22.04.1985
Neðri deild: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4452 í B-deild Alþingistíðinda. (3731)

149. mál, siglingalög

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þau orð hæstv. ráðh. sem hann lét falla um að þetta mál væri nokkuð seint fram komið hér. Það er langt liðið á aprílmánuð og við erum að fá þennan mikla lagabálk hér til meðferðar fyrst nú. Ég tek undir það með honum að mikil nauðsyn er á að ljúka afgreiðslu þessa frv. fyrir þinglok og ég veit að við hér í hv. deild munum leggja okkur fram um það.

Það sem fékk mig til að stíga nú í stólinn eru brtt. Ed. eða frv. eins og það hljóðar nú eftir þær breytingar sem gerðar voru á því í hv. Ed. Vegna starfa míns sem formaður í þeirri nefnd sem skipuð var af hæstv. ráðh. á síðasta ári til að fjalla um öryggismál sjómanna átti ég viðtal við siglingamálastjóra um frv. Mér til mikillar furðu hafði hann ekki fengið þetta frv. til formlegrar umsagnar. Nú má vel vera að bæði verkfall opinberra starfsmanna og þau mannaskipti sem urðu í æðstu stjórn Siglingamálastofnunar hafi valdið þessu og skal ég síst draga úr því, en þegar þess er gætt að í 1. gr. þessa frv. segir að lög þessi gildi um öll skip sem skráð eða skráningarskyld eru á Íslandi hefði ég talið fulla ástæðu til þess að hv. þd. Ed. hefði kallað siglingamálastjóra á sinn fund til að ræða einstök atriði sem m. a. hafa komið fram í opinberum tillögum frá þessari umræddu nefnd til yfirvalda. Ég hefði gjarnan viljað vekja athygli hv. samgn. þessarar deildar á þessu.

Ég sé ekki ástæðu til að taka frv. efnislega fyrir. Ég vil taka undir það, sem hæstv. ráðh. sagði, að hér verði reynt að vinna að því að afgreiða þetta frv. Ef ég ekki flyt sjálfur einn eða með öðrum þm. brtt. við frv. mun ég koma þeim til formanns samgn. deildarinnar sem ég veit að mun taka þær till. til meðferðar í n. og mun það kannske verða fljótlegra til að koma málinu sem fyrst áfram.

Ég tel að viðhöfðum þessum athugasemdum að hv. samgn. þessarar deildar ætti að boða siglingamálastjóra, sem er ungur maður og áhugasamur, á sinn fund til að tjá sig um málið á formlegan hátt.