23.04.1985
Sameinað þing: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4484 í B-deild Alþingistíðinda. (3758)

371. mál, verðuppgjör til bænda

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 51 leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. landbrh. um verðuppgjör til bænda. Sem eðlilegt er eru málefni bændastéttarinnar í landinu mjög til umræðu um þessar mundir. Staða hennar er með allra lakasta móti jafnvel um áratuga skeið. Fjármagnskostnaður og vaxtaokur hrjáir bændastéttina sem aðrar stéttir. Framleiðslusamdráttar ásamt misheppnuðu kvótakerfi, a. m. k. að hluta til, er íþyngjandi fyrir bændur. Niðurgreiðslur hafa verið stórlækkaðar í tíð núverandi ríkisstj. eins og kemur fram í skriflegu svari við fsp. sem hér var lagt fram í dag frá hæstv. landbrh., en samkvæmt því er kindakjöt nú 31% hærra vegna lækkaðra niðurgreiðslna heldur en verið hefði ef sama hlutfall hefði gilt og árið 1982. Mjólk er 43% hærri og smjörið er 51% hærra en verið hefði ef gilt hefði það niðurgreiðslustig sem var á árinu 1982. Margt fleira kemur þar fram sem hér verður ekki upp talið.

fsp. sem ég ber hér fram varðar verðuppgjör til bænda. Endanlegt verðuppgjör til bænda hefur dregist úr hömlu undanfarin tvö ár vegna tveggja síðustu verðlagsára. Þannig lá uppgjör vegna verðlagsársins 1983–1984 ekki fyrir fyrr en um mánaðamót janúarfebrúar s. l. eða nærri hálfu ári eftir að verðlagsárinu og viðkomandi framleiðslutímabili lauk. Sá glaðningur sem barst bændum þá seint og um síðir fól í sér verulega skerðingu á verði til þeirra og það enda þótt menn hefðu ekki farið neitt fram úr umsömdu búmarki eða kvóta. Þá kom þarna til skerðingar annað árið í röð. Og þessi skerðing kemur beint á launalið viðkomandi bónda, af öðru er þar ekki að taka. Verðlagsárið á undan var þarna einnig um skerðingu að ræða og hafa verið reiddar fram af Framleiðsluráði landbúnaðarins upplýsingar um það. Á því verðlagsári vantaði á bilinu 5–10 kr. á hvert kg kjöts á þáverandi verðlagi á að fullt verð fengist hjá ýmsum afurðasölufélögum eða sláturleyfishöfum.

Þessar niðurstöður, sem þannig berast bændum seint og um síðir, gera þeim að sjálfsögðu erfiðara fyrir um að skipuleggja sinn búrekstur og breyta til um áherslur og því er afar tilfinnanlegt þegar svo tekst til, eins og raun ber vitni, að þetta uppgjör kemur ekki fyrr en komið er fram á næsta verðlagsár og það verulega. Slíkir uppgjörshættir eru alveg óþolandi fyrir bændastéttina, ekki síst í þeirri þröngu stöðu sem hún nú býr við að miklum hluta. Ég inni hæstv. landbrh. eftir því í fyrsta lagi: Hvað olli því að uppgjör á endanlegu verði til bænda fyrir verðlagsárið 1983–1984 lá ekki fyrir fyrr en í janúar 1985? Og í öðru lagi: Er að vænta breytinga á endanlegu uppgjöri, m. a. til að auðvelda bændum skipulagningu á búrekstri?