23.04.1985
Sameinað þing: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4501 í B-deild Alþingistíðinda. (3783)

432. mál, hörpudisksmið í Breiðafirði

Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svörin. Nánast allt sem fram kom í ræðu hæstv. sjútvrh. staðfesti þær áhyggjur sem fram komu í formála að minni fsp., þær áhyggjur sem sjómenn og fiskvinnslufólk og í rauninni allir þeir fjölmörgu, sem byggja afkomu sína á skelvinnslu við Breiðafjörð, hafa haft. Fram kom að það eru áhyggjur í sjútvrn. yfir því hversu langt hefur verið gengið á ákveðin svæði. Augljóst er að þarna þarf að fara með gát.

Ég verð að segja það að ég er ekki fyllilega ánægður með fyrirætlanir rn. um rannsóknir á svæðinu og tel alls ekki fullnægjandi að það verði ekki fyrr en um mitt sumar sem verði farið að huga að þessum rannsóknarleiðangri á Dröfn. Hins vegar hefur það margkomið fram hjá sjómönnum og útgerðarmönnum að þeir hafa verið tilbúnir til þess að leggja fram bæði skip og vinnu til að stuðla að rannsóknum.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði hér í fsp. minni, að ég tel að þegar veiðikvóti er aukinn sé ekki síst ástæða til þess fyrir sjútvrn. að leggja sérstaka áherslu á það að rannsóknir fari fram. Þess vegna hefði ég vænst þess að sjútvrn. hefði frumkvæði að því að hefja mjög ítarlegar rannsóknir. Lífríki Breiðafjallaðar er afskaplega viðkvæmt. Skelveiðarnar hafa sem betur fer gengið vel en auðvitað er þetta ný veiðigrein hjá okkur Íslendingum og þess vegna þarf ekki síst að huga vel að áhrifum veiðanna við fjörðinn.

Ég vil hvetja ráðh. til að beina sjónum sínum enn frekar að rannsóknum við Breiðafjörð vegna þess, eins og hann kom reyndar inn á hvað varðar kúfiskinn, að það gæti verið liður í frekari rannsóknum. Þessar rannsóknir hvað varðar hörpudiskinn og rannsóknir og leit að nýjum veiðimöguleikum eru mikilvægur rannsóknaþáttur, ekki aðeins hvað varðar kúfiskinn heldur ýmis önnur krabbadýr og skeldýr sem í firðinum eru.

Ég þakka sjútvrh. fyrir svör hans en legg mikla áherslu á að rn. gangi betur fram en það hefur gert í að láta rannsaka hörpudisksmiðin í Breiðafirði.