skuldabréfa megi ekki vera lægra en sem svarar 5% af niðurstöðutölu efnahagsreiknings bankans. Auk þess skal bæta við niðurstöðutölu efnahagsreiknings samanlagðri fjárhæð ábyrgða og síðan eru taldir upp nokkrir frádráttarliðir sem draga má frá niðurstöðutölu efnahagsreiknings. Ég spyr hæstv. viðskrh.: Liggur fyrir úttekt eða könnun á því hver eiginfjárstaða bankanna er í dag miðað við þetta ákvæði frv. um eiginfjárstöðu? Miðað við þær upplýsingar, sem fram voru lagðar á Alþingi fyrir skömmu sem svar við fsp. minni um eiginfjárstöðu banka og sparisjóða, þá er tæpt á því að nokkrir viðskiptabankanna séu innan 5% rammans um eiginfjárstöðu banka og nokkrir sparisjóðanna voru langt undir þessu marki. Gera verður þó ráð fyrir að niðurstöður um eiginfjárstöðu, sem fram komu þá í svörum viðskrh., hafi verið byggðar á öðrum forsendum en ákvæði þessa frv. gera ráð fyrir.

Því er brýnt að hæstv. viðskrh. gefi Alþingi upplýsingar um það hver sé eiginfjárstaða viðskiptabankanna í dag miðað við ákvæði þessa frv. Það er ljóst að ein mikilvægasta undirstaðan í bankastarfsemi, eins og staðan er í dag, er trygg og örugg eiginfjárstaða, ekki síst í ljósi þess að það er sá öryggisventill og trygging sem sparifjáreigendur hafa fyrir ábyrgð bankanna á sínum innistæðum, fyrir utan ríkisviðskiptabankana þar sem ríkissjóður ber ábyrgð á skuldbindingum þeirra. Ég tel því að þetta ákvæði um eiginfjárstöðu þurfi að skoða vandlega og að viðmiðunin við 5% af eiginfjárstöðu sé of lág. Ég tel að það sé tímabært og nauðsynlegt að koma upp tryggingarsjóði hliðstæðum því sem víða gildir erlendis og gilt hefur um sparisjóði hérlendis til að tryggja hagsmuni sparifjáreigenda, en um það ræddi hv. þm. Kjartan Jóhannsson ítarlega í sinni ræðu hér fyrir helgi og boðaði brtt. þar að lútandi, þannig að ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða mjög um það mál þó að þýðingarmikið sé. Hér er vissulega um að ræða veigamikið hagsmunamál fyrir sparifjáreigendur. Tilgangur tryggingarsjóðs væri fyrst og fremst sá að tryggja innistæður sparifjáreigenda. En í þessu sambandi mætti einnig hugsa sér að slíkur tryggingarsjóður gæti fjármagnað fjárvana húsnæðiskerfi með sölu skuldabréfa með líkum hætti og lífeyrissjóðirnir hafa gert. Yrði því fyrst og fremst um tvíþættan tilgang að ræða með stofnun slíks tryggingarsjóðs, þ. e. tryggingu fyrir sparifjáreigendur vegna innistæðna sinna og aðstoð við fjármögnun húsnæðiskarfis í formi skuldabréfasölu til byggingarsjóðanna.

Það leiðir vitaskuld af eðli slíks sjóðs að hann yrði ávallt að hafa nægjanlegt fjármagn til reiðu til að koma í veg fyrir tjón sparifjáreigenda ef bankar verða fyrir fjárhagslegu áfalli og geta ekki staðið við skuldbindingar sínar. Engu að síður kæmi helst til greina sú leið sem ég nefndi ef um ávöxtun yrði að ræða á fjármagni sjóðsins.

Í fsp. minni til viðskrh. um hver voru heildarinnlán hjá bönkum og sparisjóðum á árinu 1984 kom fram að heildarinnlán viðskiptabankanna voru á árinu 1984 rúmir 22 milljarðar kr. og hjá sparisjóðum tæpir 4 milljarðar, eða samtals liðlega 25 milljarðar kr. Ef viðskiptabönkum væri gert að greiða ákveðið hlutfall af þessari upphæð sem iðgjald í þennan tryggingarsjóð þá er ljóst að verulegt fjármagn gæti verið til ráðstöfunar til húsnæðismála í formi skuldabréfasölu með ríkisábyrgð til byggingarsjóðanna.

Í annan stað verður ekki hjá því komist að gera að umtalsefni síðustu mgr. 36. gr. um að bókfært virði fasteigna og búnaðar, sem viðskiptabanki notar til starfsemi sinnar, megi ekki vera hærra en sem nemur 65% af eigin fé bankans. Ein af þeim fsp. sem ég lagði fyrir hæstv. viðskrh. í vetur og svar liggur fyrir um er hvert sé hlutfall eigin fjár sem bundið er í varanlegum rekstrarfjármunum hjá viðskiptabönkum og 18 stærstu sparisjóðunum. Ég fæ ekki betur séð við samanburð á þessu ákvæði, um að ekki megi meira en 65% af eigin fé bankans vera bundið í varanlegum rekstrarfjármunum, að skv. niðurstöðutölum í reikningum bankanna árið 1983 hafi 16 af 25 innlánsstofnunum, sem upp var gefið, farið fram úr þessu ákvæði og það svo rösklega að sex innlánsstofnanir, þ. e. þrír viðskiptabankar og þrír sparisjóðir, hafi fjárfest langt umfram eigið fé og þar með gengið á innistæður sparifjáreigenda í fjárfestingum sínum.

Þannig er t. d. um Verslunarbankann, en hlutfall eigin fjár sem bundið er í varanlegum rekstrarfjármunum hjá honum er 141.6%, hjá Samvinnubankanum 118.6, hjá Alþýðubankanum 140.9% í árslok 1983 og í árslok 1984, eða um síðustu áramót, var 170.8% bundið í varanlegum rekstrarfjármunum hjá Alþýðubankanum. Þessir bankar virðast því hafa allt sitt eigið fé bundið í varanlegum rekstrarfjármunum auk þess sem þeir hafa verulega gengið á innistæður sparifjáreigenda til að fjármagna fasteignamyndun sína. Það liggur því fyrir, verði þetta ákvæði að lögum, og ef þær forsendur sem þessar niðurstöður byggðu á í svörum ráðh. við minni fsp. eru sambærilegar við ákvæði frv. um að bókfært virði fasteigna og búnaðar megi ekki fara hærra en sem nemur 65% af eigin fé bankans, að af 25 innlánsstofnunum uppfylla aðeins 9 þetta ákvæði laganna. Ég held að það sé nauðsynlegt að fá fram skoðun hæstv. viðskrh. á þessu máli og þá hvernig með verður farið ef þetta ákvæði verður samþykkt þegar fyrir liggur að obbinn af innlánsstofnunum uppfyllir ekki þetta ákvæði laganna. Ég óttast líka að miðað við ákvæði frv. hafi bankarnir allt of frjálsar hendur varðandi stofnun útibúa og ákvæði frv. veiti ekki nægjanlegt aðhald til þess að koma í veg fyrir útþenslu bankakerfisins, en 28 umsóknir liggja nú fyrir um stofnun nýrra útibúa.

Áður en ég vík frá V. kafla frv. vil ég nefna einnig ákvæði 35. gr. um laust fé bankanna. Þetta ákvæði er aðeins almennt orðað og kveður á um að viðskiptabankar skuli kappkosta að hafa ætíð yfir að ráða nægilegu lausu fé til að geta innt af hendi úttektir á innlánsfé og aðrar greiðslur sem starfsemi bankans fylgja. Hér verður að setja mun markvissara og skýrara ákvæði um þennan mikilvæga þátt í starfsemi bankanna og að skorður verði við því settar og ströng viðurlög, þannig að bankarnir geti ekki ætíð flúið í það skjól að stofna til yfirdráttarskulda við Seðlabankann eða annarra leiða til að geta innt af hendi úttektir á innlánsfé.

Fyrir nokkru svaraði viðskrh. einnig fsp. minni um hver væri heildarfyrirgreiðsla viðskiptabanka og þriggja stærstu sparisjóðanna til fimm stærstu lántakenda einstakra banka og sparisjóða í árslok 1983 og 1984. Fátt var þar um svör því að bankarnir neituðu að svara og skýldu sér á bak við bankaleynd. Þegar hæstv. viðskrh. var spurður um afstöðu hans til þess að bankarnir hefðu neitað að svara þessum spurningum þá var líka fátt um svör, en hæstv. ráðh. sagði þá orðrétt um þetta atriði aðspurður:

„Þegar bankalöggjöfin verður hér til umræðu mun ég tjá mig um þetta atriði eins og önnur þau atriði sem um verður fjallað þegar málið verður hér á dagskrá.“

Ég vitna í þessi orð hæstv. bankamálaráðherra og ítreka spurningu þá sem ég lagði fyrir hæstv. ráðh. fyrr í vetur: Telur hæstv. bankaráðherra að viðskiptabankarnir, þar með taldir ríkisbankar, geti skýlt sér bak við bankaleynd þegar spurt er um heildarfyrirgreiðslur til fimm stærstu lántakenda innlánsstofnana? Ef svo er telur ráðherra þá að setja beri ákvæði er tryggi að ekki sé hægt að skjóta sér á bak við bankaleynd, þannig að Alþingi geti á hverjum tíma fengið upplýsingar um hag og afkomu og útlánastarfsemi bankanna? Ég ítreka að ekki var spurt um nein nöfn í minni fsp. um þetta efni fyrr í vetur heldur aðeins heildarfyrirgreiðslu til þessara aðila. Ég vænti þess að hæstv. ráðh. reyni ekki að víkja sér undan að svara þessari spurningu.

Ég benti á það þegar þessi fsp. var til umræðu hér á Alþingi fyrr í vetur að algengt væri í bankalögum hjá nágrannaþjóðum okkar að ákvæði sem eiga að tryggja að bankarnir láni ekki óhæfilega mikið fé einum viðskiptamanni eða lántakendum, einum eða fleiri, sem væru svo fjárhagslega tengdir hver öðrum að skoða bæri fyrirgreiðslur til þeirra í einu lagi. Ég sagði það sem mína skoðun að nauðsynlegt væri að setja slíkt ákvæði hér í lög. Og þeim mun frekar er það nauðsynlegt ef bankarnir, þar með taldir ríkisbankar, geta neitað löggjafarvaldinu um upplýsingar af þessu tagi. Ég mun leggja fram brtt. við þetta frv. þess efnis að innlánsstofnanir megi aldrei lána einum viðskiptamanni, eða fleiri viðskiptamönnum sem eru svo fjárhagslega tengdir að skoða beri skuldbindingar þeirra gagnvart bankanum í einu lagi, hærri upphæð en sem svarar ákveðinni viðmiðun við eiginfjárstöðu bankanna, þannig að heildarskuldbindingum þeirra við bankana séu settar ákveðnar skorður. Í lögum um sparisjóði er að finna slíkt ákvæði. Þar er miðað við 50% af eigin fé. Undanþegin eru þau lán sem veitt eru gegn ábyrgð eða veði í fasteign. Ég tel þetta hlutfall allt of hátt og það verði að setja bönkum mjög þröngar skorður um það hvað þeim sé heimilt að lána einum aðila mikið fjármagn miðað við eiginfjárstöðu bankanna. Um þetta mun ég flytja brtt. við þetta frv. og spyr um afstöðu hæstv. viðskrh. til þess að slíkt ákvæði verði lögfest.

Þrjú önnur atriði vil ég hér í lokin gera að sérstöku umtalsefni. Í fyrsta lagi er það mín skoðun að nú þegar við höfum frv. að nýrri bankalöggjöf til meðferðar þá sé brýnt að styrkja stöðu bankaeftirlitsins og veita því aukið sjálfstæði þannig að eftirlitshlutverki þess verði gefið aukið vægi. Ég bendi á að með þessu frv. eru enn auknar skyldur bankaeftirlitsins og því brýnt að umfjöllun eigi sér einnig stað um stöðu þess til að sinna sínu mikilvæga hlutverki sem er strangt eftirlit og aðhald með innlánsstofnunum. Ég tel að bankaeftirlitinu séu að ýmsu leyti settar þröngar skorður og það hafi ekki nægjanlegt sjálfstæði eða nauðsynlegt svigrúm til að sinna skyldum sínum og eftirliti með starfsemi bankanna.

Þau ákvæði sem nú er að finna um bankaeftirlitið eru í 10. gr. laga um Seðlabankann. Þar er kveðið á um að bankaeftirlitið sé í höndum Seðlabanka Íslands. Þar með lýtur bankaeftirlitið stjórn Seðlabankans, en það tel ég óeðlilegt því að bankaeftirlitið verður óhjákvæmilega virkari eftirlitsaðili og fær frekar svigrúm til að halda uppi nauðsynlegri gagnrýni, eftirliti og aðhaldi að því er varðar alla þætti bankamála og á þær ákvarðanir sem teknar eru varðandi bankastarfsemi ef það starfaði sjálfstætt og óháð valdi eða stjórn Seðlabankans.

Auk þess tel ég að kveða verði nánar á um eftirlit, verkefnasvið og vald bankaeftirlitsins en nú er gert í lögum. Því tel ég að jafnframt því sem við fjöllum um nýja bankalöggjöf eigi um leið að breyta þeim lögum sem gilda um bankaeftirlitið og veita því aukið svigrúm og sjálfstæði. Ég tel að eðlilegt hefði verið að slíkt frv. væri til umfjöllunar samfara þessu frv., ekki síst í ljósi þeirra auknu skyldna sem lagðar eru á bankaeftirlitið í því frv. sem hér er til umfjöllunar. Ég vil spyrja hæstv. viðskrh. hver sé skoðun hans á því og hvort uppi séu hugmyndir um lagabreytingar til þess að auka vald og sjálfstæði bankaeftirlitsins.

Á Alþingi 1983 var samþykkt breyting á lögum allra ríkisbankanna sem kvað á um upplýsingaskyldu þeirra á þann veg að í ársreikningum skyldi fylgja sundurliðað yfirlit um launagreiðslur, þar með talið föst yfirvinna, bifreiðakostnaður, þ. e. fjöldi ríkisbifreiða og reksturskostnaður þeirra, notkun bílaleigubifreiða, leigubifreiða og greiðslur fyrir afnot af bifreiðum starfsmanna. Einnig risnukostnað og ferðakostnað og fleiri þætti, m. a. betri og skýrari sundurliðun á fasteignamyndun og fjárfestingum.

Það vekur furðu að lagt skuli til með þessu frv. að afnema þessa upplýsingaskyldu bankanna í lögum sem er nauðsynlegur liður í aðhaldi og eftirliti með fjármunum ríkisins. Sambærileg ákvæði gilda um ríkisstofnanir og rn. Þeim var með lögum frá 26. apríl 1982 gert að skyldu að veita Alþingi árlega slíkar upplýsingar. Spurningin er: Af hverju eiga bankarnir núna að vera undanþegnir þessari upplýsingaskyldu í lögum og Alþingi að treysta á að framkvæmdavaldið setji reglugerð þar um, eins og viðskrh. upplýsti hér í sinni framsögu? Í ljósi nýjustu atburða varðandi launaauka bankastjóranna virðist full þörf á að Alþingi haldi uppi ströngu aðhaldi í þessu efni og kveðið sé á um það afdráttarlaust í lögum.

Það vekur vissulega athygli að bankamálanefnd virðist hafa verið sammála um þessa breytingu, að undanskildum Kjartani Jóhannssyni, að afnema beri þessi lög sem kveða á um upplýsingaskyldu m. a. um bílafríðindi, risnu, launaauka og ferðakostnað hjá bönkum. Ég hlýt að mótmæla þessu og beina því til alþm. og þeirrar nefndar sem mál þetta fær til meðferðar að komið verði í veg fyrir að felld verði úr gildi þessi nýsamþykktu lög um aðhald og eftirlit með bílafríðindum, risnu o. fl. hjá bönkunum, sem reynslan ætti að kenna að full nauðsyn er á að gildi áfram, og Alþingi láti sér ekki nægja að eftirláta framkvæmdavaldinu reglugerðarsetningu í þessu sambandi. Í gildi eru lög um þetta efni fyrir ríkisstofnanir og rn. og ég sé enga ástæðu til annars en að sama gildi um ríkisbankana.

Að lokum, herra forseti, nokkur orð um þá umræðu sem átti sér stað utan dagskrár hér um daginn um launaauka bankastjóranna. Það kom þá fram í mínu máli að hæstv. viðskrh. hefði í þeim umræðum gefið mjög óskýr svör við ýmsum af þeim spurningum sem ég þá lagði fyrir hann. Hæstv. ráðh. hafði þá ekki upplýsingar um hvort í einstökum bönkum hefði komið til framkvæmda sú umdeilda ákvörðun um launaauka bankastjóranna. Ég beindi því þá til hæstv. ráðh. og óskaði eftir að hann hefði þessar upplýsingar tiltækar þegar við ræddum frv. um viðskiptabankana. Ég spyr því hæstv. ráðh. nú hvort og þá hvenær launaauki bankastjóranna hafi komið til framkvæmda í hverjum banka fyrir sig og vænti að ráðh. hafi nú svör við því og hafi gefist tími til að afla þeirra upplýsinga.

Ég ítreka einnig þá spurningu sem ég áður bar fram og snertir önnur launakjör bankanna en ráðherra svaraði ekki heldur við umræður utan dagskrár um daginn: Hver eru önnur launakjör og fríðindi bankastjóra en föst mánaðarlaun og hin umdeildu bílafríðindi? — en um það eru ýmsar getgátur uppi. Því er t. d. haldið fram í Helgarpóstinum í s. l. viku að bankastjórar greiði ekki lífeyrissjóðsiðgjald eins og aðrir í þessu landi en þiggi engu að síður eftirlaun sem nemi allt að 90% af fyrri launum. Ég veit ekki betur en öllum þeim sem þiggja eftirlaun annars staðar en úr almannatryggingakerfinu sé skylt að greiða iðgjöld til að eiga rétt á lífeyri. Ég spyr: Er hér á ferðinni enn ein lögleysan að því er varðar fríðindi bankastjóra eða við hvað er stuðst í þeirri ákvörðun að undanþiggja þá þeirri skyldu að greiða iðgjöld vegna eftirlauna? g vænti svara frá hæstv. viðskrh. við þeirri spurningu, á hverju það byggist að bankastjórar skuli undanþegnir þeirri skyldu að greiða iðgjöld vegna lífeyrisréttinda.

Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðh. þeirrar spurningar sem hann vék sér undan að svara hér á Alþingi um daginn, en það er afstaða hans til þess frv. sem nú liggur fyrir Ed. um að afnema bílafríðindi ráðherra og hvort ekki megi treysta á stuðning viðskrh. við framgang þess máls nú á þessu þingi.

Ég vil að lokum nefna það að ef sú verður niðurstaðan að breyta ekki því fyrirkomulagi sem gilt hefur, þ. e. að bankaráðin ákveði kjör bankastjóranna eins og enn er kveðið á um í þessu frv., tel ég að brýnt sé að bæta ákvæði við þá grein sem um það fjallar, þannig að ákvörðun um öll launakjör bankastjóra sé háð samþykki viðkomandi ráðherra. Það kemur í veg fyrir það pukur sem nú virðist vera um þessi mál og bankamálaráðherra er þá ábyrgur fyrir þeim ákvörðunum sem teknar eru í þeim málum.

Ég ítreka síðan þær spurningar sem ég hef lagt fyrir hæstv. viðskrh. í þessari umræðu og vænti svara hans við þeim áður en frv. gengur til nefndar.