23.04.1985
Sameinað þing: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4502 í B-deild Alþingistíðinda. (3785)

432. mál, hörpudisksmið í Breiðafirði

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að hafa vakið athygli á þessu máli og tek undir orð hans um að auka þurfi rannsóknir á hörpudisksmiðunum við Breiðafjörð, og ekki aðeins hörpudisksmiðunum heldur líka almennt á lífríki Breiðafjarðar. Það mun jafnvel hafa verið samþykkt hér þáltill. um að fram skyldi fara ítarleg rannsókn á lífríki Breiðafjarðar en mér er ekki kunnugt um að þeirri þál. hafi verið framfylgt.

En fullyrðingu hæstv. 5. landsk. þm. um að illu heilli hefði verið bætt við einu leyfi við Breiðafjörð, skelveiðileyfi eða framleiðsluleyfi á þessu ári, vil ég mótmæla sem frekar órökstuddri nema að farið hafi fram rannsóknir sem sýni það og sanni að skelfisksmiðin í Breiðafirði þoli ekki þá veiði sem núna er skömmtuð þar og þoli jafnvel ekki meiri veiði en þar fer fram núna. Það sem vantar og hefur vantað á undanförnum árum við Breiðafjörð er að kanna þessi mið til hlítar. Það hefur því miður ekki verið gert, en það hefur verið óskað eftir því í hvert skipti sem einhver breyting hefur átt sér stað í veiðisókninni að frekari rannsóknir og fullkomnar rannsóknir eigi sér stað á þessum miðum. Það hafa komið fram mótmæli í hvert skipti sem veiði hefur verið aukin, leyfum hefur verið fjölgað og sagt að nú væri illu heilli bætt við einni vinnslustöðinni og að það væri verið að skapa hér offjárfestingu. Ég held að engar sannanir liggi fyrir um þessar fullyrðingar. (Forseti hringir.) Ég heyri að ræðutími minn er búinn en ég vildi koma því hér á framfæri að ég vil ekki taka undir að það sé rökstutt að sú sókn sem nú er stunduð í skelfisksstofna sé of mikil. En til þess að við vitum að svo sé ekki er nauðsynlegt að auknar rannsóknir eigi sér stað á Breiðafirði.