22.04.1985
Neðri deild: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4462 í B-deild Alþingistíðinda. (3750)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er lægra risið á þeim fjmrh. sem var að mæla fyrir lánsfjárlagafrv. núna en haustið 7983. Það var sami maðurinn þó, Albert Guðmundsson, hv. 1. þm. Reykv., sem þá talaði fyrir lánsfjárlagafrv. og sagði að það væri hafin ný tíð í stjórn ríkisfjármála. Nú ætti að taka hlutina föstum tökum. Nú yrðu lánsfjárlög afgreidd framvegis skv. þeim reglum sem um það eiga að gilda og gjarnan var vitnað til af hæstv. ráðh. og flokksbræðrum hans, t. d. á þinginu 1983. Það er fróðlegt í þessu sambandi, herra forseti, að vitna til ummæla hv. 1. þm. Reykn. , sem seinna varð og er nú viðskrh., þegar hann ræddi um lánsfjárlög á árinu 1983 og sagði þá m. a. með tilvitnun í 14. gr. laga nr. 13 frá 10. apríl 1979, með leyfi forseta:

„Með skýrslu ríkisstj. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlanir var lagt fram frv. um heimildir til lántöku innanlands og utan, ábyrgðarheimildir og aðrar nauðsynlegar fjáröflunarráðstafanir vegna opinberra framkvæmda og fjárfestingarlánasjóða að því marki sem slík ákvæði eru ekki í frv. til fjárlaga. Lántökuheimildir eða ábyrgðarheimildir, sem veittar eru vegna opinberra framkvæmda eða fjárfestingarlánasjóða í lánsfjárlögum þessum, skulu skoðast sem hámarksákvæði á því fjárlagaári sem þær eiga við.“

Það er bersýnilegt að ríkisstj. hefur ekki og núv. fjmrh. staðið við ítrekuð fyrirheit um bætta stjórn ríkisfjármálanna, ekki aðeins á því sviði sem við erum að ræða hér, þ. e. lánsfjárlagasviðinu, heldur líka í ríkisbúskapnum í heild, og hygg ég að þegar þessi mál eru skoðuð í samhengi hafi hæstv. núv. fjmrh. þegar slegið þau met sem hæstv. núv. viðskrh. setti í óstjórn ríkisfjármála þegar hann fór með þau á árunum 1974–1978.

Við þetta bætist, herra forseti, alveg ótrúlegur hringlandaháttur í meðferð þessara mála af hálfu hæstv. ríkisstj. Það kemur fram að tölum í lánsfjárlagafrv. er breytt ekki sjaldnar en þrisvar til þessa, enda hefur málið ekki verið nema í þremur umræðum enn þá, þ. e. í Ed. Nú eru þrjár umræður hér í Nd. og sjálfsagt er við því að búast, enda heyrist mér það á hæstv. ráðh., að ríkisstj. þurfi enn þá að breyta tölum í áætluninni og lánsfjárlögunum frá því sem þetta kom frá Ed. þó það væri ekki nema vegna þess að ríkisstj. hefur frá páskum verið að fella gengið um 4%. Ríkisstj. gaf út yfirlýsingu um það um áramótin að gengið ætti að síga um 5% til loka septembermánáðar 1985. Nú liggur það fyrir skv. því sem hver maður getur lesið í dálkum dagblaðanna um gengisskráningu að gengið hefur verið fellt frá páskum svo að segja um hell 4% . Það þýðir m. ö. o. að þær gengisforsendur sem gengið er út frá í þessu frv. til lánsfjárlaga eru þegar allar kolvitlausar og standast ekki og þess vegna óhjákvæmilegt fyrir hæstv. fjmrh. að láta breyta nær öllum tölum í þessu frv. vegna þess að þær gengisforsendur, sem hann var að leiðrétta og laga til í tölum seint í marsmánuði, eru nú allt aðrar og verður að skoða málið út frá því.

Meðalgengi íslensku krónunnar hefur verið fellt síðustu tvær vikurnar um 4%. En það sem er kannske fróðlegast, þegar þetta frv. er skoðað, er uppgjöf ríkisstj. við að taka á nokkrum raunverulegum efnahagsvandamálum í landinu. Efnahagsstefnan, sem ríkisstj. taldi sig hafa 1983, virðist vera gjörsamlega í rúst. Ég segi það vegna þess að það rekur sig hvað á annars horn í þessari lánsfjáráætlun. Það eru engir heillegir þræðir í þessu plaggi. Plaggið var að velkjast í Ed. í marga mánuði og þegar það loksins kemur hingað til Nd. er kominn 22. apríl, en nákvæmlega þann dag eru tvö ár liðin frá síðustu alþingiskosningum þegar núv. ríkisstj. komst til valda. Það er athyglisverð afmælisgjöf til ríkisstj. sem hæstv. fjmrh. færir henni í dag með því að leggja fram þetta frv. gjörsamlega í tætlum þar sem hlutirnir ganga engan veginn upp.

Frv. til lánsfjárlaga hefur yfirleitt verið til meðferðar á undanförnum þingum, ár eftir ár, alltaf fyrst í Nd. og reglan hefur verið sú, ef maður lítur yfir undanfarið árabil, að það hefur tekið um það bil tvo mánuði að ljúka málinu í hv. Nd. vegna þess að þar reyna menn auðvitað að vanda sig við sín verk eins og vera ber og alþm. er skylt. Ekki er ég að segja að þetta mál taki tvo mánuði hér í hv. þd., enda yrðu komin græn grös og líklega sláttur sums staðar ef það tæki allan þann tíma. En það er ljóst að þetta mál hlýtur að fá mjög rækilega meðferð hér í Nd. og það verður kallað eftir gögnum, m. a. undirgögnum, í sambandi við ýmis mál sem hér eru og engin grein hefur verið gerð fyrir í þinginu enn þá. Þar yrði t. d. hugsað um fjárfestingar Landsvirkjunar þar sem allt er mjög óljóst og virðist að mörgu leyti vaða á súðum.

Þegar ríkisstj. tók við voru erlendar skuldir taldar vera neðan við 60% af þjóðarframleiðslu og af eðlilegum ástæðum töldu menn það alvarleg tíðindi. Á árinu 1982 voru erlendar skuldir þjóðarinnar 34–35% af þjóðarframleiðslu. Þá gengu þeir hér í stólinn hv. þm. Sjálfstfl. hver á fætur öðrum og lýstu því yfir hvílík ógn steðjaði að þjóðinni þegar skuldirnar væru orðnar 34.9% af þjóðarframleiðslu.

Hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson sagði t. d. við umr. um lánsfjárlög 29. mars 1982, með leyfi hæstv. forseta: „En síðan er áætlað . . . að þessi nettóstaða muni fara upp í 34.9% á árinu 1982. Það er því alveg sama hvora reikningsaðferðina við notum, við sjáum að tilhneigingin er mjög ört upp á við í báðum tilvikum. Og sannast sagna er hér stefnt í hættuástand að því er snertir erlendar lántökur fyrir íslenskt þjóðarbú.“

Þá var talan 34.9. Og hv. þm. Geir Hallgrímsson, núv. hæstv. utanrrh., var ekki að skafa utan af því þó að hann sé sjaldan í hópi þeirra þm. sem hafa stærst orð. Hann sagði m. a. um hina erlendu skuldastöðu að ástandið hér væri að verða einna líkast því sem það var þá í Póllandi. Hann talaði um hið pólska ástand á Íslandi sem þáv. ríkisstj. væri að innleiða með 34% erlendum skuldum af þjóðarframleiðslu og sagði:

„En vel við getum staðið í þeim sporum að þessi tala fari að nálgast meira en helming þjóðarframleiðslu og þá er voðinn vís.“

Þegar svo þessir hv. þm. og hæstv. ráðherrar setjast til valda á miðju ári 1983 er hlaðið upp erlendum skuldum af fullkomnu ábyrgðarleysi á fjölmörgum sviðum. Í árslok 1983 voru erlendar skuldir 60.6% af þjóðarframleiðslu. Í árslok 1984 var þessi tala komin upp í 62% af þjóðarframleiðslu, en á árinu 1984 jókst þjóðarframleiðslan um 2.7%, ef ég man rétt. Á árinu 1985 telur Seðlabankinn að erlendar skuldir, skuldsetning okkar við aðrar þjóðir, muni nema um 65% af þjóðarframleiðslunni í lok þessa árs. M. ö. o.: frá því að þessi ríkisstj. tók við hafa erlendar skuldir þjóðarinnar hækkað upp úr þessu hættumarki, í kringum 60%, í 65%. Þetta þýðir nettóskuldahækkun þjóðarinnar um 4.5–5 milljarða kr. á þessum tíma og ég spyr: Hvar sjá landsmenn þau framleiðslutæki, þá atvinnusköpun, þá verðmætaaukningu sem hefur orðið til fyrir þetta skuldasukk? Svarið er: Hvergi, hvergi nokkurs staðar vegna þess að verulegur hluti af þessari erlendu skuldasöfnun hefur verið notaður til að reka ríkissjóð fyrir erlent lánsfé, að reka Byggingarsjóð ríkisins fyrir erlent lánsfé, að gera upp meðlagsskuldir við Innheimtustofnun sveitarfélaganna fyrir erlent lánsfé. Aldrei nokkurn tíma hefur verið farið jafnhrikalega illa með erlent lánsfé og í tíð núv. ríkisstj. Enginn fjmrh. fyrr eða síðar kemst með tærnar þar sem Albert Guðmundsson, hæstv. ráðh., hefur hælana í þessum efnum. Og á þessum tíma, herra forseti, á árunum 1983, 1984 og 1985, er ekki um það að ræða að hlutfall erlendra skulda aukist vegna þess að þjóðarframleiðslan sé að minnka. Þjóðarframleiðslan hefur verið að vaxa á þessum tíma. Þessi mál horfa auðvitað allt öðruvísi við á árinu 1982, þegar verður heiftarlegt fall í þjóðarframleiðslu, á árinu 1976 eða árinu 1969, svo að ég nefni þrjú dæmi. Hér er ekki því að heilsa. Þjóðarframleiðslan er að aukast, en samt hækkar hlutfall erlendra skulda. Ég lýsi því yfir að ég tel að frammistaða ríkisstj. í þessum efnum sýni fullkomið ábyrgðarleysi gagnvart komandi kynslóðum, fullkomið ábyrgðarleysi.

Ég ætla þessu næst, herra forseti, að víkja að einstökum atriðum og þá fyrst Landsvirkjun. Skv. frv. eins og það lítur út eftir 3. umr. í Ed. er Landsvirkjun með erlendar lántökur upp á 1 milljarð 36 millj. kr. Fyrsta talan frá ríkisstj. var 1.2 milljarðar og það var sagt þá í ræðu hæstv. fjmrh.: Það er ekki hægt að komast mikið lengra, hérna er mikils aðhalds gætt og allt það. Nokkrum dögum seinna tekur ríkisstj. ákvörðun um að skera niður erlendar lántökur um 1 milljarð og þá tekur hún hressilega til hnífsins og lækkar þessa tölu niður í 884 millj. kr. En ekki var blekið fyrr þornað á þessum brtt. um 884 millj. kr. til Landsvirkjunar þegar ríkisstj. kom með nýja tölu inn í hv. Ed., 1 milljarð 36 millj. kr., og verulegur hluti af þessum fjármunum, herra forseti, á að ganga til Blönduvirkjunar og þá er miðað við þann framkvæmdahraða að henni verði lokið á árinu 1988 eða 1989. Skv. upplýsingum sem komu fram á aðalfundi Landsvirkjunar hjá Jóhannesi Nordal, stjórnarformanni Landsvirkjunar, núna á dögunum telur hann að það sé ekki þörf á Blönduvirkjun fyrir almennan markað fyrr en 1991 og hann bætti við í ræðu sinni að í rauninni væri það svo, að ef ekki kæmi til nýr stór orkukaupandi mundi Blanda duga fyrir almenna markaðinn út öldina. Ríkisstj. hlustar ekki á þessi aðvörunarorð. Hún geysist fram með mikið hærri upphæð en stjórnarformaður Landsvirkjunar er búinn að gefa í skyn að þurfi í Blönduvirkjun á árinu 1985 miðað við allar aðstæður. Hér er gert ráð fyrir því að verja í Blönduvirkjun á þessu ári milli 500–600 millj. kr. og svo er bætt við 3. gr. frv., sem er ákaflega smekklegt og til að styrkja samningsstöðu Íslands gagnvart Alusuisse eða hitt þó heldur, nýrri mgr. þar sem segir:

„Jafnframt er Landsvirkjun heimilt, til viðbótar því sem greinir í 1. mgr., að taka lán allt að 82 millj. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt semjist um stækkun álversins í straumsvík á árinu 1985.“

Það er m. ö. o. till. um það frá stjórnarmeirihlutanum, komin út úr Ed., að strax eigi að setja inn í lánsfjárlög texta sem gerir ráð fyrir að reynt verði hvað sem það kostar að semja við Alusuisse sem stækkun í Straumsvík. Eru menn að styrkja sína samningsstöðu við álhringinn með þessum vinnubrögðum, burtséð frá því hvort það er rétt eða rangt að fara í þessa stækkun? Þá spyr ég að því: Telja menn sig vera að styrkja sína samningsstöðu með svona vinnubrögðum? Telur hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson, 4. þm. Reykv., að samningsstaða Íslendinga gagnvart álhringnum til stækkunar í Straumsvík styrkist með þessum vinnubrögðum? Auðvitað er það fjarri öllu lagi, auk þess sem það er sérstaklega ógeðfellt að draga framhaldsframkvæmdir við Blönduvirkjun inn í þessa mynd. Ég lýsi því yfir sem minni skoðun að ég get ekki samþykkt 2. mgr. 3. gr. vegna þess að sá sem samþykkir hana er að samþykkja að það verði farið í stækkunina í Straumsvík hvað sem tautar og raular.

Ég mun gera kröfu til þess, herra forseti, í fjh.- og viðskn. Nd. — og það er ágætt að embættismenn fjmrn. heyri það — að lögð verði fram áætlun um framkvæmdir við Blönduvirkjun á árabilinu til og með 1991. Það liggur fyrir að óþarfi er að setja virkjunina af stað fyrr miðað við hinn almenna markað. Þegar slík áætlun liggur fyrir um framkvæmdir til 1991 kemur í ljós hversu miklar upphæðir við getum sparað í erlendum lántökum á því að draga úr framkvæmdahraða við Blönduvirkjun. Þegar menn, sem eru að tala um að þeir hafi þá stefnu að draga úr erlendum lántökum, koma með svona sull inn í þingið er það alveg ótrúlegt. Er þá af nógu að taka. Ég er ekki nærri búinn.

Ég vil minna á í þessu sambandi, herra forseti, að í framsöguræðu hæstv. ráðh. og í umr. um þetta mál til þessa hafa engar upplýsingar komið fram um það heldur, a. m. k. ekki í umr. í þingdeildum, hversu mikla fjármuni er ætlunin að setja í Kvíslaveitu 4. Og það er nokkuð kostulegt að lesa textann frá meiri hl. fjh.- og viðskn. Ed. Þar er ekki verið að fara í smáatriðin eða eins og þar stendur, með leyfi forseta:

„Þá eru lántökur Landsvirkjunar til framkvæmda lækkaðar um 316 millj. eða úr 1200 millj. í 884 millj. kr. . . . Lántöku Landsvirkjunar að fjárhæð alls 884 millj. kr. er áætlað að ráðstafa þannig að 516 millj. kr. renni til framkvæmda við Blönduvirkjun og 368 millj. kr.“ það er engin smáupphæð — „til annarra framkvæmda.“

Menn láta sig ekki muna um það að sleppa út 300–400 millj. kr. til „annarra framkvæmda“ ósundurliðað þegar Landsvirkjun er annars vegar. Ég mun ganga eftir því í fjh.- og viðskn. Nd. að upplýsingar um „aðrar framkvæmdir“ upp á 370 millj. kr. verði skýrðar.

Þá kemur að næsta þætti þessa máls sem er þetta einkennilega þróunarfélag, en þannig er að það hefur verið viss draugagangur í landinu að undanförnu sem kallaður er „þróunarfélagið“. Fyrst slæddist þessi vofa inn í lánsfjárlagafrv. sjálft. Svo var hún kveðin niður og peningarnir voru skrifaðir á Framkvæmdasjóð. Síðan skaut vofan aftur upp kollinum við 2. og 3. umr. lánsfjárlaga í hv. Ed. og þessi draugur er enn í frv. eins og það liggur fyrir hv. Nd. Það eru litlar 500 millj. kr. sem eiga að fara í þetta verkefni algerlega óskilgreint fyrir Alþingi. Það liggja engar upplýsingar fyrir um til hvers á að nóta þessar 500 millj. kr. Hæstv. fjmrh. mannaði sig þó upp í það áðan að segja að þetta yrði náttúrlega ekki látið út nema gerðar væru kröfur um ýtrustu arðsemi. Það er munur að vita að hæstv. fjmrh. hafi góð áform í þessu efni og sjálfsagt dettur einhverjum í hug enn þá, þó þeim fari fækkandi, að hann muni framkvæma yfirlýsingar sínar í þessum efnum. Ekki dettur mér í hug að taka mark á yfirlýsingum af þessu tagi eftir reynslu af núv. ríkisstj. og núv. fjmrh. En það eru 500 millj. kr. og ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að fá þegar við þessa umr. upplýsingar um hvernig þessi þróunarfélagsdraugur er á vegi staddur, þessi vofa sem er kölluð þróunarfélagið og fréttist af af og til í leiðurum blaðanna og af og til í einu og einu þskj. Hvar er þessi sjoppa á vegi stödd, þetta þróunarfélag? Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það frá hv. 1. þm. Suðurl., formanni Sjálfstfl., sem situr þögull við þessa umr. aldrei þessu vant.

Af því að ég nefndi þennan hv. þm. Það var haldinn fundur í Laugardalshöllinni. Allir sem einn, hét hann. Það var landsfundur Sjálfstfl. Aðalniðurstaða þess fundar, fyrir utan það að kjósa þá hv. þm. Þorstein og Friðrik, var sú að það ætti að skera niður erlendar lántökur og varaformaður Sjálfstfl., sem hefur mikið húsbóndavald á sínum bæ eins og hæstv. fjmrh. veit, lét koma fram að það væri höfuðniðurstaða fundarins að nú yrði spornað við erlendum lántökum. Þetta gengur ekki lengur, sagði varaformaðurinn og byrsti sig. Og þetta var haft eftir honum í hverju blaðinu og hverjum fjölmiðlinum á fætur öðrum. Hvernig stendur nú þessi niðurskurður? Hvað er það sem hæstv. fjmrh. hefur verið að skera niður í þessum efnum að undanförnu? Jú, ríkisstj. lýsti því yfir seint í janúar að það ætti að skera niður lánsfjárlögin um 1000 millj. kr. Forsrh. kynnti það á fundi með stjórnarandstöðunni býsna andaktugur — sagði að vísu að það lægi ekki fyrir í smáatriðum hvernig þessum niðurskurði yrði hagað, en þetta yrði gert, það yrði alveg örugglega skorið niður um 1000 millj. kr. Þetta var það eina sem þá var eftir af áramótafyrirheitum formanns Sjálfstfl. og formanns Framsfl., en þeir gerðu um það samkomulag um áramót að steypa ríkisstj. og skipta um nokkra ráðh. og síðan ætti að gera róttækar breytingar í efnahagsmálum. Það voru skrifaðir margir langir leiðarar í blöðin um hinar róttæku efnahagsbreytingar sem ætti að gera samhliða uppstokkun á stjórninni og menn gerðu ráð fyrir því að hið mikla vandamál Sjálfstfl. varðandi stól fyrir formanninn yrði þá leyst um leið og þessi miklu efnahagsvandamál. En hvernig stendur þetta mál svo? Niðurstaðan verður sú að hæstv. forsrh. tilkynnir á fundi með stjórnarandstöðunni og svo fjölmiðlum auðvitað, — reyndar fjölmiðlunum fyrst eins og hann er vanur, hann byrjar alltaf þar, — að það eigi að skera niður erlendar lántökur um 1000 millj. kr. Þannig mátti ætla að þessa færi að sjá stað þegar hæstv. fjmrh. færi að leggja fram frumvörp sem tækju mið af þeirri stefnu sem hans flokkur ku hafa boðað á landsfundi sem hét „Allir sem einn.“ En eitthvað hefur þetta farið á milli mála.

Hvernig stendur þá þessi niðurskurður?

Í fyrsta lagi segir hæstv. fjmrh.: Við .skerum niður erlendar lántökur ríkissjóðs um 750 millj. kr. Það er pennastriksaðferðin vegna þess að á bak við þessa yfirlýsingu stendur ekki neitt. Fjmrh. hefur hvergi sýnt fram á að hann ætli að skera niður útgjöld ríkissjóðs sem þessu nemur. Það hafa hvergi komið fram upplýsingar um sparnað hjá ríkissjóði sem nema 750 millj. kr. Það hafa engar upplýsingar komið fram um nýjar tekjur ríkissjóðs upp á 750 millj. kr. Þessi tala fjmrh. um 750 millj. er algerlega út í loftið. Hún styðst ekki við neitt. Þar með fóru 3/4 af hinu mikla áramótaheiti formannanna.

Þá er það næsti kafli. Það var annað pennastrik. Erlendar lántökur einkaaðila átti að skera niður úr 1836 millj. kr. í 1500 millj. kr. eða um 336 millj. kr. Á bak við þessa tölur stendur heldur ekki neitt. Það hafa engar reglur verið settar um að takmarka erlendar lántökur einkaaðila. Það hefur engin ákvörðun verið tekin um það. Þar með fauk þessi hluti af hinum einbeitta ásetningi um að skera niður erlendar lántökur. Þegar frv. loksins kemur til hv. Nd. eru erlendar lántökur orðnar, sem fjmrh. viðurkennir, 7069 millj. kr., en í raun er niðurskurðurinn sem hann var með alger nafnleysa upp á 1100 millj. kr. Þegar hlutirnir eru skoðaðir í smáatriðum hefur erlenda lánsfjártalan ekki lækkað heldur hækkað í meðferð þingsins vegna þess að hæstv. fjmrh. hefur enga grein gert fyrir því hvernig hann ætlaði að skera niður. Það liggur hvergi fyrir. Þannig fór um þetta síðasta áramótaheit þeirra hv. þm. Þorsteins Pálssonar og hæstv. forsrh. Steingríms Hermannssonar. Það er eins og fleiri sjóferðir sem þeir hafa lagt í, þeir félagarnir.

Ég gat um það áðan, herra forseti, að við afgreiðslu þessarar lánsfjáráætlunar hefði verið óvenjulega mikill hringlandaháttur. Hæstv. fjmrh. ræður ekkert við þetta verkefni. Það snýr ekki bara að Landsvirkjun og smekklausri tengingu Blönduvirkjunar við erlenda stóriðju í Straumsvík. Það snýr að fleiri þáttum. Það snýr t. d. að sjóefnavinnslu á Reykjanesi. Var það ekki iðnrh. sem lýsti því yfir að þetta fyrirtæki ætti að stoppa, slá af, það væri hið versta fyrirtæki, hann væri búinn að láta Iðntæknistofnun reikna það út fyrir sig að þetta væri svo vitlaust að þetta ætti bara að stoppa, loka þessu undir eins? En viti menn. Niðurstaðan er sú að sjóefnavinnslan er í frv. að frumkvæði hæstv. fjmrh.

Það má taka meiri dæmi í þessu frv. sem sýna algert ráðleysi og stefnuleysi í þessum efnum. Ég ætla að nefna eitt stefnuatriði. Er það stefna ríkisstj. að fjárfesting hér á landi eigi að vera 25% af þjóðarframleiðslu? Telur ríkisstj. það eðlilegt? Það hefur ekkert komið fram um það. En ég minni á að ef við ætlum að ná niður erlendum skuldum eiga menn að mínu mati að setja sér það að verja lægra hlutfalli þjóðarframleiðslu til fjárfestingar, enda sé tryggt að hún skili þjóðhagslegum skynsamlegum arði. Hvergi örlar á stefnu ríkisstj. í þessu efni, ekki varðandi erlendar skuldir, ekki varðandi fjárfestinguna, og þess vegna er það hlálegt að lesa ummæli hæstv. fjmrh., þegar hann var að mæla fyrir þessu máli í Ed. á dögunum, þar sem hann rakti stefnu stjórnarinnar í efnahagsmálum. Það átti að draga úr erlendum lántökum. Það átti að stuðla að jafnvægi í viðskiptunum við útlönd. Þetta voru meginatriði. Ég þarf ekki að rekja hérna hvernig þetta hefur misheppnast allt saman. Viðskiptahallinn 1983, þegar þessir menn tóku við, var milli 2–3%. Viðskiptahallinn 1984 er margföld sú tala og 1985 líka þrátt fyrir þann lága kaupmátt kauptaxta sem er hér í þessu landi.

Til viðbótar, herra forseti, við þau vandamál sem hér hafa verið rædd, fálmið í fjárfestingarmálum, reiðileysið í erlendum lántökum, hringlandaháttinn, þá má nefna atriði eins og Byggingarsjóð ríkisins. Hann er í fullkominni óvissu. Við Alþb.-menn höfum lagt fram frv., sem liggur fyrir Nd., um verulega tekjuöflun til húsnæðismála, innlenda tekjuöflun. Það er ekkert vit í öðru en að taka ákvörðun um verulega innlenda tekjuöflun til húsnæðismála, skattlagningu. Annað er alveg glórulaust. Ég mun freista þess í umr. um þetta mál í hv. fjh.- og viðskn. Nd. að kanna hvort menn vilja láta af þeirri stefnu, sem nú er fylgt, að leggja á Byggingarsjóð ríkisins erlend lán. Það eru algerlega glórulaus vinnubrögð.

Í þessu frv. eru með hefðbundnum hætti, má segja, birtar tillögur um niðurskurð á ýmsum sjóðum og ég vil spyrja hæstv. fjmrh. um einstök atriði í þeim efnum. Ég spyr hæstv. fjmrh.: Hverju nemur niðurskurður skv. 11. gr. frv. á Byggðasjóði? Ég vil fá upplýsingar um þetta núna vegna þess að þær eiga að liggja fyrir í fjmrn. og fjmrh. á að hafa þetta hjá sér. Hverju nemur niðurskurðurinn á Byggðasjóði?

Í öðru lagi: Hverju nemur niðurskurðurinn á framlagi í Kvikmyndasjóð? Gert er ráð fyrir 8 millj. kr. í Kvikmyndasjóð í þessu frv. eins og það kemur frá Ed. Er ekki búið að samþykkja aukafjárveitingu í Kvikmyndasjóð? Ég man ekki betur en ég hafi lesið það einhvers staðar. Þá er eðlilegt að sú tala sé hér. Annað eru bókhaldsfalsanir og ekkert annað. En það er fróðlegt að fá að vita líka hver er skerðingin á Kvikmyndasjóði.

Ég vil einnig fá að vita hver er skerðingin á Stofnlánadeild landbúnaðarins. Ég vil líka fá upplýsingar um hver er skerðingin á Fiskveiðasjóði, hver er skerðingin á Aflatryggingasjóði sjávarútvegsins, hver er staða Bjargráðasjóðs og hver er skerðingin þar.

Í frv. er gert ráð fyrir að framlag í Framkvæmdasjóð fatlaðra verði aðeins 40 millj. á þessu ári. Það er gífurleg skerðing á þeim sjóði. Nú skilst mér að hæstv. fjmrh. hafi veitt aukafjárveitingu í Framkvæmdasjóð fatlaðra núna eftir að fjárlögin voru samþykkt. Ef það er, þá er eðlilegt að sú tala sé hér inni og hver er skerðingin sem þarna er gerð tillaga um.

Ég vil fá að vita hvaða skerðingu er um að ræða til Hafnabótasjóðs og ég vil fá upplýsingar um hvaða skerðingu er um að ræða til Félagsheimilasjóðs.

Þessar upplýsingar eiga allar að liggja fyrir og það er óþarfi fyrir fjmrh. að draga það stundinni lengur að leggja fram þessar upplýsingar vegna þess að hann hlýtur að vera með þetta með sér.

Þá kem ég að 24. gr. þessa frv. Þar er gert ráð fyrir að skera niður framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og takmarka það við 635 millj. kr. Fyrir nokkrum dögum var rætt um niðurfellingu landsútsvars af olíu hér í Nd. Þá spurði ég hæstv. forsrh. að því hvort það ætti að bæta Jöfnunarsjóði sveitarfélaga þennan missi að einhverju leyti upp. Ég vildi gjarnan að hæstv. félmrh. væri hér nærri þegar þetta mál er rætt. Gæti hæstv. forseti athugað hvort hæstv. félmrh. er í húsinu? (Gripið fram í: Hann er mættur.) Já, hæstv. félmrh. Ég vildi spyrja félmrh. út í 24. gr. frv. til lánsfjárlaga. Þar er gert ráð fyrir að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fái ekki nema 635 millj. af söluskattstekjum á þessu ári. Fyrir nokkrum dögum var rætt um að lækka eða fella niður landsútsvar af ýmsum aðilum til að lækka verð á olíu og þá spurði ég forsrh. hvað gert yrði til að bæta Jöfnunarsjóði sveitarfélaga upp þetta tekjutap. Ég spurði hann: Verður talan í lánsfjárlagafrv. hækkuð? Hann svaraði að það yrði gert. Hér er óbreytt tala enn þá. Ef hæstv. forsrh. vill standa við orð sín í þessu efni verður auðvitað að breyta þessari tölu eða þá a. m. k. að tryggja að hann gefi fullnægjandi skýringar á málinu. Ég hygg að hann hafi ekki farið í grafgötur með það um hvað hann var spurður. A. m. k. svaraði hann greitt. Ég held að hæstv. félmrh. ætti að fara yfir þessa umr. í hv. Nd. til að glöggva sig á því hvað forsrh. sagði um þetta efni sem tvímælalaust hlýtur að þýða hækkun á tekjum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Ég vil þá, herra forseti, víkja að einu atriði sem reyndar kemur ekki fram í frv. til lánsfjárlaga og er nýlegt mál. Fyrir nokkrum dögum birtust fréttir í blöðum um að fyrirtækið Hagvirki hefði boðið samgrh. að taka að sér að leggja slitlag á veginn til Akureyrar, það sem eftir er af þeim vegi, um 150–170 km, og Hagvirki hefði boðist til að ljúka þessu verki fyrir árslok 1987, ég hygg sjö eða átta árum fyrr en gert er ráð fyrir í vegáætlun. Nú er þetta í sjálfu sér ekki mjög girnilegt tilboð nema fyrst og fremst vegna þess hvað verkinu er flýtt og svo þess að Hagvirki býðst til að reyna að tryggja fjármögnun á þessu verki á innlendum skuldabréfamarkaði — verki sem jafnvel þyrfti ella að taka til erlend lán. Ég vona að hv. fjvn., sem fjallar um vegáætlun, hafi fengið þetta tilboð Hagvirkis til athugunar. Og ef það væri ætlun ríkisstj. að taka vel í þetta tilboð Hagvirkis er óhjákvæmilegt að á því máli verði tekið í tengslum við afgreiðslu lánsfjárlaga. Það þarf auðvitað að reikna út hver þjóðhagslegur sparnaður er fólginn í þessari vegarlagningu á þetta stuttum tíma, bæði fyrir þjóðina í heild og þá einstaklinga sem eiga hagsmuna að gæta, og það þarf að bera þann sparnað saman við ávinning af annarri fjárfestingu sem verið er að verja í milljörðum kr. skv. þessari lánsfjáráætlun. Ég held að hérna sé um að ræða mjög athyglisverða hugmynd. Mér dettur ekki í hug að slá því föstu að hún sé endilega 100% góð og gild, ég þekki málið ekki nægilega vel til þess, en mér finnst hugmyndin þó nægilega athyglisverð til þess að hún verði rædd á hv. Alþingi og til þess að tekin verði afstaða til hennar í tengslum við afgreiðslu lánsfjáráætlunar og vegáætlunar sem á dagskrá verða hér á næstu vikum. Ég vildi spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann hafi kynnt sér þessa hugmynd um vegarlagningu til Akureyrar sem verði lokið á árinu 1987 og þá innlendu lánsfjáröflun sem gerð er tillaga um í þeim plöggum sem fyrirtækið Hagvirki hefur sent hæstv. ríkisstj.

Herra forseti. Ég get senn látið þessu máli mínu lokið. Það er bersýnilegt að í þessari lánsfjáráætlun eru engir heillegir þræðir. Lánsfjáráætlunin var að velkjast í Ed. í marga mánuði og á eftir að fá ítarlega meðferð í Nd. Nd. mun þó vafalaust eins og venjulega reyna að greiða fyrir málinu eins og kostur er. Ríkisstj. hefur gefist upp við að hafa nokkur markmið í efnahagsmálum, þ. e. að því er varðar erlendar lántökur. Ríkisstj. setur sér engar viðmiðanir í fjárfestingarmálum. Og ríkisstj., sem er skipuð mönnum sem mótmæltu harðlega lánshlutfalli upp á 32–33%, er núna búin að keyra það upp um 100%. Það er í 64–65% á sama tíma og þjóðarframleiðsla fer vaxandi. Þessi mál eru í rúst og þegar þeir þykjast ætla að fara að skera niður, formannadúett stjórnarflokkanna, er niðurstaðan í skötulíki. Þess vegna er þetta frv. í rauninni vottorð um misheppnaða fjármálastjórn, vottorð sem er lagt fram í Nd. Alþingis þegar tvö ár eru liðin frá þeirri stundu að kjósendur gengu að kjörborðinu og kusu yfir sig þá stjórn sem enn þá situr.