23.04.1985
Sameinað þing: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4495 í B-deild Alþingistíðinda. (3772)

395. mál, framleiðslustyrkir til kartöfluverksmiðja

Þorsteinn Pálsson:

Herra forseti. Ég var að vísu ekki viðstaddur upphaf þessarar umræðu en mér finnst rétt að það komi fram í framhaldi af ræðu hv. þm. Eiðs Guðnasonar að hér er um að ræða að mínu mati mjög eðlilegar aðgerðir til styrktar iðnaðarframleiðslu úr íslenskum kartöflum. Þetta er heldur ekkert einsdæmi í iðnaðarframleiðslu í landinu. Við skulum horfa til þess að súkkulaðiverksmiðjur í landinu njóta þess að fá mjólkurduft á heimsmarkaðsverði niðurgreitt til þess að njóta samkeppnisaðstöðu við erlendar verksmiðjur. Það sem hér hefur gerst er mjög svipaðs eðlis. Þessar verksmiðjur hafa fengið sitt hráefni á svipuðu verði og þær verksmiðjur sem þær eiga í samkeppni við á hinum innlenda markaði. Frá mínum bæjardyrum séð er á engan hátt óeðlilegt að standa þannig að verki.

Það hefur líka verið dregið fram að eðlilegt væri að framleiðendur lækkuðu verð á sinni vöru þegar framboð á henni væri meira en markaðurinn tekur við. Út af fyrir sig má á það fallast að þetta væri eðlileg skipan ef verðmyndun væri frjáls, ef markaðslögmálið mætti gilda þegar uppskerubrestur er og framboðið minna. En þá gilda verðlagsákvæði um þessa framleiðslu. Ef framleiðendurnir fengju við þær aðstæður að láta markaðslögmálið gilda og selja afurðirnar á því verði sem markaðurinn leyfði þegar framboðið er lítið þá væri eðlilegt að gera þá kröfu að þeir lækkuðu verðið þann tíma sem framboðið er mikið og framleiðslan mikil. En á þessa skipan hafa menn ekki viljað fallast. Þess vegna á þessi gagnrýni ekki við rök að styðjast meðan aðstæðurnar eru þessar. Það er ekki hægt að láta markaðslögmálið vinna aðeins á annan veginn. Þetta vildi ég að fram kæmi vegna ummæla hv. þm.