22.04.1985
Neðri deild: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4449 í B-deild Alþingistíðinda. (3725)

423. mál, viðskiptabankar

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður. Ég tel það athyglisvert að þær fsp. sem hafa verið hér fram bornar að undanförnu um lífskjör ríkisbankastjóra hafi orðið til þess að opna svolítið ljórann á þessu gósenlandi kannske á næstunni. Þess vegna fagna ég því að það eigi að gera heildarúttekt á þessu máli. Ég vænti þess að í þeirri heildarúttekt verði athugað fleira en það sem beinlínis hefur verið spurt eftir hér á Alþingi. Þá á ég við risnumál ýmiss konar, ferðalagakjör og þess háttar. En að síðustu ætlaði ég að árétta það að ég vænti þess að fá skriflegt svar við fsp. minni um lífeyrismálin áður en Baldur Möller og hans nefnd lýkur sínum störfum.