22.04.1985
Neðri deild: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4456 í B-deild Alþingistíðinda. (3741)

431. mál, sala Hamars í Glæsibæjarhreppi

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Landbn. Nd. fékk bréf sem er þannig, með leyfi forseta:

„Við undirritaðir förum þess á leit við landbn. Nd. Alþingis að hún flytji frv. um sölu jarðarinnar Hamars í Glæsibæjarhreppi í Eyjafjarðarsýslu.

Fyrir hendi eiga að vera í landbrn. tilskilin skjöl varðandi söluna.“

Undir þetta skrifa Árni Hermannsson á Bægisá, Baldur Þorsteinsson á Bægisá og Guðmundur Víkingsson í Garðshorni, allir bændur á Þelamörk.

Frv. fylgir sem fskj. allt sem er tilskilið í sambandi við slíka heimild, en 1. gr. er þannig:

Ríkisstj. er heimilt að selja Árna Hermannssyni, Bægisá 1, Baldri Þorsteinssyni, Bægisá II, og Guðmundi Víkingssyni, Garðshorni, eyðijörðina Hamar í Glæsibæjarhreppi í Eyjafjarðarsýslu. Við söluna skal fylgt ákvæðum 3.-5. mgr. 38. gr. jarðalaga, nr. 65 frá 31. maí 1976, sbr. lög nr. 90 frá 30. maí 1984.“

Landbn. var sammála um að flytja þetta frv. samkvæmt þeirri beiðni sem ég hef þegar lesið.

Þannig er mál með vexti að þessar þrjár jarðir eru mjög landlitlar. Það er fyrirhugað að breyta veginum frá Reykjavík til Akureyrar þarna og mun hann fara yfir ræktuð lönd þeirra Bægisárbænda og skerða verulegan hluta af þeirra litla landi. Sú er fyrst og fremst ástæðan fyrir þessari beiðni. Ævarr Hjartarson ráðunautur Búnaðarsambands Eyfirðinga mælir mjög með því að við þessari ósk verði orðið og hér er umsögn jarðanefndar, sem er jákvæð, og umsögn hreppsnefndar Glæsibæjarhrepps einnig.

Þar sem landbn. hv. Nd. flytur þetta mál er ekki óskað því að þessu máli verði vísað aftur til nefndar. Hún er búin að fjalla um þetta mál.