30.10.1984
Sameinað þing: 11. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

80. mál, einingahús

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Framleiðsla og bygging einingahúsa hefur verið vaxandi atvinnugrein nú síðustu árin. Að margra áliti hefur sá byggingarmáti auðveldað mörgum að koma sér upp húsnæði sem ella hefðu átt erfitt með það. Þar skiptir byggingartíminn meginmáli, en hann er yfirleitt aðeins 3–6 mánuðir og getur raunar verið enn skemmri. Augljóst er einnig það hagræði að geta unnið að framleiðslu húsanna að mestu leyti innan dyra í verksmiðjum og stytt þannig mjög þann tíma sem unnið er úti við á byggingarstað í misjöfnum veðrum. Þannig fæst samfelld vinna sem ekki er jafnháð veðurfari og hefðbundin byggingarstarfsemi. Auk hagræðis og sparnaðar fyrir húsakaupendur og samfelldari og þægilegri vinnu við húsagerðina má benda á að einingahús eru framleidd á ýmsum stöðum á landinu þar sem mikilvægt er frá þjóðhagslegu sjónarmiði að hlúa að vaxandi atvinnugreinum.

Í greinargerð frá 3. maí 1983 vegna könnunar á íslenskum einingahúsum eru talin upp 21 fyrirtæki sem framleiða einingahús, þar af 6 á höfuðborgarsvæðinu, en hin 15 dreifð um allt landið, á Akranesi, í Borgarnesi, stykkishólmi, á Blönduósi, Siglufirði, Akureyri, Húsavík, Egilsstöðum, Höfn í Hornafirði, Selfossi og í Vestmannaeyjum. Með samræmdum gæðakröfum og ströngu eftirliti hefur framleiðsla íslenskra einingahúsa orðið fyllilega samkeppnishæf við hefðbundinn byggingarmáta.

Lán úr Byggingarsjóði ríkisins til þeirra sem byggja á hefðbundinn hátt hafa verið greidd út í þremur áföngum — fyrsti hlutinn 6 mánuðum eftir að húsið er fokhelt, en sá síðasti 18 mánuðum eftir fokheldi. Þessar úthlutunarreglur eru miðaðar við venjulegan byggingartíma steinsteyptra húsa. Byggingartími einingahúsa er hins vegar miklu skemmri og hafa úthlutunarreglur lána til kaupenda slíkra húsa því miðast við að greiða þau út á um það bil 10 mánuðum frá fokheldi. Þess ber þó einnig að geta að fokheldisstig er í raun ekki sambærilegt þar sem einingahúsin eru lengra á veg komin þegar þau eru talin fokheld.

Með þeim úthlutunarreglum sem upp voru teknar árið 1977 var því stefnt að því að jafna aðstöðumun þeirra sem kaupa einingahús og þeirra sem byggja á hefðbundinn hátt. Enn fremur áttu þær að stuðla að bættri samkeppnisstöðu innlendrar einingahúsagerðar gagnvart innflutningi slíkra húsa. Að flestra mati hefur þetta tekist. Spurningin er hvort þeim árangri sé nú stefnt í hættu með þeim nýju úthlutunarreglum húsnæðislána sem samþykktar voru í húsnæðisstjórn 19. sept. s.l. Skv. þeim reglum á úthlutun lána vegna einingahúsa að fara fram á jafnlöngum tíma og úthlutun lána vegna hefðbundinna húsa þrátt fyrir svo ólíkar aðstæður sem áður er lýst. Til þess að varpa ljósi á þetta mál og vekja athygli þm. á hagsmunum húsbyggjenda í því sambandi og stöðu þessarar iðngreinar hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. félmrh. á þskj. 82 sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Hvaða aukning hefur orðið á framleiðslu íslenskra einingahúsa s.l. þrjú ár?

2. Hvert var hlutfall einingahúsa af húsbyggingum árið 1983 í stærstu þéttbýliskjörnum annars vegar og hins vegar smáum þéttbýlisstöðum og í dreifbýli?

3. Hver var á árinu 1983 meðalstærð einingahúsa í samanburði við önnur einbýlishús sem byggð voru á hefðbundinn hátt?

4. Hvaða áhrif er talið að breyttar úthlutunarreglur húsnæðislána, sem samþykktar voru í húsnæðisstjórn 19. sept. s.l., hafi:

a) á fjármögnun húsbyggjenda er kaupa og fá einingahús afhent eftir næstu áramót?

b) á framleiðslu einingahúsa sem iðnað í landinu?

c) á byggingarmarkaðinn í heild og verðlag á húsnæði?

5. Eru þessar breyttu úthlutunarreglur húsnæðislána til marks um stefnubreytingu í húsnæðismálum, og ef svo er, hvað er talið vinnast með slíkri breytingu?“