23.04.1985
Sameinað þing: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4490 í B-deild Alþingistíðinda. (3764)

385. mál, úrbætur í sjávarútvegi á Suðurnesjum

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra svörin og þær upplýsingar sem hann gaf. Þær voru fróðlegar. Að vísu var erfitt að fylgjast með því nákvæmlega hvaða skip væri um að ræða og hugsanlegt er að eitthvað vanti í þessa skrá þó að ég hafi enga möguleika til að staðhæfa það. En skv. þessu er um verulega sölu á skipum út af svæðinu að ræða og verulegan samdrátt í þeim heildaraflakvóta sem þau skip hafa yfir að ráða sem á svæðinu eru gerð út, hvort heldur litið er á þessar tölur eða aðrar ágiskunartölur eða matstölur sem við höfum séð.

Ég fagna því að fram kom í ræðu ráðherra að honum væri ljóst að við verulega erfiðleika væri að stríða í útgerð á Suðurnesjum og að í gangi væri úttekt á vegum Framkvæmdastofnunar á ástandi í útvegi þar. En okkur dugar náttúrlega ekki úttektin ein og með tilliti til þess að ráðherra treystir sér ekki til þess að taka undir þær ábendingar tvær sem sérstaklega sneru að honum og fram komu í ályktun fólks í sjávarútvegi á Suðurnesjum, þá er náttúrlega þeim mun brýnna að leitað verði annarra leiða til að renna styrkari stoðum undir þessa atvinnugrein á Suðurnesjum. Ég hefði talið að það væri ástæða til þess að jafnhliða og í framhaldi af þeirri úttekt sem í gangi er yrði litið til þess og gerð áætlun um það með hvaða hætti mætti styrkja stöðu sjávarútvegsins, bæði að því er varðar útgerðina sjálfa og vinnslu á Suðurnesjum. Ég held að alþekkt sé að skipastóll, bátar af þessu svæði séu með því elsta sem gerist á landinu að meðaltali ef ekki alelstir. Þar er því ákveðinnar endurnýjunar þörf. Ég held að það sé líka alþekkt að tækjakostur og endurnýjun í hraðfrystihúsum og í fiskiðnaði á Suðurnesjum hafi a. m. k. til skamms tíma ekki verið jafnlangt fram skriðinn og víða annars staðar og í þriðja lagi að fjárhagsstaða fyrirtækjanna þar væri veikari en víðast hvar annars staðar ef ekki alls staðar að meðaltali. Þetta þrennt eru þá verkefni sem verður að líta til og vinna að og ættu að mínum dómi að vera verkefni jafnhliða og í framhaldi af þeirri úttekt sem Framkvæmdastofnun vinnur að.

Hættan er auðvitað sú að fleiri fyrirtæki loki á Suðurnesjum á næstu mánuðum eða misserum. Á því verður að hafa vakandi auga vegna þess að það er vitaskuld ótækt að 200 manns eða þar um bil gangi atvinnulausir mánuðum saman, eins og gerst hefur á Suðurnesjum, vegna þess samdráttar sem hefur átt sér stað í útgerð og fiskvinnslu. Ég vænti þess að hæstv. ráðh. reyni að beina vinnunni í þennan farveg og veiti stuðning sinn til þessa verkefnis.