30.10.1984
Sameinað þing: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í B-deild Alþingistíðinda. (373)

79. mál, raforkuverð á Íslandi

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Það verður að segja hverja sögu eins og hún gengur. Vegna þessarar fsp. er frá því að segja í stuttu máli að skömmu eftir samþykki þál. var hafin leit að hlutlausum sérfræðingum, eins og þar greindi að mig minnir, til þess að annast innihald og framkvæmd þessarar þál. Þar stóð, held ég „óvilhallir sérfræðingar“.

Það tókst að finna þessa þrjá menn, en það dróst mjög úr hömlu að þeir hæfu starf og undir haust gengu tveir þeirra úr skaftinu, báðust undan að starfa í nefndinni. Þá var tekið til á nýjan leik við að skipa nefndina og nú hefur það tekist og nefndin hafið störf. Í henni er Sveinn Júlíus Sólnes prófessor, formaður, Gamalíel Sveinsson viðskiptafræðingur, en hann hefur haldið út í báðum nefndunum allan tímann, og þriðji Bergsteinn Gizurarson verkfræðingur. Af sjálfu leiðir að önnur svör gefast ekki við þessari fsp. né heldur 3. lið hennar, með hverjum hætti niðurstöður hennar verði kynntar almenningi. En ég hef lagt mjög mikla áherslu á vegna þessara mistaka að nefndin hraði störfum og hefur formaður hennar gefið mér góð orð um að svo muni verða gert.