22.04.1985
Neðri deild: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4453 í B-deild Alþingistíðinda. (3733)

408. mál, mörk Garðabæjar og Kópavogs

Frsm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 697 um frv. til l. um breytingu á mörkum Garðabæjar og Kópavogs. Frv. þetta er flutt að beiðni bæjarstjórna Garðabæjar og Kópavogs í samráði við dómsmrn. og er efni þess að taka ákvörðun um, í lagaformi, hver þessi mörk skuli vera. Hér er um að ræða mörk sem byggjast á samningi sem gerður var 18. maí 1983 milli bæjarstjórnar Garðabæjar og bæjarstjórnar Kópavogskaupstaðar um málið þannig að hér liggur fyrir fullkomið samkomulag um landamörkin. Í grg. með frv. er prentuð yfirlýsing þar sem landbrh. fyrir hönd jarðadeildar landbrn. og heilbr.- og trmrh. fyrir hönd ríkisspítalanna lýsa því yfir að þeir, sem eigendur og umráðamenn jarðarinnar Vífilsstaða í Garðabæ, samþykkja í þessu tilefni samninginn milli Garðabæjar og Kópavogskaupstaðar um breytingu á mörkum kaupstaðanna að því er Vífilsstaðajörðina varðar.

Unnið er nú að gerð aðalskipulags beggja bæjarfélaganna, Kópavogs og Garðabæjar, en því verður ekki endanlega lokið nema mörk séu ótvíræð. Því ber brýna nauðsyn til að frv. þetta fái skjóta afgreiðslu, enda er lagasetning um breytt lögsagnarumdæmamörk skilyrði fyrir gildistöku samningsins milli sveitarfélaganna sem ég nefndi áðan og dagsettur var 18. maí 1983.

Allshn. Nd. hefur fjallað um málið og sent frá sér nál. á þskj. 697. Nefndin mælir með því að það verði samþykkt óbreytt.