22.04.1985
Neðri deild: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4470 í B-deild Alþingistíðinda. (3752)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. hefur rætt hér um lánsfjáráætlun almennt og ég hef engu við hans orð að bæta að sinni, hann gerði þar skýra grein fyrir helstu atriðum sem við Alþb.-menn gagnrýnum við þessa lánsfjáráætlun. En ég hef leyft mér að flytja hér á þskj. 757 brtt. við frv. til lánsfjárlaga sem ég ætlaði að gera grein fyrir í örstuttu máli. Þar er um að ræða að á eftir 9. gr. komi ný grein sem verði 10. gr. og orðist svo:

„Framkvæmdasjóði Íslands er heimilt að taka lán að upphæð 100 millj. kr. til þess að endurlána Fiskveiðasjóði vegna mengunarvarna og orkusparnaðar í fiskimjölsverksmiðjum.“

Hliðstæð till. var flutt í hv. Ed. við meðferð málsins þar sem hún hlaut því miður ekki þann stuðning sem þurfti til. Hins vegar urðu ýmsir þm. til þess að taka undir að hér væri nauðsynjamál á ferðinni og ég vænti þess að þessi till. fái vinsamlega skoðun í hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar og vænti þess að menn sjái möguleika til þess að taka undir þetta mál sem hér er á ferðinni, þ. e. að gera fiskimjölsverksmiðjum kleift að ráðast í löngu tímabærar endurbætur varðandi mengunarvarnir og orkusparnað. Ég hef fyrr á þinginu flutt þáltill. ásamt hv. þm. Helga Seljan um mengunarvarnir í fiskimjölsverksmiðjum, þar sem er að finna rökstuðning fyrir slíkum aðgerðum, og ég vísa til þess sem þar kemur fram og til þeirra umr. sem fóru fram um þetta mál. Ég hygg að þegar liggi fyrir í hv. atvmn. Sþ. margar umsagnir sem styðja þetta mál. Ég orðaði það svo við umr. um nefnda þáltill. að það væri ekkert umhverfismál í rauninni brýnna fyrir jafnmarga en það að bæta úr því ástandi sem víða ríkir þar sem loðnubræðslur eru starfandi án þess að viðhlítandi mengunarvarnir séu til staðar. Það liggur einnig fyrir að aðgerðir af þessu tagi skila sér í bættum verðmætum afurðanna og í orkusparnaði, þannig að fjárfesting í slíkum búnaði á að skila sér betur en margt annað. Ég vænti þess að þessi till. fái stuðning að athuguðu máli í hv. fjh.- og viðskn.